Loksins látum við í okkur heyra á þessum vettvangi! Undanfarnir mánuðir hafa ekki beinlínis boðið upp á safaríkar ferðalýsingar þar sem við höfum fyrst og fremst verið staðsett á hverjum stað fyrir sig til langs tíma og varið tíma okkar í jóga. Við höfum látið duga að minna á okkur í gegnum Facebook og hefur það að okkar mati komið vel út.
Seinast þegar við létum heyra í okkur vorum við í Rishikesh. Koma okkar þangað markaði ákveðin tímamót í ferðinni; við hættum bakpokaflandri og í staðinn sóttum við jógatíma hjá Louise Ellis. Þess á milli lásum við og undirbjuggum okkur fyrir jógakennaranámið, rifjuðum upp hvernig maður spilar á spil, fórum í gönguferðir og borðuðum góðan mat með góðum jógum.
Eftir sex yndislegar vikur í Rishikesh héldum við för okkar áfram suður á bóginn, sem var mjög viðeigandi og skynsamlegt í ljósi þess hve kalt var orðið norður frá í Rishikesh, og einkum og sér í lagi ef tekið er mið af því hve illa búin við vorum (og erum enn) fyrir kulda og vosbúð!
Fyrripart desembermánaðar flugum við til fylkisins Tamil Nadu, nánar tiltekið fórum við til uppáhaldsbæjarins okkar Auroville. Við dvöldum einmitt þar fyrir fjórum árum og vorum yfir okkur hrifin af rauðu leirvegunum sem maður þeytist eftir á mótorhjólinu. Þar dvöldum við í fjórar vikur og æfðum jóga hjá Monicu Marinoni.
Við tókum okkur tæplega viku jólafrí og fórum til smábæjarins Puttaparthi til að hitta fjölskylduna okkar, Stellu, Kristján og stelpurnar sem voru komin til Indlands til að heimsækja Sigrúnu móður Kristjáns. Við tókum næturrútu frá Pondy til Bangalore á aðfangadag og því fór það svo að á afmælisdaginn minn jóladag vaknaði ég í rútu við smellin jólalög sem ómuðu úr hátölurum rútunnar.
Frá Auroville flugum við svo snemma í janúar yfir til strandfylkisins Goa, þar sem jógakennaranámið fór fram. Þar dvöldum við í hvorki meira né minna en fjóra mánuði! Við komum tímanlega og fórum seint :) Námið tók níu vikur og var þar sem maður kallar á lélegri íslensku intense. Námið fór fram á vegum Brahmani Yoga Centre í Anjuna, og var í alla staði frábært. Við vorum að frá sjö á morgnana til sjö á kvöldin og fólst dagskráin m.a. í daglegri 2ja tíma jógaæfingu á morgnana, klukkutíma kvöldæfingu og klukkutíma önduaræfingum og hugleiðslu.
Þess á milli vorum við á fullu að fara yfir námsefnið, en þar var af nógu að taka: jógakennslufræði, jústeringar á stöðum, anatómía og jógaheimspeki svo eitthvað sé nefnt. Við sóttum líka svokallaða Talk through tíma þar sem við kenndum samnemendum okkar stöðurnar og fengum umsagnir um hvernig við stóðum okkur. Nokkrum sinnum í viku aðstoðuðum við í alvöru jógatímum. Undir lok námsins tókum við lokapróf þar sem við nemarnir kenndum 90 mínútna tíma frá A-Ö. Það gekk ljómandi vel og allir flugu í gegn enda var hér einstaklega vandaður hópur á ferð :)
Eftir að jógakennaranáminu lauk leið okkur örlítið eins og við hefðum verið í níu vikur inn í þvottavél á fullri vindu. Við vorum þreytt og undin, svo við tókum okkur góðan tíma í að ná áttum og melta það ógrynni af upplýsingum sem við höfðum meðtekið á þessum níu vikum. Við nutum þess að fara aftur í hlutverk ferðmannsins og skoða Panjim, höfuðborg Goa fylkis, fara í bíó og á strendurnar. Eftir nokkrar vikur af þessum vorum við hins vegar komin með nóg af hitanum og rakanum í Goa og héldum norður á bóginn.
Í byrjum maí flugum við upp í Himalayafjöllin til að dvelja á öðrum uppáhaldsstað okkar á Indlandi: McLeod Ganj. McLeod er smábær rétt fyrir ofan Dharamsala. Frægð og vinsældir þessa smábæjar má rekja til þess að hér býr Dalai Lama og því er bærinn líka að vanda uppfullur af tíbetsku flóttafólki og búddanunnum og munkum hvaðanæva.
Hér erum við enn í góðu yfirlæti. Í byrjun dvalar okkar var veðrið dásamlegt upp á hvern einasta dag: heiðskír himinn og ferskt og þurrt loft með barrnála angann í golunni. Veðrið minnti einna helst á sumardagana heima, eins og þeir gerast bestir. Við nýttum okkur þá auknu orku og framkvæmdagleði sem kemur yfir mann þegar maður loks sleppur úr þrúgandi hita og raka til að ganga hér um fjöll og firnindi. Við fundum fossa sem við vissum ekki af, sólböðuðum okkur á klettum innan um forvitna hunda og gapandi geitur, gengum upp að stöðuvatni sem reyndist vera tómt o.s.frv. Í stuttu máli sagt: Yndislegt líf á yndislegum stað.
Nú hefur veðrið hins vegar aðeins breyst og monsoon rigningarnar eru farnar að herja á litla fjallabæinn okkar. Og eins og áður hefur komið fram, þá erum við einstaklega illa búin undir vond veður, svo við erum farin að hugsa okkur til hreyfings. Við lofum engu, en vonum samt að við látum vita af ferðum okkar hér á næstu vikum :)
3 ummæli:
Gaman! Takk fyrir þetta ferðasöguágrp og til hamingju með lífið.
Æðislegt að lesa sögurnar ykkar! Lífið er svo sannarlega yndislegt. Oh hvað ég hlakka til þegar ég get skellt mér á jóganámskeið til ykkar hjóna :)
Knús frá klakanum.
Takk takk! Yndislegt að vita til þess að ferðasögurnar séu lesnar :) Hlakka mjög til að kenna þér jóga kæra Saló!
Skrifa ummæli