Við höldum nú frá Auroville eftir þriggja vikna dvöl. Upphaflega var planið að vera aðeins fjóra daga en Guði sé lof fyrir sveigjanleikann í plönum okkar, hann gerði okkur kleift að lengja dvölina svona mikið. Okkur hefur liðið eins og blóma í eggi og við kveðjum staðinn með miklum trega.
Við förum þó ekki tómhent frá Auroville. Við eignuðumst yndislega vini í Ingibjörgu og Víði, uppgötvuðum nýtt áhugamál hvað mótorhjólið snertir, erum núna afskaplega spennt fyrir frekari yoga ástundun, sér í lagi astanga yoga, og höfum fengið endalausar spennandi hugmyndir fyrir framtíðina. Annað sem við höfum með í farteskinu frá Auroville, en er erfitt að ferðast með, sendum við heim fyrr í dag frá Pondy: arkitekúrsbókin góða, fimm smámyndir eftir teiknarann Vahula og ógrynnin öll af bókum.
Þrátt fyrir að hafa eytt þremur vikum í Auroville náðum við aldrei að kíkja á Siddhartha Farm og Buddha Garden en þar er hægt að stunda garðyrkjusjálfboðastörf í lífrænni ræktun á morgnana. Þá eigum við enn eftir að kíkja á Pony Farm og lífræna veitingastaðinn í Solitude, fara aftur í Watsu og fleiri astanga yoga tíma auk allra hinna vinnubúðanna sem eru hér í boði. Mér sýnist vera feikinægur grundvöllur fyrir annarri heimsókn.
Myndir frá Auroville dvölinni eru komnar á netið: Hér!
1 ummæli:
Tíhí, það var svo gaman í Auroville og við vonum bara að við höfum náð að kynna það fyrir öðrum á sómasamlegan hátt. Þetta er nefnilega stórmerkilegt starf sem þarna fer fram.
Takk fyrir hrósið um ferðasögur, ég segi nú bara það sama, ég elska að kíkja á froskinn :o)
Súperkveðjur frá súperferðalöngum (a.k.a. Súper Onkel og Súper Tanta)
Skrifa ummæli