laugardagur, 30. október 2010

Kama Sutra í Kajuraho

Árið 1838 var breskur landkönnuður á ferðinni um Makudhya Pradesh sem er fylki norðarlega í Indlandi. Til að stytta sér leið braust hann í gegnum frumskóg nokkurn með föruneyti sínu. Þar rambaði hann á dýrðleg hof inn í miðjum frumskóginum, hof sem frumskógurinn hafði gleypt og varðveitt í nokkrar aldir. Flest hofanna voru í rúst en þó voru um 25 þeirra í nokkuð eða jafnvel mjög góðu ástandi. Það sem vakti sérlegan áhuga voru stytturnar og freskurnar sem hoggnar höfðu verið í mjúkan og ljósan stein úr árbakka Ken árinnar. Flestar myndirnar sýndu menn og fíla í bardögum en svo voru höggmyndir sem sýndu fólk í hinum ýmsustu kynlífsstellingum úr kama sutra fræðunum. Einstaklega áberandi voru styttur af barmmiklum konum með sveigju í baki og upprétta handleggi, í eggjandi dansi. Viti menn, nýr ferðamannastaður hafði fæðst.

Við komum hingað til Kajuraho til að skoða þessi hof og höggmyndir. Við leigðum okkur sitthvort ´80s vasadiskóið með leiðsögn um svæðið. Þannig fengum við að vita að samkvæmt helgisögum á tunglguðinn Chandra að hafa hrifist svo mjög af ungmey nokkurri þegar hún baðaði sig í lækjasprænu að hann kom til jarðar og gat henni son. Á þessi sonur að hafa byggt hofin við Kajuraho. Hins vegar halda sagnfræðingar því fram að Chandela ættveldið hafi staðið fyrir byggingu hofana á árunum 950 til 1050. Hofin eru helguð hinumm ýmsustu guðum: Shiva, Vishnu, Parvati, Surya, Kali, Ganesh og jafnvel Nandi, nautinu sem dregur vagn Shiva.

Við helgiathafnir voru guðunum færðar fórnir úr frumefnunum fimm; blómakransar og ávextir (jörð), bjölluhljómur (ether), eldur í lömpum og reykelsi (loft), og svo á vatn að hafa flætt um þar til gerðar rennur innan hofsins. Fyrir framan altarið var upphækkað svið sem var notað sem danspallur. Í öllum hornum upp í lofti voru styttur af þokkafullum kvendönsurum og sitthvoru megin ofan við sviðið voru gluggar og þar stóðu seiðkarlar sem stýrðu hreinsunargaldri á meðan brúðurin steig stimamjúkan dans á sviðinu fyrir neðan. Þvílík athöfn! Þetta hefur aldeilis verið sjón að sjá.

Við tókum góðan slatta af myndum og linsan beindist helst að kama sutra styttum. Við munum reyna að uppfæra þær á vefinn eins hratt og auðið er því ég veit að margir bíða spenntir haha!

2 ummæli:

baldur sagði...

Áhugavert þótti mér að allar aðalhofstytturnar af Shiva eru einfaldlega sívalningar. Ekki var það endilega lögunin, enda alkunna að vísa í reðurtákn þegar skaparar eru annars vegar, heldur orðin: Shiva og shivalningur!

Unknown sagði...

Já! Þú segir nokkuð...