Hér í Chiang Mai er boðið upp á alls konar skoðunarferðir og túra um svæðið, allt frá blönduðum dagsferðum og upp í nokkurra daga frumskógarferðir. Í gær ákváðum við að nýta okkur þennan frábæra möguleika og tókum bland í poka fyrir einn dag.
Hópurinn sem við ferðuðumst með samanstóð af Dana, Kaliforníubúa og tvennum kóreskum hjónum. Fyrsta stopp var á blóma- og fiðrildabúgarði þar sem gaf að líta glás af fallegum blómum og undrafalleg, risastór fiðrildi. Svo stór voru þau að hvor vængur var á stærð við opinn lófa minn með puttum og alles! Sem allir stóðu og góndu á fiðrildin var okkur bent á að þarna væru líka ræktaðir sporðdrekar og komumst að því, okkur til skelfingar, að þeir voru ekki allir í búrinu sínu! Setjið Ókindarstefið á!
Næst á dagskrá var heimsókn til nokkurra ættbálka sem búa allir í einum hnapp, minnti svolítið á Tælandsútgáfu af Árbæjarsafni nema hvað þarna býr fólk. Meðal ættbálkanna er hópur sem kallast Hálslangir, konurnar raða járnhringjum á hálsinn til að lengja hann, og annar sem kallast Eyrnastórir, þar er fólk með risastóra viðareyrnalokka sem gera eyrun afar áberandi. Aðrir ættbálkar voru: Hmong, Karen, Lahu og Lisu. Ég skaut af bambuslásboga með góðum árangri og Ásdís prófaði að verka hrísgrjón að hætti heimamanna, við vorum komin í kynjahlutverkin.
Eftir allt þetta erfiði var ekki annað í stöðunni en að stökkva á bak næsta fíl og skella sér í hálftíma labbitúr. Já, við fórum á fílsbak og við fengum stærsta fílinn! Fílatúrinn endaði svo við á sem við urðum einhvern veginn að komast yfir. Kominn tími til að skipta um fararskjóta! Við ánna var kláfur sem helst líktist búri til dýraflutninga en reyndist hið mesta skemmtiapparat þegar við renndum okkur á járnvír yfir ánna, víííííí!
Eftir stutt hádegisstopp var haldið í gönguferð inn í skóginn, meðfram annarri á. Gangan reyndist hið mesta fjör og vorum við því fegnust að hafa verið í sandölum því bæði var stígurinn drullugur eftir rigningar og að auki þurftum við að stikla margsinnis yfir ánna og blotnuðu margar tær við það.
Gönguferðin endaði svo við ægifagran foss og eftir að hafa tekið mynd af hverjum og einum með fossinn í baksýn hóaði leiðsögumaðurinn hópinn til baka. Bakaleiðin þótti mér að mörgu leyti skemmtilegri því þá gat ég betur notið náttúrufegurðarinnar, í staðinn fyrir að vera upptekinn af því að fylgjast með leiðsögumanninum.
Hljómar bara sem skemmtilegt dagsprógramm, ekki satt? Bíðið við, stuðið var rétt að byrja því næst á dagskrá var rafting! Hópurinn var allur tekinn í gegnum hraðnámskeið í hvernig ætti að hegða sér í gúmmíbát á straumharðri á. Hinar ýmsu upphrópanir voru æfðar svo róðrarlið gæti orðið samtaka á ögurstundu.
Hópnum var skipt í tvo báta og voru það Vesturlandabúar á móti Asíubúum og var hvert tækifæri notað til að skvetta á hitt liðið. Tækifærin voru þó ekkert alltof mörg því maður átti fullt í fangi með að halda sér niður allar flúðirnar og eitt skiptið hélt ég að báturinn myndi steypast á hvolf, rétt slapp (hjúkkett).
Þegar hasarköflunum lauk stukkum við af bátnum og yfir á bambusfleka. Mér var fengið margra metra langt prik og sagt að stjaka flekanum frá hremmingum. Flekar af þessu tagi eru gerðir til að bera þrjár til fimm manneskjur en við vorum hvorki meira né minna en níu! Flekinn maraði því í hálfu kafi og ekki bætti úr skák að leiðsögumaðurinn gerði sér það að leik að ganga fram og aftur og kaffæra þannig flekanum og farþegunum með. Oft sá maður ekkert hvar flekinn væri og tímabili stóð ég í vatni upp að mitti.
Eftir þessi ósköp var prógramminu svo að segja lokið og öllum hleypt í land til að þurrka sér og skipta um föt. Eftir það var stoppað stutt hjá einum ættbálki í viðbót og sáum við þá hvernig nýslátruðu dýri er skipt á milli íbúanna. Ekki veit ég hvaða dýr þarna var á ferðinni en allir virtust sælir með sitt.
Þetta var sko bland í poka að mínu skapi! Eftir dag eins og þennan hristist hópurinn óhjákvæmliega vel saman og maður lærir helling af nýjum hlutum. Bílferðin heim var að mínu mati besti mælikvarðinn á dagsverkið því varla heyrðist múkk í neinum og dottaði annar hver maður eða starði hálfsofandi á fagurgrænt umhverfið líða hjá.
2 ummæli:
Hmm... Indiana Jones Goes East.
vá þvílíkt ævintýri, get ímyndað mér að þið hafið lagst sátt og glöð á koddan ykkar. Merkilegt til þess að hugsa að sama dag var ég inni mest allan daginn með Karólínu veika hins vegar var allt morandi í litlum einlitum gráum fiðrildum;)....ég gæti kannski stofnað búgarð. Það er yndislegt að lesa um ævintýri ykkar á framandi slóðum! kveðja frá fiðrildamýri
Skrifa ummæli