föstudagur, 16. ágúst 2013

Tómatsúpa frá Toskana

Tómatsúpa frá Toskana
 
Þessa uppskrift rakst ég á fyrir margt löngu, vistaði og geymdi en eldaði aldrei. Síðasta sunnudag fannst mér nú kominn tími á að gera bót á því og skellti í þessa skemmtilegu tómatsúpu með brauði. Hún er æði! Hún er bragðmikil, matarmikil og flauelsmjúk. Hún er einnig einföld í matreiðslu. Plús, plús og aftur plús.

Ég man því miður ekki hvar ég fann þessa uppskrif, en það var mögulega á mbl. Uppskriftin er altént fengin frá veitingastaðnum La Primavera.

HVAÐ
1 laukur, fínt saxaður
3 hvítlauksgeirar, marðir
750 gr tómatar eða ein 500 g krukka af heilum tómötum
1 lítri soð (upprunleg uppskrift kveður á um kjúklingasoð)
Maldon salt
Pipar
250 gr brauð, skorpulaust, helst dagsgamalt
1 búnt basilíka
Ólívuolía

HVERNIG
1. Ef þið ætlið að elda úr ferskum tómötum: Afhýðið tómatana. Fjarlægið kjarna og skerið í bita. Sjálf legg ég ekki í það að afhýða tómata, ég notaði tómata úr dós og var alsæl.
2. Þurrkið brauðið í ofni í nokkrar mínútur.
3. Hitið olíu í potti og mýkið lauk í um 5 mín. án þess að brúna.
4. Bætið tómötum og hvítlauk saman við og eldið í 5 mín. til viðbótar.
5.  Hellið soðinu út í pottinn og sjóðið í 30 mín.
6. Kryddið með salti og pipar.
7. Rífið brauðið út í súpuna ásamt basilíku og látið standa í 10 mín.
8. Ausið súpunni á diska og setjið vel af ólívuolíu yfir hvern disk.
 
Frábært að bera þessa súpu fram með hinu litríka tómat-mozzarellu-basilíkusalati.

Tómatsúpa frá Toskana
 
Tómatsúpa frá Toskana

Engin ummæli: