mánudagur, 1. janúar 2007

Fall er fararheill

Ég heilsaði nýju ári skjálfandi úr kulda undir þykku lagi af teppum. Pestin sem Baldur talaði um náði loks í skottið á mér og gerði það að verkum að ég gat ekki farið út að borða munkakvöldverðinn á gamlárskvöld. Til útskýringar þá var munkakvöldverðurinn hugmynd sem var til komin af því hve listarlaus við vorum á gamlársdag og höfðum við hugsað okkur að borða bara hrísgrjón og dahl til að espa ekki magann.

Þrátt fyrir fyrrgreind veikindi get ég þó upplýst að á Palolem strönd var skotið upp miklu af flugeldum, og það löngu fyrir miðnætti og löngu eftir. Mér tókst reyndar að sofna upp úr níu um kvöldið (skjálfandi að kulda) og að vakna rétt fyrir miðnætti til að óska Baldri gleðilegs nýs árs (þá stiknandi úr hita). Ég svaf því áramótin sjálf ekki af mér, bara for- og eftirréttinn.

Í dag er ég öll að koma til og sé fram á að geta fengið mér munkakvöldverð að þessu sinni. Gleðilegt nýtt ár elsku allir!

Engin ummæli: