Fjölskyldan í Eskihlíð ætlaði líka öll að taka þátt með ýmsu móti, Kristján ætlaði að hlaupa 5 km eins og Baldur, og Stella og duglegustu stelpur landsins ætluðu að sjá um drykki og veitingar ofan í hlauparana. Ég, sem verð móð af því einu að horfa á hlaupandi fólk, ákvað að fara í góðan göngutúr um Elliðaárdalinn og ná til baka í tæka tíð til að sjá Baldur þeytast í mark.
Ég fór frá Víkingsheimilinu og kraftgekk upp dalinn. Ég meira að segja hlaup svolítið, til að hrista aðeins upp í innkirtlunum. Fór eins stóran hring og ég gat, yfir brúnna við sundlaugina og til baka aftur. Þetta eru rétt tæpir sjö kílómetrar og ég fór þá á sléttum klukkutíma og var ansi sátt við mitt.
Þegar ég sneri aftur að Víkingssheimilinu var búið að ræsa hlaupið svo ég kom mér fyrir í grasinu og vissi að ég þyrfti ekki að bíða lengi eftir hlaupurunum. Það reyndist rétt því þeir alfremstu voru mætti á svæðið einhverjum 17-18 mínútum eftir ræs. Ég færði mig út á götuna til að geta hvatt minn mann og rétt náði að öskra einhverju á eftir honum, svo hratt fór hann framhjá og óþekkjanlegur í svona hlaupagír.
Eftir hlaupið söfnuðumst við saman við drykkjarföngin þar sem Stella og stelpurnar höfðu ekki undan við að fylla í glös og deila út ávöxtum. Baldur kom í mark á 20:09, tíu sekúndum frá markmiðinu. Ég held hann geti nú unað sáttur við sitt en ég hef samt á tilfinningunni að hann vilji bæta tímann. Það er víst ekki hægt að taka af honum metnaðinn, það er alveg víst.
Eftir að hafa staðið góða stund úti við var okkur orðið kalt inn að beini og brunuðum því í Vesturbæjarlaugina. Hún er að verða uppáhaldslaugin mín. Þar er potturinn almennilega heitur og gufan alveg frábær. Það jafnast fátt á við sundferð í kvöldrökkrinu, nema vera skyldi flatbaka hjá Devitos sem einmitt reyndist vera okkar næsti áfangastaður. Ef maður má ekki fá sé flöbbu eftir gott hlaup þá er þetta hvort eð er allt hætt að meika sens. Látum ósnerta þá umræðu að ég hljóp sjálf ekki svo greitt, flabban var alveg jafngóð fyrir því.