miðvikudagur, 5. september 2012

Spaghetti al tonno e limone

 
 



Þessa uppskrift rakst ég á á fésbókinni á dögunum, hjá fyrrum leigusala okkar henni Ingibjörgu, og bara varð að prófa. Þetta var líka kjörið tækifæri til að draga fram og nota í fyrsta sinn hvítlaukstvistuna sem við keyptum um borð í vélinni á leiðinni heim. Þessi tvista tekur líka við engifer, ólívum, chilli, papríku, hnetum og ýmsu öðru sniðugu sem maður gæti þurft að mylja mélinu smærra. Til dæmis steinselju eins og kom á daginn. Við semsé prófuðum græjuna og urðum hrifin, enda er græjan margverðlaunuðu og kemur frá Kaliforníu maður!

Svo var rétturinn sjálfur mjög gómsætur. Sumum gæti þótt hann þurr en það truflaði mig ekki neitt. En höfum á hreinu að þetta er ekki svona hversdagsmatur fyrir hinn almenna borgara, nema hinn almenni borgari stundi kraftmikil hlaup eða rosalyftingar. Hjá mér er þetta allavega sparimatur.

Og hér er svo uppskriftin.

Spagettí með túnfiski og sítrónu
500 g spagettí
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksrif
4 msk söxuð steinselja
1 dós túnfiskur, 200 g
safi úr einni sítrónu
60 g nýrifinn parmesan ostur
30 g smjör
salt, svartur pipar

Látið renna af túnfiskinum og takið hann sundur í flögur.
Hitið ólífuolíuna og setjið smátt saxaðan hvítaukinn og steinseljuna útí. Hafið vægan hita og hrærið stöðugt í og bætið fiskinum smám saman við. Hitinn á að vera svo lítill að ekkert af þessu breyti um lit.
Sjóðið pastað og passið að ofsjóða það ekki. Látið renna af því og setjið í heitt fat.
Setjið sósuna út í og blandið vel.
Bætið nú við sítrónusafanum, osti og smjöri í litlum bitum og saltið og piprið eftir smekk. Blandið enn vel og berið fram strax.
Bragðsterkara tilbrigði af þessum rétti fæst ef osti og smjöri er sleppt en 3 söxuð ansjósuflök og 1/2 lítill piparbelgur er steikt með hvítlauknum og steinseljunni í upphafi.

Örsagan sem rétturinn blés mér í brjóst:

Hlátrasköllin frá fótboltavellinum bárust inn um hálfopinn gluggann. Út um gluggann barst aftur á móti gufa af sjóðandi vatni og angann af nýlöguðum mat. Haustvindarnir þutu hjá í svörtum strokum en sneru við þegar þeir urðu matarilmsins varir. Röktu slóðina til baka og lúrðu utan við gluggann og ýlfruðu. Eitt laufblað lá klesst upp við rúðuna og fékk engan grið. Auga vindsins. Það sá: slægðan sítrónuhelming liggja bjargarlausan á bakinu, kramda og barða hvílauksgeira og rifna og tætta steinseljustilka. Sláturhús. Þegar auga vindsins leit túnfisk í steikingu á pönnu hljóp ákafi í ýlfrið og vindurinn tók að glefsa í glugga.
Þú sem varst inní eldhúsi varst hins vegar alveg ómeðvituð um lífið fyrir utan. Hér og nú takmarkaðist við parmesaninn sem beittar tennur rifjárnsins tættu niður. Með flýti í hreyfingum mokaðirðu túnfiski útí spagettípottinn og sáldraðir osti yfir. Allt í einu spratt eldhúsglugginn upp á gátt og vindhviða smeygði sér inn fyrir. Þú teygðir þig í gluggaarminn og hallaðir honum aftur með hvelli. Síðan náðirðu þér í disk úr skápnum fyrir ofan vaskinn, raðaðir spagettístráunum ofan á hann, braust þér bita af hvítlauksbrauði og tókst stefnuna að stofunni. Inni í stofu hafðir þú kveikt á kertum og nú vörpuðu logar þeirra mjúkum skuggum allt í kringum sig. Þú lagðir herlegheitin á borðið og rifjaðir upp orð og orð úr þekktu ljóði: leit auga þitt nokkuð fegra? Rjúkandi diskur af Ítalíu. Inní ísskáp beið panna cottan og dillaði stýrinu, í kvöld fengi hún að vera eftirrétturinn.
Þú varst við það að stinga fyrsta upprúllaða bitanum uppí þig þegar þú fannst skyndilega kaldan gust leika um herbergið. Gardínurnar tóku að bærast og eitt kertanna slokknaði. Frammi af gangi gastu ekki betur heyrt en að bærist spangól.
Þessir Ítalir, hvað eru þeir að gera okkur!

Engin ummæli: