þriðjudagur, 10. desember 2002

Fyrsta prófinu lokið

Þá er ég búin með fyrsta próf þessa vetrar og það næsta er ekki fyrr en þann 16. Ég hef því nægan tíma til að láta mér leiðast að lesa undir próf í eigindlegum en þess á milli verð ég að vinna í ritgerð sem ég á eftir að skila fyrir leskúrsinn.

Í kvöld ætla ég hins vegar að slappa af og hitta stelpurnar ásamt krökkunum frá Grænlandi. Þessir krakkar eru allt skiptinemar hér og eru að fara heim fyrir jólin svo þetta er svona kveðjuhóf.

Annars langar mig líka ósköp mikið að fara heim og klára að setja jólaseríuna í stofugluggann. Við Baldur gerðum heiðarlega tilraun til þess í síðustu viku en gáfust upp þegar við vorum farin að æpa á hvort annað í pirring okkar og vonsku. Aldrei að reyna að festa jólaseríu með límbandi, það er ekki góðs vísir. Ég ætla því að fara í Rúmfatalagerinn, kaupa þessa glæru tappa sem þeir eru sí og æ að auglýsa, fara síðan heim og festa upp seríuna sem þurft hefur að dúsa í glugganum eins og illa gerður hlutur, hálfuppsett og ekki einu sinni kveikt á greyinu.