Leggjabrjótur er gömul þjóðleið sem notast hefur verið við frá landnámi og liggur á milli Þingvalla og Hvalfjarðar. Sérstaklega var þessi leið notuð til að ferðast á Alþingi þegar það var á Þingvöllum.
Leggjabrjótur hljómar svolítið hroðalega ekki satt? En ég get alveg staðfest það núna eftir að hafa sannreynt leiðina að hún er enginn leggjabrjótur. Nafngiftin vísar í stuttan kafla á leiðinni sem er vissulega ansi stórgrýttur, en ekkert til að hafa áhyggjur af, þvert á móti var verulega gaman að ganga um mosabreitt grjótið.
Hins vegar ef maður fer ríðandi á hesti gæti útkoman orðið önnur en maður óskar sér því mér skilst að þessi hluti leiðarinnar sé svo kallaður vegna fótbrota hjá reiðhestum. Aumingjans knáu fákarnir misstigu sig hugsanlega í mosagrónu stórgrýtinu.
Við gengum upp úr Svartagili Þingvallamegin og svo til rakleitt áfram. Sáum á einum tímapunkti til tveggja Búrfella og upp úr því spruttu upp vangaveltur um heitið Búrfell. Ef einhver glöggur lesandi kann skil á þessari nafngift má sá hinn sami gjarnan deila því. Við gengum framhjá Botnssúlum, Vestri og Syðri Súlu sérstaklega, og yfir grösuga dali með skærgrænum breiðum sem hafa endurnýjað liti sína eftir rigningar undanfarinna daga.
Það var áð nokkrum sinnum á leiðinni, til að nesta sig, kjafta, litast um en fyrst og fremst til að tína ber. Maður lifandi hve lyngið iðaði af berjum! Sumir göngugarpanna höfðu verði svo forsjálir að útbúa sig döllum sem hægt var að tína í, við hin urðum að læta nægja að tína beint upp í munn. Þegar fyrsta jæja var komið fór fólk að tína á sig sokka og spjarir og þegar annað jæja kom voru allir ferðabúnir að nýju og þá var förinni haldið áfram. Það náðist aldrei að stynja upp þriðja jæjanum, þetta er duglegt fólk sjáið til.
Ekki nóg með að dalirnir væru iðagrænir og lyngin iðablá, þá voru fjöllin grænvaxin upp eftir öllu. Einhversstaðar í þessum fjallasal í einni nestispásunni snerist umræðan um íslenska karlmenn sem höfðu mætt í Laugavegsgöngu með tvær troðfullar ferðatöskur. Einhver vildi meina að hér væru á ferðinni svokallaðar blúndur en Baldur vildi meina að Stuðmenn hefðu sungið um árið að íslenskir karlmenn væru sko alls engar blúndur. Var textinn ekki einhvern veginn svona?
Þegar við höfðum gengið sjálfan Leggjabrjót, þennan nokkur hundruð metra kafla, fór að glitta í Sandvatn og handan þess eru Djúpadalsborgir og af brúnum þeirra horfir maður niður í hrikaleg gljúfur, í þeirri merkingu að þau eru hrikalega tilkomumikil og ægifögur.
Því næst tók við opið land og vítt til allra átta og fallegt eftir því. Við sáum í botninn á Brynjudal og tókum á okkur krók til að kíkja í Þórisgil og gefa rækilega eftir berjatínsluþörfinni.
Veðrið lék svoleiðis við okkur alla leiðinna að maður gerði ekki annað en að rogast með jakka og peysur bundnar utan um sig. Svo hjálpaði ekki til að ég var alltaf langöftust, á grúfu í mosanum að mynda laufblað eða strá, og varð því með reglulegu millibili að taka á rás í gönguskónum til að heltast ekki alveg úr lestinni. Hlaup í gönguskóm og mosa hjálpa ekki til við kælingu líkamans, þvert á móti eins og gefur kannski vel að skilja.
Í lok dags höfðum við gengið 16,93 km samkvæmt Endomondo sem Baldur setti í gang við upphaf göngunnar. Rútuferðin til baka var síðan ekkert síðri en gangan sjálf því Hvalfjörðurinn var spegilsléttur og túnin svo skörpum litum dregin. Ég mæli alveg með þessari göngu, hún er bæði létt og skemmtileg og svo er náttúran þarna alveg í sparifötunum, með perlulokka og allt.
Hér að neðan eru nokkrar myndir af leiðinni en svo er fleiri myndir að finna í albúminu Leggjabrjótur á flickr síðunni okkar.
2 ummæli:
Mikið er gaman að lesa þessar færslur og mikið ofboðslega er ég glaður með að geta gengið að svona fínni dokumentasjón á lífinu.
Elskan, þú ert nú alltaf svo sætur við mig :)
Skrifa ummæli