þriðjudagur, 31. janúar 2006

Janúarannáll

Þar sem janúarmánuður hefur heldur verið í rólegri kantinum hér í Nordvest langar mig að taka saman hvað ég hef hafst við til að gefa mér tilfinningu fyrir því að ég hafi þó komið einhverju í verk.

Hvað bókmenntir snertir las ég fimm skáldsögur. Í byrjun janúar las ég Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Svo var það hún Angela's Ashes eftir Frank McCourt sem kom mér á bragðið með kartöflustöppuna. Fyrir utan augljósan ávinning af því að uppgötva nýjan rétt fannst mér sagan algjört afbragð. Svo las ég líka bókina hans Jóns Kalmans Stefánssonar Sumarljós, og svo kemur nóttin, barnabókina The city of the beasts eftir Isabelle Allende og í lok mánaðarins las ég bók Alexanders McCall Smith The Sunday Philosophy Club (mikil vonbrigði þar á ferð).

Kvikmyndir mánaðarins voru níu talsins. LOTR syrpan var eins og mig minnti afbragðsskemmtun, The Gods Must Be Crazy var mjög fyndin og Ray góð. Aftur á móti var myndin Paris when it sizzles með Audrey Hepburn langdregin og leiðinleg og sama má segja um mynd indversku leikstýrunnar Miru Nair, Kama Sutra: A Tale of Love. Má ég þá frekar biðja um að horfa aftur á Brother Bear, hún var þó fyndin.

Núnú, af fleiri afrekum mánaðarins má nefna að við komumst klakklaust frá föstudeginum þrettánda, mér tókst að ljúka ritgerð og skila henni af mér, ég lagðist í hýði og slasaði mig í svefni, ofkynti heimili mitt og fór í afmælisboð, fékk brenndar möndlur með kanil á Købmagergade og fór í innflutningspartý í Svíþjóð.

Þegar ég lít yfir farin veg sé ég hversu miklu ég kom í raun í verk, þrátt fyrir allt! Lifa í sjálfsblekkingu? Nei, öldungis ekki - sjá hlutina í réttu ljósi öllu heldur :0)

Engin ummæli: