miðvikudagur, 12. júlí 2006

Hverfisbragur

Í kvikmyndum sem gerast í stórborgum eru sögupersónurnar gjarnan þaulkunnugar hverfinu og er heilsað af kaupmanninum á horninu og vanalega mæta þær einhverjum kunningja skömmu síðar og heilsast með kumpánlegum stíl. Þegar ég sé svona þá kemur orðið rugl gjarnan upp í hugann því allir vita að svona er þetta ekki í raunveruleikanum.

Mér til mikillar gleði hafði ég rangt fyrir mér. Þegar ég spássera hér um Frederikssundsvej heilsar grænmetissalinn mér án undantekninga, á ljósum skora skellinöðrustrákar á mig í spyrnu (ég vann) og í prófatíðinni mætti ég einum sem spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að láta sjá mig í gymminu.

Það er sannarlega hverfisbragur á hlutunum hér í Nørrebro NV og gaman að vera hluti af stemningunni og þar sem arabíska er jafnmikið töluð hér um slóðir og danska er ég farinn að tileinka mér helstu frasa eins og að bjóða góðan dag, sjáumst, takk og svoleiðis.

Arabískunámskeiðið mitt byrjaði með því að einn af gaurunum hérna í Jerúsalem fór að segja mér hvernig maður heilsaði upp á arabísku. Þetta fór svona inn um annað eyrað og útum hitt. Nokkru síðar mætum við Ásdís honum á götu og hann heilsar upp á arabísku og ég heilsa að hætti þeirra sem kunna ekki að tala arabísku.

Eftir þetta ákvað ég að næst skyldi ég gera þetta almennilega og fékk einn kunningja minn í Jerúsalem til að kenna mér helstu frasana og nú gengur þetta svo vel að stundum fara viðskiptin einvörðungu fram á arabísku og alltaf verða félagar mínir jafnhissa þegar ég monta mig aðeins af nýjum orðum. Áhugasömum bendi ég á þetta ágæta byrjendaefni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey snilld :) Mig langar að læra arabísku. Þetta er eitthvað sem maður verður einhvern tíma að gera.

baldur sagði...

Þetta er mjög spennandi tungumál og ég held að það sé lykill að áhugaverðum menningarheimi sem Vesturlandabúar botna ekkert í.

Ma?assalama (þýðir sjáumst)