Ég er núna stödd upp í tölvuverinu í Odda og það líður senn að miðnætti. Það er frekar skrýtið að vera upp í skóla á þessum tíma sólarhrings, einhvern veginn er það ekki sú mynd sem maður hefur af skólahaldi í huga sér, hangandi þar fram eftir nóttu. Ég er að bíða eftir litla Baldrinum mínum, hann er að gera lokaatlögu að línulegri algebru fyrir prófið á morgun.
Loftið þarna frammi er lævi blandin og þar sitja nokkrir sveittir yfir power point glærum og maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort þetta fólk sé svona rosalega samviskusamt eða bara svona svakalegir tossar sem ætlar sér síðan að vaka alla nóttina og reyna að koma einhverju inn í hausinn. Ég gerði það að hluta til fyrir stúdentsprófin, undir lokin var maður farinn að sofa ansi lítið en það er líka leiðinlegasta tímabil sem ég hef upplifað og mæli ekki með þessari lærdómsaðferð við neinn.
Ég var að koma af kveðjukvöldinu og það var mjög skemmtilegt. Það var mikið slúðrað um ákveðna aðila frá Grænlandi, Pamela neitaði að segja okkur svæsna sögu af einum Dana og einum Finna (sitthvort kynið) en þegar hún skrapp á klóið sætti Cyril færis og slúðraði í okkur öllum soranum.
Það var mikið um "oooooohh" og "jiiii", allt í innsoginu vitaskuld og einhverra hluta vegna var mikið rætt um Ástrali og þá staðreynd að ástralskir surfers hefðu lægstu greindarvísistölu heims. Uppi eru plön um að hittast næsta laugardagskvöld en það er nú spurning hversu upplagður maður verður í slíkt og annað eins. Til vonar og varar kvöddumst við því öll og nú er bara spurning að halda sambandi við þetta fólk.