Ekki ganga allar áætlanir og plön nákvæmlega eins og ætlað er og er þá gott að búa yfir aðlögunarhæfni. Í dag var t.d. áætlað að gera jóga á svölunum en þar sem moskítóflugurnar voru mættar í vinnuna var það ekki hægt. Ásdís stakk þá upp á þeirri snilld að við Elfar tækjum bara smáhlaup á ströndinni og varð úr að við tókum nokkra harða spretti í sandinum.
Að sprettum loknum ætluðum við að skella okkur í svalandi sjóinn en ekki gekk það. Hví ekki? Sjór sem er heitari en líkaminn er ekki svalandi svo úr varð að við skelltum okkur í heitan og notalegan sjóinn. Annað plan sem varð að breyta.
Eftir smásund og stutta rannsóknarferð á kajakleigu fundum við svæði á ströndinni þar sem hægt var að gera jóga óáreittur. Þetta var allt saman ansi vel heppnað og einfalt, sólarhylling aftur og aftur. Ég var fyrir framan og gaf leiðbeiningar um hverja stöðu og þegar við vorum komnir í eina sem heitir hundurinn átti eftirfarandi samtal sér stað:
B: nú stoppum við og njótum þess að vera í hundinum (í svona afslöppuðum jógakennaratón)
E: Mér sýnist nú hundarnir vera meira í mér (með smá Harrís- og Heimisfílíng).
B lítur aftur fyrir sig og sér tvo hunda sniglast í kringum Elfar og rannsaka hvort hundastaðan sé nú nógu góð. Það var gert með tignarlegu hnusi af öllum mögulegum stöðum en greinilega voru þeir sáttir því þeir lögðust sitt hvoru megin við kappann og fylgdust með. Annar sofnaði reyndar fljótlega.
Það má segja að sumpart hafi andi Þórbergs svifið létt yfir vötnum, jóga og sjóböð. Ef hann er enn á lífi þá er ég viss um að hann sé að skrifa nýja bók: Email til laracroft@torbergur.is.
1 ummæli:
Tíhí... arf, she said.
Skrifa ummæli