þriðjudagur, 31. júlí 2012

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur

Frjóvgun

Hallar höfði

Gæsir

Untitled

Á göngu

Untitled

Elliðaár

Hestar á brúnni

Seinnipartinn í gær fórum við Baldur ásamt pabba inní Elliðaárdal efri og gengum Stífluhringinn. Dalurinn skartaði sínu fegursta fyrir okkur enda hafði ský dregið frá sólu og býflugurnar voru á sveimi, á fullu að sinna störfum sínum sem yfirfrjóvgarar blómanna.

Sællra minninga (*hóst*) hef ég hlaupið Stífluhringinn alloft, þá þegar ég gekk í Árbæjarskóla, og það kom því ekki á óvart að mæta nokkrum hlaupahópum á leiðinni, sérstaklega þegar haft er í huga að það styttist óðfluga í Reykjavíkurmaraþon. Enn og aftur dáðist ég að þrautseigju hlauparanna, en var hins vegar sátt við mitt hlutskipti sem sjálfskipaður ljósmyndari litla gönguhópsins.

Við sáum gæsir á flugi, heilsuðum upp á endurnar sem komu syndandi að okkur þegar við gengum yfir stífluna og skrifuðum á bak við öll eyrun að koma næst með brauðmola. Sáum líka svona tíu laxa í hylnum fyrir neðan brúnna, litlir 3-4 kg laxar sem við Baldur létum alveg eiga sig með að slátra og slægja!

Á efri brúnni stöldruðum við við og fylgdumst við flugveiðum í ánni fyrir neðan og mættum reiðhestum í reiðtúr. Enduðum gönguna í Árbæjarlaug þar sem við prófuðum nýja nuddpottinn og nýuppgerða gufuna.

Erum semsé á fullu að njóta alls þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. En bíddu, hvar er þá karamellusnúðurinn minn?

mánudagur, 30. júlí 2012

Fyrsti dagurinn á Fróni

Untitled
Untitled

Við áttum ansi viðburðarríkan dag í gær, fyrsta heila deginum okkar heima. Baldur fór að heimsækja afa sinn og á meðan fórum við pabbi að versla í bruns. Baldur og Pétur komu síðan í umræddan bruns þar sem ýmsu hafði verið til tjaldað. Kantalópur, greipaldin, vínber og epli, havarti ostur, hummus, kóngabrauð frá Jóa Fel, engifersafi, grísk jógúrt, lífrænt hunang og síðast en ekki síst jarðarberja-myntu smoothie sem Hulda blandaði fyrir okkur.

Klifrað á loftvarnarbyrgjum
Untitled

Eftir bruns fór Hulda í flug og við Baldur ásamt pabba fórum í Öskjuhlíðina á stefnumót við Náttúruhreyfinguna þar sem við hittum annan Pétur dagsins. Sá ætlaði að kenna okkur að hreyfa okkur í náttúrunni áreynslulaust og við tók klöngur upp á loftvarnarbyrgi, jafnvægisæfingar á slám og klifur í trjám og skógarbotnaskrið. Auðvitað rákumst við á kanínu og auðvitað fór Baldur á harðarstökki á eftir henni og endursentust þau nokkrum sinnum þvert yfir hlíðina þangað til kanínan faldi sig rækilega undir trjágreinum furu.

Kanínan og Baldur

Við skelltum okkur þvínæst í sjósund í Nauthólsvík. Fiðrildið sem ég fæ iðulega í magann áður en ég dempi mér í kaldan sjó lét á sér kræla og mikið rosalega voru fyrstu augnablikin köld og erfið. En það er alltaf sama sagan, maður venst vatninu fyrr en varir og ég synti þarna nokkrar ferðir í lóninu. Hefði vel getað hugsað mér að synda út í Jónas feita ef ég hefði ekki verið ein á ferð, Baldur búinn að spæna sig upp að strönd og fleygja sér yfir í heita pottinn og pabbi ekki einu sinni haft fyrir því að fara úr heita pottinum.

Aldin
Aldin
Untitled

Til að fá okkur eitthvað í gogginn fór litli hópurinn úr Öskjuhlíðinni því næst á veitingastaðinn Aldin í Austurstræti. Huggulega afslöppuð stemmning og hlýlega innréttað, og alveg fínn matur.

Póstkort

Í Iðu
Við tjörnina
Untitled

Við kvöddum hina náttúruhreyfingargemlingana og tríóið hélt yfir í Iðu í almennt bókaflett. Iða er ein af uppáhaldsbókabúðunum mínum og ég get varið löngum stundum í að gramsa og skoða. Ég var búin að ákveða að ég skyldi njóta sumarfrísins í botn og lesa einhverja voðalega góða bók. Ég rakst á bókina The Tiger's Wife eftir Téu Obreht. Bókin hlaut Orange verðlaunin í fyrra og umsagnirnar voru svo lofsamlegar að ég sannfærðist að endingu um að hér væri fyrsta bók sumarfrísins komin.

Við höfnina
Tapasbar
Untitled
Lundafugl

Við kíktum á tjörnina, fengum okkur ís, rúntuðum niður Laugarveginn og gengum um höfnina. Kíktum inn á Tapashúsið til að skoða og enduðum inn á Slippbarnum þar sem Baldur og pabbi tefldu eina skák og ég skoðaði alla fallegu munina sem er að finna í lobbýi Hótel Marina.

Cappucino
Slippbarinn
Café Haiti

sunnudagur, 29. júlí 2012

Heim til Íslands

Smoothie
Untitled
Algjört nammi

Við erum lent! Og þvílíkar móttökur sem við fengum!

Ferðalagið gekk ljómandi vel þrátt fyrir lítinn svefn nóttina fyrir. Tókum hurtigbåten kl. 07.05 og fengum bíl sambýlinganna lánaðan til að koma okkur niður á bryggju með allt okkar hafurtask (fjórar stórar töskur og tvær minni). Veður var milt, það rigndi ljúflega og því kvöddum við Lovund ekki aðeins með tár í augum heldur einnig regndropum á nebbum.

Við fórum úr hurtigbåten í Sandnessjøen og tókum leigubíl upp á flugvöllinn Stokka en þaðan flugum við í lítilli rellu til Þrándheims. Frá Þrándheimi áttum við svo beint flug á Keflavíkurvöll. Í báðum flugum átti það við að lagt var af stað hálftíma fyrir áætlaðan brottfarartíma, svo stundvís vorum við nú öll þann daginn.

Við nutum þess að fljúga með Icelandair og horfðum á myndir og þætti og versluðum meira að segja um borð, keyptum iittala kertastjaka og sniðuga hvítlaukspressu. Ég horfði á Hunger Games og þó ég hafi ekki náð að klára get ég klárlega sagt að myndin er betri en bókin.

Þegar við komum síðan út af flugvellinum tóku pabbi og Hulda á móti okkur með iPad á lofti, brosandi eyrna á milli og föðmuðu okkur í bak og fyrir. Yndislega milt og fínt veður og kalt malt í gleri. Brunuðum í Garðabæinn og fengum dýrindissmoothie og edamame soja baunir sem Hulda setti saman. Þvílíkt sælgæti!

Leiðin lá síðan í Laugardalslaug, Kínahofið og YoYo ís. Við lognuðumst síðan út af eftir miðnætti, alveg búin á því eftir ferðalög dagsins og sváfum vært þessa fyrst nótt heima á Íslandi.

föstudagur, 27. júlí 2012

Síðasti dagurinn á Lovund









Þá er síðasti dagurinn okkar á Lovund að kveldi kominn. Við kláruðum vinnudaginn með glæsibrag, þremur tímum fyrir vinnulok. Ég var í dálitlu tilfinningalegu uppnámi í byrjun dags, nýbúin að kveðja nágrannana okkar og fleira gott fólk á leiðinni í vinnuna. Nú er ég hins vegar aðeins sprækari og tilbúnari í ferðalagið sem framundan er.

Í morgun þegar ég vaknaði tók á móti mér glampandi sólskin og blíða. Fyrsti dagurinn okkar á eyjunni var einmitt með sama sniði og það var því viðeigandi að síðasti dagurinn tæki mið af því. Ég plataði Baldur með mér í göngutúr dagsins að þessu sinni og við tókum nokkrar myndir af leiðinni sem ég hef nú gengið síðustu mánuði.

Um hádegisbil kom vinnufélagi okkar David við til að kveðja okkur, á leiðinni í vinnuna náðum við svo að kveðja nokkra, inn í skiptiklefa við vaktaskiptin náðum við að kasta kveðju á þá sem við höfum kynnst af hinni vaktinni og svo eftir vinnu kom Olle stórvinur og varði kvöldinu með okkur og sambýlingunum.

Við slógum í óvænt teiti með því að fyrst bjóða upp á óáfengan bjór, þvínæst bökuðu sambýlingarnir amerískar pönnukökur og báru fram með hlynsírópi, eftir það borðuðum við síðbúinn kvöldverð sem voru hrærð egg og hýðisgrjón, og svo auðvitað var popp í desert. Olle hafði nefnilega smakkað popp steikt upp úr kókosolíu á Sri Lanka og þar sem við áttum poppmaís og þar sem við áttum jómfrúarkókosolíu lá þetta alveg ljóst fyrir. Nammi namm hvað þetta kom vel út!

Og núna rétt fyrir svefninn gengum við út að höfn til að horfa á sólarlagið og kveðju kisuna Hvítloppu. Á morgun verðum við komin til Íslands og hausinn á mér nær varla utan um þá staðreynd. Ég upplifi þyngsl fyrir hjartanu þegar ég hugsa til þess að kveðja eyjuna og vini okkar hér, og Noreg í heild sinni. Á sama tíma er ég þakklát fyrir að eiga nú ekki bara einn heimahaga heldur tvo. Mér heyrist allt stefna í bókaflokkinn Hvar skal ég höfði mínu halla?, dramatísk frásögn af ástum og örlögum eyjaskeggja.

Ha det Lovund og takk for alt. Det har vært helt greit.

fimmtudagur, 26. júlí 2012

Rigning í göngutúrnum







Ég breytti út af vananum í göngutúr dagsins í dag og hlustaði á nýju Of Monsters And Men plötuna, My Head Is An Animal. Hlustaði reyndar á hana í heild sinni í fyrsta sinn í gær og varð að endurtaka leikinn. Mjög hrifin!

Það rigndi á mig í þessum næstsíðasta göngutúr um eyjuna. Þegar ég stóð í votu grasinu og tók myndir af gula og appelsínugula blóminu hér að ofan kom rúmlega sjötugt húsfrúin út og spurði mig hvort það gengi að taka myndir í svona veðri. Ég vildi meina að þar sem ég tæki yfirleitt alltaf myndir í þurru veðri væri það skemmtileg tilbreyting að taka myndir af regninu.

Þá leit hún til himins og dæsti og sagði svo að þetta hefði verið dårligt sommer, kalt og uppburðarlítið. Já, bara hreinlega versta sumar sem hún og maðurinn hennar hefðu nokkru sinni upplifað á Lovund.

Ég samsinnti því til að vera kurteis með því að kinka kolli og taka undir orð hennar, veldig kaldt, en í raun og sann þá hefur þetta sumar á Lovund verið eitt það besta í mínu lífi. Það þarf ekki að vera bongóblíða á meðan maður sér til himins, getur farið út á hverjum degi í labbitúrinn sinn, fengið að horfa á blómin og andað að sér graslyktinni.

Mikið sem ég á eftir að sakna göngutúranna minna á Lovund.

þriðjudagur, 24. júlí 2012

Á toppinn

Ég lét verð að því! Ég fór á toppinn! Og ég sem var harðákveðin í að gera það ekki, haha!

Á sunnudaginn síðasta kýldum við loksins á dæmið. Höfðum legið yfir veðurspánni og sáum að það var spáð þurru frá hádegi til kvölds. Við fengum Olle og Kim til liðs við okkur og eftir að hafa pakkað niður nesti og myndavél vorum við reddí í fjallgöngu.

Leiðin að fjallinu er sú sama og við fórum í fyrsta legg hringferðarinnar, þ.e. í gegnum þorpið. Hittum nokkra á leiðinni sem stóðu í garðverkum eða voru í sunnudagsgöngutúr og allir hvöttu okkur áfram til dáða. Við vorum því skælbrosandi gangandi þarna í mosanum með sólina í augun.

Við lentum snemma í mikilli leðju eftir rigningar daganna á undan og hér fékk ég ágætan samanburð á því að ganga sömu leiðina á þurru eða blautu. Votir og mosavaxnir steinar eru ekki vinir fjallgöngugarpa, skrifa það og hrópa. Þetta var þó hvergi nándar nærri því eins mikið klöngur og skakklapp eins og á hringferðinni, til þess þyrfti ansi mikið að ganga á.

Eftir klukkutíma göngu að fjallinu vorum við loks komin að leiðinni sem liggur upp. Erfiðasti hluti fjallgöngunnar er strax í byrjun því hallinn er mjög mikill og aðallega gengið í grjóti og klöppum. Kim ákvað snemma að snúa við en við hin héldum ótrauð áfram. Fjallið er bara 625 m á hæð og ég hafði talið mér trú um að það yrði lítið mál að klífa upp, hafandi farið upp Esjuna og svona. Esjan er kid stuff við hliðina á Lovundfjalli!

Við tókum margar pásur á leiðinni til að njóta útsýnisins. Við sáum tvo erni á flugi og þeir slógust aðeins, kannski til að sýnast fyrir okkur. Þegar við nálguðumst toppinn sáum við þokuhattinn sem toppurinn er iðulega með á sér koma fljótandi yfir okkur. Áður en við vissum vorum við umvafin þokunni sem huldi útsýnið sem er svo rómað. Mér fannst það samt ekkert miður, það var mjög sérstakt að upplifa sig á toppnum í þoku. Einhver dulræn upplifun. Og mitt í dulrænu upplifuninni heyrðist jarmað hinu megin við þokuna. Fjárhjörð á beit á toppnum.

Við kvittuðum fyrir okkur í gestabókina, fengum okkur smá nesti og drifum okkur svo niður því við vorum orðin köld í gegn af að sitja í kaldri þokunni. Ferðin niður sóttist svo vel að við rétt náðum að sjá maríuhænu og bláklukkur. Það er reyndar ekki alveg satt, ferðin sóttist svaka vel framan að en svo fóru blómin að stinga upp kollinum og þá varð þetta meira svona að Baldur og Olle voru saman í fjallgöngu á meðan ég var stanslaust að reyna að ná í skottið á þeim með myndavélina í eftirdragi.

Við komum heim og náðum beint í matarboð hjá Önju og Mads. Gátum reyndar sturtað okkur fyrst svo við værum aðeins frambærilegri. Þau gerast varla betri endalokin á fjallgöngu en að vera boðið í góðan kvöldmat.

 Hér að neðan eru síðan nokkrar vel valdar myndir úr göngunni en allar myndirnar má nálgast í albúminu Á Lovundfjall á flickr.

Á leið á toppinn

Untitled

Á leiðinni upp

Untitled

Örn á flugi

Untitled

Skuggaverur í þokunni


Gestabókin

Tada!

Untitled

Hangið í keðjunni

Maríuhæna

Untitled

Untitled