þriðjudagur, 22. október 2002

Nýju fötin keisarans

Á sunnudaginn var sá ég fram á að hafa ekkert að gera. Ég hafði enga eirð í mér til að lesa námsbækur eða vinna að rannsókninni minni og því sat ég bara upp í rúmi og las Minningar geisju eftir Arthur Golden í annað sinn. Smá innskot: Það er víst verið að gera kvikmynd eftir sögunni, sjálfur Steven Spielberg þar á bakvið.

Hvað um það, þennan tjáða sunnudag sat ég því og las og hafði mjög gaman af því. Hins vegar langaði mig að nýta tímann og kíkja hvort ég fyndi einhverjar flíkur á mig en þar sem það var sunnudagur afskrifaði ég það og taldi engar líkur á því að einhverjar verslanir væru opnar. En þá rak ég augun í Fréttablaðið þar sem sagði að Kringlukast stæði yfir þessa helgina þannig að ég hringdi í mömmu og saman fórum við í búðarleiðangur.

Það var sannarlega ferð til fjár því ég keypti hvorki meira né minna en tvennar buxur, tvær skyrtur/blússur og einn bol. Í þokkabót fann ég skó á viðráðanlegu verði og úr almennilegu efni sem þar að auki voru smekklegir. En þar sem ég var ekki alveg ákveðin lét ég taka þá frá. Það var eins gott því nógu hlaðin var ég fyrir að mér fannst. Ég held ég hafi barasta aldrei verslað svona mikið í einu af fötum á Íslandi áður, ég segi ekki annað.

Næsta dag fórum við Baldur síðan og keyptum á mig blessaða skóna. Ég mátaði þá, Baldur heimtaði að kaupa þá og ég fór ekkert úr þeim aftur þann daginn, þ.e.a.s. ég gekk í þeim út úr búðinni og alveg yfir í gæludýraverslunina beint á móti. Baldur fékk að halda á gömlu skónum. Í gæludýrabúðinni keyptum við síðan höll, ekki blokk, fyrir hana Fríðu Sól. Hún er nefnilega svolítið eins og Linda í Gauragangi sem segist ekki vera gerð til að búa í blokk, hún vilji frekar búa í höll með þjón og kokk.

Við Fríða Sól erum sem sagt tilbúnar í jólköttinn. Grey Baldur hefur ekkert nýtt fengið, en ef ég bæti gallabuxurnar og staga í sokkana hans, ætli hann sleppi þá?