Við komum snemma í morgun til Kodai Kanal. Við ferðuðumst með næturrútu í semi-sleeper vagni, sem þýðir að maður hefur skemil undir fæturnar og getur hallað sætinu vel aftur. Það er þó ekki það sama og að geta lagst flatur, það er alveg víst. Þar að auki er vegurinn frá Pondicherry hingað ansi holóttur á köflum svo svefninn var oft rofinn þegar maður hentist upp úr sætinu.
Kodai Kanal er svokölluð hill station, er í 2000 metra hæð og er hluti af Western Ghats, en þau eru einmitt næst hæstu fjöll Indlands á eftir Himalaya fjallagarðinum. Kodai Kanal er á Palani hryggnum og hefur yfir að skarta mikilli náttúrufegurð og ríkulegu dýraríki. Þegar rútan fikraði sig upp fjallshryggina var útsýnið alveg dásamlegt: Skógi vaxnar hæðir svo langt sem augað eygir, grænar í návígi en blágráar í fjarska. Trén eru há og grönn með mikilli trjákrónu, þau líkjast helst tannstönglum með grænum bómullarhnoðum áfestum.
Við fundum ódýrt herbergi þrátt fyrir að allt gistipláss bæjarins væri uppbókað. Það kom nefnilega í ljós að nú er fjögurra daga frí í Tamil Nadu svo allir miðstéttar Tamílar héldu til fjalla til að sleppa undan hitanum á sléttunum. Loftið hér er mun þynnra og léttara og ég sakna ekki rakans. Aðalsportið hér er að trekka um skóga og fjöll og svo er stöðuvatn í hjarta bæjarins sem gaman er að rölta hringinn um. Við ætlum að gefa þessu nokkra daga.
2 ummæli:
Gaman að lesa bloggið ykkar, þetta er eins og 1001 nótt. Reyndi að hringja í dag 31 mars en það gékk ekki.
Byð að heilsa.
God rejse.
Ásgeir.
Takk fyrir góða kveðju og enn og aftur takk fyrir alla hjálpina :o)
Símainneignin er búin og þess vegna næst ekki í okkur um þessar mundir. Indverjarnir hér á bæ fullyrða allir að þeir geti ekki fyllt á sim kort frá Bangalore, jafvel þó við séum með National Roaming. Típískt!
Skrifa ummæli