miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Vegan salat

Vegan salat

Ég kalla þetta salat vegan salat einfaldlega af því að uppskriftina fékk ég frá Sassy sem heldur úti síðunni Vegan Coach. Á síðunni sinni er hún með mörg myndbönd þar sem hún kynnir mann fyrir allskyns grænmeti, eins og t.d. radicchio káli sem ég hafði aldrei heyrt um áður, og síðan eru nokkur matreiðslumyndbönd. Mæli með Sassy!

Og ég mæli með þessu salati! Hvað er svona gott við þetta salat? Það er næringargerið sem maður setur út á, fræmulningurinn, þurrkaði lauk- og hvítlaukurinn og balsamikdressingin. Salatið verður bragðmikið, svolítið salt, krönsí og safaríkt. Ég finn munnvatnskirtlana fara af stað bara við að skrifa niður þessa lýsingu!

Áður en við dembum okkur í uppskriftina vil ég taka fram að uppistaðan í þessu salati skiptir ekki öllu máli. Salatið hennar Sassy skartar rauðum salatblöðum, romain salati, rauðkáli, radicchio, gul- og rauðrófur, bok choy, tómötum og gúrku. Þar sem ég bý ekki í landi slíkrar salat- og kálgnóttar varð ég að breyta innihaldinu svo það endurspeglaði minn norska salatraunveruleika, en ég hélt inni því sem ég gat auðveldlega nálgast. Hér að neðan er uppskrift að salatinu eins og ég gerði það en ég hvet alla til að setja flott lífræn salatblöð í salatið og leyfa þeim að vera uppistaðan.

HVAÐ
1 brokkolíhaus
1 rauð papríka
2 gulrætur, rifnar
1 rauðrófa, rifin
1/2 gúrka
Fræblanda: sólblóma-, sesam-, graskers- og hörfræ
Næringarger
Balsamik edik
Ólívuolía
Safi úr hálfri sítrónu
Óreganó (þurrkað)
Basilíka (þurrkuð)
Hvítlauksduft
Laukduft
Salt

HVERNIG
1. Útbúið fræblöndu í krukku: 1 msk sólblómafræ, 1 msk graskersfræ, 1 msk sesamfræ, 2 msk hörfræ. Hristið saman og geymið inní ísskáp. Þessi fræblanda er líka frábær út á súrmjólk/hafragraut og geymist vikum saman inní ísskáp í lokaðri krukkunni.
2. Skolið/skerið/saxið/rífið grænmeti/kál/salatblöð.
3. Myljið 2-3 msk af fræblöndu í kaffikvörn (sem ekki er notuð undir kaffi!). Annars má líka nota töfrasprota eins og ég gerði, það gengur alveg.
4. Hellið fræmulningum yfir salatið.
5. Bætið 3-4 msk af næringargeri út á og hrærið allt vel saman.
6. Setjið dash af lauk- og hvítlauksdufti yfir, óreganó, basilíku og salti (mæli með Herbamare). Hrærið saman.
7. Hellið yfir sem samsvarar 1-2 msk af ólívuolíu og 1 msk af balsamik ediki. Kreistið hálfa sítrónu yfir. Hrærið vel saman.

Smakkið salatið til og bætið við eftir þörfum. Mér finnst aldrei vera nóg af næringargerinu svo ég dreifi því alltaf aukalega yfir minn skammt þegar hann er kominn á diskinn.

Verði ykkur grænhjartanlega að góðu!

Engin ummæli: