Ég er útí Grímsey og gettu hvar ég er
og gettu svoldið betur því ég er ennþá hér.
Ég þarf að liggja á eggjum og ég þarf að síga í bjarg.
Ég þarf að sjá um póstinn og allt þetta fuglagarg.
Og ég þarf að skipuleggja bátaferðir og brim
og bóka flugið á morgun fyrir Bob og Tracy og Kim.
Og ég þarf að passa að sólin setjist ekki í nótt
og segja öllum að vaka en hafa samt voða hljótt
því krían er tæp á geði og selurinn sefur laust
og sjúklega erfitt að fá hann til að sýna manni traust.
Og ég þarf að hita kaffi og koma öllum í hús.
Hverjir vilja te? og hverjir epladjús?
Svo verð ég líka að passa að lömbin plumi sig vel
og panta fleiri öldur að sunnan með næstu vél.
Og ég þarf að fiska í soðið í bítið sérhvern dag
og sjá hvort ég get ekki komið skrattans rellunni’ í lag.
Og ég verð að fá að vita hvað verða margir í mat
og muna að stoppa í kjólinn, það er komið á hann gat.
Það væri nú gott að eiga undirkjól í neyð
því á eftir þarf ég að messa og spila á orgel um leið.
Já, hér er í nógu að snúast, daginn út og inn
og engin þörf að kvarta, elsku vinurinn minn.
Því ég er útí Grímsey og gettu nú hvar ég er
Og gettu soldið betur því ég er ennþá hér.
Hallgrímur Helgason
Ég rakst á þennan rosalega skemmtilega kveðskap þegar ég ætlaði að setja saman smá frásögn um heimsókn okkar út í Grímsey. Og nú er ég bara hætt við, læt ljóðið duga og
geri ekki meir,
því allt sem ég hef fram að færa
er engu betr' en leir.
Nei, segi svona. Ferðin út í Grímsey var of ævintýraleg til að ég láti frá hverfa. Ég vil síður missa af tækifærinu til að segja frá þokunni, nýútklöktu risaflugunum með rauðu fæturnar og árásagjörnu kríunum. Eða því að við urðum að hlaupa á eftir ferjunni til að verða ekki eftir á eynni.
En byrjun á byrjuninni því það kann góðri lukku að stýra. Kannski var okkur nefnilega aldrei ætlað að fara út í eyju. Við hringdum og ætluðum að bóka miða í ferjuna en var sagt að þess þyrfti ekki. Mættum á svæðið og lentum í mikilli röð og nöguðum neglur því klukkan var að renna í níu og ferjan að renna úr höfn. Náðum hins vegar að festa kaup á miðum og hlupum út í ferju. Fengum þar að vita að búið væri að selja í öll sætin. Litum á nýkeyptu miðana sem við vorum með í höndunum og veltum því fyrir okkur af hverju var verið að selja okkur þá.
Eða kannski áttum við einmitt að fara þessa ferð því fjórir seinustu farþegarnir mættu aldrei og því vorum við fjögur sem biðum á höfninni boðin velkomin um borð. Hins vegar var á þeirri stundu ekki hægt að staðfesta hvort við kæmumst með ferjunni til baka sama dag, en iss það eru bara smáatriði!
Við sigldum úr höfn í Dalvík í algjörri heiðríkju og sólríkju. Sáum fram á æðislegan eyjardag, fullan af klettum sem bera við bláan himinn og brimandi haf. Ekki voru við hins vegar búin að sigla lengi þegar þokan umlukti okkur alveg og útsýnið til allra átta. Því var ekkert annað í stöðunni en að horfa á Toy Story 3 með öðru auganu og taka sér kríu með hinu.
Þegar við lentum í höfninni á Grímsey var farið að örla á lítilsháttar sjóveiki hjá minni. Var því fegnust þegar við stigum á fast land. Þokan tók hins vegar á móti okkur, vot og köld. Nú varð mér hugsað til þess þegar ég fyrr um morguninn hafði spurt Baldur hvort ekki væri skynsamlegt að pakka niður húfu og vettlingum og hann blásið það burt eins og pirrandi hrossaflugu. Nú hefði verið fínt að hafa þá hrossaflugu til taks í formi hlýrrar húfu.
Ég hafði hugsað mér að staldra við í kjörbúð og kaupa mér smá snarl áður en við tækjum að ganga norður eftir eyjunni. Ég veit ekki hvort það var sjóriðan eða þokan sem var að verki, en ég sá aldrei til búðarinnar og féll því frá þeirri hugmynd. Auk þess voru allir erlendu ferðamennirnir svo ákveðnir að sjá og tóku allir strikið að kortinu og þaðan beint út á göngustíginn sem liggur norður að ég þorði nánast ekki öðru en að gera eins og þeir. Þeir voru eftir allt saman með ferðabækur og kort á lofti en ekki við!
Þrátt fyrir þokuna, sem mér finnst reyndar aldrei leiðinlegur ferðafélagi - eða sjaldan skulum við segja, mátti vel sjá falleg græn túnin og gulu fíflana sem lögðust eins og fallega heklað teppi yfir grasið. Það sem hins vegar var öllu leiðinlegra að sjá voru svörtu flugnaskýin sem sveimuðu yfir túnum og stráum og mýrum. Fyrr en varði vorum við öll komin inn í þennan ófögnuð enda kom síðar í ljós að það var ekki einn blettur eyjunnar laus undan plágunni. Flugurnar voru nýútklaktar, vel stórar (búkur allt að 1 sm að lengd), sljóar með afbrigðum og letilegar til flugs eftir því og það sem kannski verst var, þær skörtuðu rauðum leggjum. Jakk! Þær voru svona sljóu flugur sem fljúga beint framan í mann, upp í mann, ofan í hálsmál og hanga utan á manni þó svo maður hristi sig til og blási á þær. Eina sem virkaði var gamli góði selbitinn.
Þetta var hreint út sagt alveg voðalegt og ekki á sjóriðuna og sterku lyktina af sjávarfugli bætandi. Við létum okkur hins vegar hafa þetta og ég setti bara upp sólgleraugun þarna í þokunni til að halda betur sönsum. Úr spænska hópnum sem gekk nokkrum metrum fyrir aftan okkur mátti með reglulega millibili heyra óp og skræki, en við brostum bara í laumi og héldum ótrauð og þögul áfram og fannst við vera naglar náttúrunnar.
Húfuleysið umrædda kom síðan ekki að neinni sök því landslagið er frekar hæðótt og fyrr en varði var maður orðinn vel heitur og farinn að vilja fækka fötum. Við tylltum okkur í mosann og gæddum okkur á bláberjaskyri og prótínbari en máttum varla vera að því tímans vegna og spændum þessu í okkur í einum grænum. Við héldum förinni áfram og ákváðum að fara alveg út á nyrsta odda eyjunnar, eftir Básabjargi og út að því sem kallast Fótur. Þar lyktaði allt enn sterkar af sjávarfugli en ekkert bólaði á lundafugli, Spánverjum sem við ræddum við til mikils ama. Við spókuðum okkur aðeins þarna um á nyrsta oddinum og tókum myndir. Veltum því fyrir okkur hvort við værum á nyrsta odda landsins en héldum ekki. Létum okkur nægja að vera á nyrsta odda Grímseyjar, það yrði að duga í dag. Á sama tíma vorum við norðan við heimskautsbaug, annað sinn á þessu ári. Fannst það svosem ekkert illa af sér vikið.
Við snerum við eftir gott spók og fetuðum leiðina til baka eftir Básabjargi en þegar kom að vegamótum héldum við áfram eftir austurleiðinni. Þar hittum við fyrir spakt fé og ein þeirra kom okkur til að hlæja því hún kom hlaupandi að okkur með tvær aðrar í eftirdragi, stöðvaðist svo nokkrum metrum frá og reisti höfuðið svo hátt að það var eins og hún væri að reyna að segja okkur eitthvað. Við þóttumst náttúrulega ekkert skilja og héldum bara áfram að flissa og taka myndir.
Þegar leiðin sveigði til vesturs í átt að þorpinu og farið var að styttast í annan endann, en mig var einmitt farið að lengja svolítið í þennan styttri enda, þá gengum við inn í heimkynni kríunnar. Úff úff úff. Ef ég hef einhvern tímann haft hugmyndir um að nefna ófædda dóttur mína Kríu þá get ég staðfest að svo er ekki lengur, þær grillur runnur mjög hratt út um sandinn þá og þarna. Jeminn hvað það er þreytandi að ganga með gargandi kríur yfir höfði sér, búa við stanslausa ógn að ofan. Baldur greip stóra spýtu sér til halds og trausts en ég gekk með hettuna þrátt fyrir að vera funheitt og í engu skapi til að vera ofklædd.
Þegar við renndum inn í þorpið höfðum við góðan klukkutíma til umráða áður en ferjan færi. Notuðum tímann til að fara í Gallerý Sól sem er handverkshús grímeyskrar kvenna. Þar keyptum við nokkur póstkort og lentum í starfi enskutúlksins því konurnar í afgreiðslunni skyldu ekkert hvað ítalski ferðamaðurinn var að spyrja um. Gátum orðið að liði en bara í stutta stund því við áttum eftir að skrifa á póstkort, versla nesti og helst skoða kirkjuna.
Eftir að hafa skrifað á póstkortin fórum við í verslunina Búðin. Í Búðinni tók á móti okkur hress unglingsstúlka sem ávarpaði okkur á ensku og missti andlitið ofan í gólf þegar hún fattaði að við værum Íslendingar. "Ég var sko alveg með það á hreinu að þið væruð útlendingar," sagði hún og við gátum eiginlega ekki láð henni það þegar við litum niður og sáum hvað hún sá: gönguskór, North Face útivistafatnaður, Canon myndavél dinglandi um hálsinn. Héðan í frá er það bara lopapeysan í öll mál. Nú, eða þá að njóta þess að vera útlendingur í eigin landi.
Ósköpin með flugurnar skýrðist þarna í búðinni. Þær koma alltaf í ágúst og stoppa stutt en að þessu sinni komu þær tvíefldar því stúlkan í búðinni hafði aldrei séð annan eins fjölda áður. Og þær höfðu ekki verið á eyjunni á föstudeginum fyrir helgi svo þær voru nýjar og sprækar. Akkúrat.
Með kex og kókómjólk í hönd og búin að póstleggja póstkortin og tryggja að þau fengju Grímseyjarstimpilinn héldum við í smá göngutúr út að kirkjunni. Höfðum til þess sæmilegan tíma og ekki um að ræða langa göngu. Náðum að skoða kirkjuna að innan og rölta um kirkjugarðinn. Að þessu sinni fundum við engin krassandi nöfn en það sem vakti óneitanlega athygli mína var hve mikið var af smábörnum sem grafin voru í garðinum.
Við töfðum aðeins of lengi í kirkjunni og garðinum. Tókum að rölta til baka, gáfum síðan aðeins í því mikið asskoti var allt í einu langt í höfnina og enduðum síðan á hlaupum þarna niður með Grímsey í gönguskónum, klonk-klonk. Vorum komin að skipshliðinni veifandi farmiðunum þegar lúðurinn var þeyttur og þá tóku þeir sem voru fyrir aftan okkur á rás. Við vorum semsé ekki seinust! Klöngruðumst um borð, köstuðum mæðunni og köstuðum síðan kveðju á eyjuna.
Bless Grímsey, þú ert engin venjuleg.
1 ummæli:
Það var aldeilis þokan sem þið fenguð! Gaman að sjá myndirnar ykkar :)
Skrifa ummæli