Við fengum fínt sumarveður í gær, svona gluggaveður samt, en nóg til þess að ég bretti upp ermarnar og henti í sumarsalat. Við köllum þetta Salat a la tengdó, því tengdamamma tengdapabba (þ.e. Stella amma Baldurs) gerði oft áþekkt salat að mér skilst. Nú er það svo að mínir tengdaforeldrar gera oft svona salat og ávallt við mikla hrifningu mína og því ætla ég snöggvast að deila uppskriftinni hér.
Leiðbeiningar að salati fyrir 4:
Sjóða 1-2 bolla af hýðisgrjónum eftir kúnstarinnar reglum
Sjóða lítilræði af grænum/brúnum linsum (1/2 bolla kannski)
Sjóða 4-6 egg
Skera niður 3 gulrætur og sjóða í söltu vatni í 10 mínútur
Leyfa ofangreindu að kólna eftir suðu. Gott að klára þetta að kvöldi dags eða snemma dags ef á að henda í salat seinnipartinn.
Hrærar saman í franska salatdressingu: ólívuolíu og Dijon sinnepi blandað saman, bætt út í góðum slurk af eplaediki til að fá dressinguna létta. Kreista út í hvítlauksgeira og bæta við salti og pipar.
Hella dressingunni yfir hrísgrjónin og hræra vel. Betra að setja minna til að byrja með en meira. Saxa niður 4 skarlottulauka og bæta út í. Bæta því næst við linsunum og gulrótunum og hræra vel.
Eftir þetta má bæta hvaða góðgæti við sem vill. Ég setti pikklaðar papríkur, sólþurrkaða tómata og sítrónufylltar ólívur og hrærði saman. Skar síðan út á ferska tómata og skar eggin í báta, og voila, salatið var tilbúið. Bar fram með frönsku sveitabrauði og frönskum hvítlauksrjómaosti.
Ég sé fram á að gera þetta salat ansi oft á næstu vikum. Við erum byrjuð að saxa á birgðirnar okkar nú þegar átta vikur eru í flutning. Ekki svo að skilja að við séum svo vel birgð, en engu að síður þá eigum við nokkur kíló af hýðisgrjónum keyptum í Svíþjóð, og rauðum og grænum linsum. Nú vonast ég eftir góðru verði næstu helgar svo hægt sé að skipuleggja lautarferð í einni af lautum eyjunnar.
2 ummæli:
Girnó!
Vá hvað þetta hljómar vel og líka fallegar myndir. Hugsa að ég skelli í eitt svona tengdósalat í dag.
Skrifa ummæli