mánudagur, 30. desember 2013

Jól & afmæli

Þá er maður smám saman að ranka við sér eftir heilög jól. Við létum fara ansi vel um okkur þessi jólin og okkur var helst að finna uppí sófa kúrandi undir teppi þar sem við vorum ýmist að lesa eða horfa á gott sjónvarpsefni (Downton Abbey anyone?).

Á aðfangadag röltum við út í skóg og sóttum okkur greinar í kransinn. Ef maður væri að því heima á klaka fengi maður samviskubit en hér er maður að gera öllum stóran greiða með því að grisja þéttan skóg.

Á meðan við vorum að taka til og útbúa kransinn hlustuðum við á Rás 2 og fengum svolitla heimþrá. Hlustuðum að sjálfsögðu á kirkjuklukkurnar hringja inn jólin heima. Þá voru komin jól hjá okkur í Noregi.

Á afmælisdaginn minn fórum við út í göngutúr græjuð í nýjustu jólagjafirnar: japanskar dúnúlpur, húfur, vettlinga og undirföt. Blésum upp blöðrur, ég opnaði pakka og fékk góðan mat. Það er svo heppilegt hvernig afmælisdagurinn minn lendir alltaf á frídegi, það er ekki einleikið.

Þrátt fyrir að vera bara tvö í heimili var pakkaflóðið mikið. Mjúku pakkarnir reyndust geyma hnausþykk lúxushandklæði frá húsálfinum. Síðan eru það bækurnar, maður minn. Við sjáum fram á mikla törn við að komast yfir allar bækurnar sem okkur áskotnuðust þessi jólin. Jón Kalman, Sjón, Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir, Guðmundur Andri, Hafiz, Mary Oliver, Elizabeth Gilbert...

Ég er ekkert að flýta mér úr jólagírnum og er enn með Pál Óskar og Móniku á fóninum. Ekkert liggur á. Friður á jörð byrjar með frið í hjarta.

Jólatré
 
Jólatréð í stofu stendur
 
Jólablandið
 
Jólablandið ómissandi, malt og appelsín frá Íslandi
 
Forréttur
 
Forrétturinn: reyktur silungur og fyllt egg
 
Aðalréttur
 
Hnetusteikin
 
Jólamaturinn: Hnetusteik með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og sveppasósu
 
Jólabarn við jólatré
 
Jólabarnið við jólatréð
 
Eftirvænting!
 
Sjáið alla girnilegu pakkana!
 
Jólakertin í kransinum
 
Jólaljósin og grenið græna
 
Jólasöngur englanna
 
Englasöngur í myrkrinu
 
Untitled
 
Kertin standa á grænum greinum
 
Untitled
 
Untitled
 
Jólapakkar!
 
Untitled
 
Untitled
 
Besti pakkinn!

Besti jólapakkinn: Fylltir molar frá Nóa Sírius
 
Flottasti pakkinn!
 
Flottasti pakkinn. Hönnuður: Baldur
 
Eftir alla pakkana...
 
Þegar allir pakkar hafa verið opnaðir er kíkt á facebook
 
Untitled
 
Untitled
 
Grettin
 
Grettinn
 
Í jólagjöfunum á leið í labbitúr
 
Útúrgræjuð í nýju japönsku útivistarfötin
 
Hafiz
 
Afmælispakkar
 
Afmælispakkar á jóladag
 
Kalkúnninn

Jóladagsmatur: Kalkúnn og hvítlauks-parmesan kartöflumús
 
Kalkúnninn
 
Jóladesertinn
 
Jóladesertinn: Daimísterta

föstudagur, 27. desember 2013

Daimísterta

Daimís með marengs

Hér er jóladesertinn í ár! Rosalega góður og rosalega auðveldur, ef litið er til þess að maður er að búa til ístertu!

Ég biðst afsökunar á lélegri mynd. Ég gleymdi alveg að taka mynd af tertunni á aðfangadag og þessa mynd að ofan náði ég að taka í miklum flýti rétt áður en tertan kláraðist. Þetta þýðir að ég verð að taka aðra mynd seinna og uppfæra myndina, sem þýðir að ég verð að útbúa aðra svona ístertu. Ó nei.

Ég valdi að setja mína tertu í ferkantað form og skera hana í ferhyrntar sneiðar en að sjálfsögðu er hægt að setja hana í hringlaga form líka.

HVAÐ
Marengsinn:
150 gr sykur
3 eggjahvítur
1 tsk edik

Rjómaísinn:
3 eggjarauður
75 gr sykur
1 tsk vanilla
2,5 dl rjómi
4 lítil daim súkkulaði, söxuð

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Við byrjum á marengsinum. Stífþeytið saman eggjahvítur, sykur og edik.
3. Takið fram kringlótt kökuform (eða ferkantað eldfast mót eins og ég notaði). Skellið bökunarpappír í formið og smyrjið botninn með smjöri.
4. Smyrjið stífþeyttum eggjunum á bökunarpappírinn og bakið við 175°C í 40-50 mín, eða við 150°C í 75 mín. fyrir teygjanlegan botn.
5. Þá er það rjómaísinn: Þeytið eggjarauður, sykur og vanillu vel saman. Þeytið rjómann í sérskál og blandið honum svo varlega saman við eggin ásamt súkkulaðinu.
6. Þegar marengsins hefur kólnað nægilega í forminu smyrjið þá rjómaísnum ofan á og setjið inn í frysti yfir nótt.

Þessi ís er dúnamjúkur svo tertan þarf ekki langa stund út úr frysti áður en auðvelt er að skera af henni sneiðar, svona 10 mínútur.

Hvítlauks-parmesan kartöflumús

Hvítlauks-parmesan kartöflumús

Við ákváðum fyrir jól að prófa að hafa eitthvað alveg nýtt á boðstólum þessi jólin. Við höfum alltaf haft hnetusteik í öll mál yfir öll jólin, og líka á gamlárskvöld, en eftir þriðja skammt er maður kominn með nokkuð gott af hnetusteik.

Hér í Noregi er hægt að kaupa marineraða kalkúnabringu sem er tilbúin á borð eftir 40 mín. í ofni. Okkur hefur lengi langað að prófa kalkún fyrir jól svo við létum slag standa og sáum ekki eftir því. Besti jólamatur sem ég hef nokkurn tímann fengið.

Meðlætið spillti svo ekki fyrir. Við vorum með haricote verte í sýrðum rjóma, fansí piparsósu með sherrý og síðan þessa æðislegu kartöflumús sem Baldur vippaði saman á nóinu. Hún er svo góð að maður gæti borðað alla skálina og sleikt innan úr henni áður en maður man að það er annar matur í boði.

Og þetta er tiltölulega einfalt. Smá handavinna en til þess hefur maður hendurnar.

HVAÐ
1,5 kg kartöflur
2 msk salt
475 ml rjómi
6 hvítlauksgeirar, marðir
170 g parmesan, rifinn

HVERNIG
1. Skrælið kartöflurnar og skerið í teninga af sömu stærð.
2. Setjið í pott með vatni og salti. Náið upp suðu og látið síðan malla við vægan hita þar til kartöflubitarnir detta í sundur þegar gafli er stungið í þá.
3. Hitið rjómann og hvítlaukinn í skaftpotti á miðlungshita, þar til rjóminn er farinn að krauma. Takið þá af hellunni og leggið til hliðar.
4. Hellið af kartöflunum þegar þær eru tilbúnar. Stappið þær og bætið út í hvítlauksrjómanum og parmesan. Hrærið vel til að tryggja að allt gangi saman.
5. Látið standa í 5 mín. svo stappan fái þykknað.

Mér finnst skemmtilegt að skreyta með saxaðri steinselju.

miðvikudagur, 25. desember 2013

föstudagur, 20. desember 2013

Kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr

Kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr

Hér kemur uppskriftin að kanilsnúðunum sem ég bakaði um daginn, þegar við vorum að skreyta tréð.

Þessir snúðar eru svolítið í seigari kantinum, ekki eins dúnamjúkir og aðrir snúðar sem ég hef bakað. En deigið er afskaplega meðfærilegt og ég hef aldrei fengið eins jafna og fallega snúða áður eins og ég fékk úr þessu deigi.

Svo skellir maður smá súkkulaðiglassúr ofaná og hellir mjólk í glas og lætur sig dreyma um jólin. Nú, eða bara það sem mann langar mest í! Það má alveg baka þessa snúða hina ellefu mánuði ársins!

Uppskriftina fékk ég hjá Evu Laufey. Ég helmingaði uppskriftina sem var mjög hæfilegt fyrir okkur tvö en ef það eru fleiri um snúðana mæli ég með að tvöfalda uppskriftina hér að neðan.

HVAÐ
Í deigið:
250 g hveiti
100 g sykur
1/2 tsk vanillusykur
1/2 tsk salt
1 1/4 tsk þurrger (12-13 g pressuger)
125 ml mjólk
35 ml ljós olía
1 egg

Í fyllinguna:
25 g púðursykur
50 g smjör
2 msk kanill

Í súkkulaðiglassúrinn:
50 g smjör, bráðið
150 g flórsykur
1/2 tsk vanillusykur
25 g kakó
1-2 msk sterkt, kælt kaffi
1/2 - 1 msk mjólk

HVERNIG
1. Blandið saman hveiti, sykri, vanillusykri og salti.
2. Hitið mjólkina í 40°C, hrærið þurrgerið út í þar til það er uppleyst.
3. Bætið út í mjólkina olíu og eggi og hrærið vel saman. Hellið yfir hveit-sykurblönduna og hrærið vel saman.
4. Breiðið rakt viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30-40 mín. á trekklausum stað.
5. Útbúið næst fyllinguna: Hitið smjör (ekki bræða) við vægan hita. Blandið saman sykri og kanil og takið af hellunni þegar smjörið er orðið mjúkt en ekki farið að bráðna alveg.
6. Hnoðið og fletjið út deigið á hveitstráðan flöt.
7. Smyrjið fyllinguna yfir og rúllið upp þannig að skurðurinn vísi niður.
8. Skerið í 2 sm snúða, raðið þeim á pappírsklædda ofnplötu, leggið rakt viskustykki yfir og leyfið að lyfta sér í 30 mín.
9. Hitið ofninn í 170°C.
10. Stingið inní ofn í 13-15 mín.
11. Á meðan snúðarnir kólna er ráð að útbúa glassúrinn: hrærið öllu saman og bætið við mjólk eða kaffi til að þynna hann eftir þörfum. Berið á snúðana og ta-da: þeir eru reddí!

Jólaundirbúningur

miðvikudagur, 18. desember 2013

Jólatréð skreytt

Við skreyttum pínkuponsu litla jólatréð okkar í fyrrakvöld og höfum að ég held aldrei verið svona snemma í því áður. Einu sinni skreyttum við jólatréð á jóladag, eða var það annan í jólum? Við vorum augljóslega ekkert að stressa okkur þau jólin.

En þessi jólin virðist svolítið vera trendið að skreyta tréð snemma því ég hef séð þónokkrar myndir af upplýstum jólatrjám á facebook bæði í gær og í dag. Við virðumst því, alveg óvart, vera með í einhverri verum-snemm-í'ðí bylgju.

Við skreyttum síðast tréð jólin 2010. Síðan þá hefur tréð og skrautið sem því fylgir verið í geymslu. Það var því enn skemmtilegra en ella að skreyta tréð.

Fyrir mér er Hnotubrjóturinn alger boðberi jólanna og því fékk hann að spilast á meðan við skreyttum tréð. Baldur kveikti upp í kamínunni með nýjum sekk af björk sem okkur barst sama dag. Ég bakaði líka kanilsnúða og á meðan þeir voru í ofninum fengum við að föndra við að ná í sundur jólaseríum og tylla gylltum og rauðum kúlum á greinar. (Allur jólasnjór er farinn svo við verðum að leggja aukalega á okkur til að ná upp jólastemmningu. Það stefnir í græn jól eins og Norðmenn segja.)

Þegar við vorum búin að skreyta settumst við niður við tréð með kanilsnúða og mjólk í glasi og nutum þess að horfa á ljósin.

Nú vantar bara pakkana undir til að fullkomna skreytt tréð. Við ætlum að kippa því í liðinn næstu helgi og versla jólagjafir handa hvort öðru. Ég hlakka mikið til. Ekki síst þó vegna víetnamska veitingastaðarins sem er í uppáhaldi hjá okkur og sem við ætlum einmitt að heimsækja í leiðinni. Mmm...

Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur
 
Jólaundirbúningur

mánudagur, 16. desember 2013

Lakkrístoppar

Untitled

Það er nú meiri jólahelgin að baki. Við kláruðum helstu gjafakaupin, hlustuðum á jólatónlist, pökkuðum inn gjöfum og náðum að senda meira að segja að senda þær úr landi.

Og ég náði að baka fyrstu sortina fyrir þessi jól: lakkrístoppa.

Þegar pabbi og Hulda komu í heimsókn í síðasta mánuði komu þau færandi hendi: kaffi, lýsi, konfekt, næringarger og síðast en ekki síst, íslenskt sælgæti. Þar á meðal var lakkrískurl frá Nóa Siríus, og uppskriftin að lakkrístoppunum kemur einmitt af þeim poka.

HVAÐ
3 eggjahvítur
200 g púðursykur
150 g rjómasúkkulaði
150 g lakkrískurl

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 150°C.
2. Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur.
4. Saxið súkkulaðið smátt. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við stífþeyttu eggjahvíturnar.
5. Látið á plötu með teskeið.
6. Bakið í miðjum ofni við í 15-20 mín. Bæði hiti og tími getur verið breytilegur eftir ofnum.

Mínir toppar urðu svolítið stórir því ég fór ekki eftir leiðbeiningunum um að nota teskeið. Að sama skapi molnuðu þeir auðveldlega, svo ég legg til að hafa þá minni og sjá hvernig það kemur út.

föstudagur, 13. desember 2013

Kryddkaka

Mjúk kryddkaka

Nú þegar allverulega er farið að styttast í jólin finnst mér kjörið að deila með ykkur uppskrift að kryddköku sem ég bakaði fyrr í haust.

Það er fátt eins jólalegt og ilmurinn af köku í ofni og kryddum. Kanill, negull.. þetta eru jólakryddin í ár og um aldir alda.

Þessi uppskrift kemur úr Stóru bakstursbókinni sem Baldur gaf mér fyrir áratug og rúmlega það. Það er ofureinfalt að henda saman í þessa uppskrift og krefst engra sérstakra tóla. Von bráðar angar húsið af jólailmi.

HVAÐ
2 egg
2,5 dl sykur
1,5 dl súrmjólk
100 g smjör, bráðið
2,5 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk negull

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Smyrjið 1,5 lítra form vel með smjöri (ekki bræddu því það gefur of þunnt lag).
3. Bræðið smjörið og kælið.
4. Þeytið saman egg og sykur.
5. Hrærið súrmjólk og smjör útí.
6. Setjið hveitið, lyftiduftið og krydd út í síðast og hrærið vel.
7. Hellið deiginu í formið. Bakið neðarlega í ofninum í 40-45 mín.
8. Látið kökuna kólna í nokkra stund. Hvolfið henni síðan úr forminu og hafið formið yfir henni meðan hún kólnar.

Þessi kryddkaka verður bara betri með smá smjöri.
 
Mjúk kryddkaka
 
Mjúk kryddkaka

föstudagur, 6. desember 2013

Kíkertublondies

Kíkertublondies

Ok, kannski ertu að velta eftirfarandi spurningum fyrir þér:

Hvað eru blondies?

Svar: Þær eru eins og brownies nema ljósar. Seigar og þéttar en mjúkar og góðar.

Ok, en hvað þá með kíkertur, hvað er það?

Svar: Kíkertur eru kjúklingabaunir nema þær eru ekki kjúklingabaunir. Vildi ekki hræða neinn með því að baka smákökur úr kjúklingabaunum.

Ertu semsagt að segja að þetta eru smákökur úr baunum?

Svar: Já!

Og þær eru alveg rosalega góðar. Hveitilausar, sem er góð tilbreyting og hvíld frá hinum hefðbundnu, baunalausu smákökum.

Bara prófa. Svaka gott. Ég lofa.

Uppskriftina fékk ég frá Monique sem heldur úti síðunni Ambitious Kitchen.

HVAÐ
240 g soðnar kjúklingabaunir (1 dós)
130 g hnetusmjör
1/3 bolli hlynsýróp
2 tsk vanilla
1/2 tsk salt
1/4 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/3 bolli súkkulaðidropar
2 msk súkkulaðidropar
Sjávarsalt

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Smyrjið 20x20 sm form.
3. Setjið allt hráefnið, nema súkkulaðið, í matvinnsluvél. Blandið þar til mjúkt.
4. Bætið 1/3 bolla af súkkulaðidropum við og hrærið saman við deigið.
5. Hellið deiginu í formið. Dreifið 2 msk af súkkulaðidropum yfir.
6. Bakið í 20-25 mín. þar til kantarnir eru rétt byrjaðir að brúnast og tannstöngull kemur hreinn út.
7. Kælið í 20 mín. Dreifið smá sjávarsalti yfir og skerið í 16 bita.

Kíkertublondies
 
Kíkertublondies