föstudagur, 2. nóvember 2007

Endurfundir

Í gærkvöldi gengum við Ásdís einu sinni sem oftar um miðbæ Siem Reap. Alla jafna erum við mjög örugg á þessum slóðum og ekkert misjafnt um bæjarlífið að segja. Að þessu sinni brá þó öðru við. Næsti kafli gerðist allur í einni andrá, svo lesið hratt og leyfið hjartanu að slá í takt við það.

Einhver kom á harðahlaupum aftan að mér og gerði ákafa tilraun til að rífa af mér hliðartöskuna sem ég nota undir myndavél, seðlaveski og allt draslið sem þarf að hafa á sér. Vitanlega næst taskan ekki af mér, hengd yfir báðar axlir, og gaurinn hangir fastur við mig og lá ansi vel við uppreiddum hnefa mínum og lamandi augnaráði.

Ég áttaði mig þó í tæka tíð því þarna var enginn annar á ferðinni en Fernando vinur okkar frá Kólumbíu. Það sem stefndi í að verða að leiðindaveseni reyndist upphafið að milljónasta hláturskastinu okkar og fylgdum við Fernando svo á veitingastað þar sem Sofia beið unnustans.

Hún hafði ekki verið með í ráðum og skildi ekkert í því að Fernando skyldi stökkva svo skyndilega frá hálfkláruðum mat og ráðast á ókunnugan mann úti á götu, hugsa að hún hafi verið jafnfegin og við þegar hún sá hverslags var í raun. Það er nú meira.

Þetta var fyrsti í endurfundum, leiðir skildi í Vientiane, því ráðgert er að hittast í Stokkhólmi innan tíðar og svo deilum við náttúrulega flugvél með Fernando til Íslands frá Stokkhólmi, talandi um stalkera ;-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

JA mikið var að eitthvað kom frá ykkur elskurnar, ég var orðinn leiður á að lesa bara hollustusíðu Baldurs,enda hollust ekki mitt fag.
Nú held ég að styttist í heimkomu ykkar og ykkur er hér með boðið í mat í Lækjargötuna (verðum við ekki að fá okkur feitt sauðahangikjöt og flot) eftir þessa útlegð ykkar.
við sjáumst glöð og hress á Fróni
ykkar
Stjáni

Nafnlaus sagði...

Ég sá fyrir mér ofbeldisfulla manninn hann Baldur með steitttan hnefann gefandi mannaumingjanum einn rosalegann á lúðurinn og gnísta tönnum í leiðinni............hlakka mikið til heimkomu ykkar.geiriiiiiiiiiii