miðvikudagur, 23. febrúar 2005

Allt gott að frétta

Undanfarna daga hefur fiskbúðin í JL-húsinu selt fiskinn á óvenjulega hagstæðu verði. Fyrir vikið hef ég borðað fisk svo að segja í hvert mál. Hádegismaturinn í dag var t.d. smjörsteiktur koli en í gærkveldi prufaði ég þessa frábæru uppskrift.

Hvað er annað í fréttum? Jú, ég hef flett ofan af grunsamlegum samtökum Borgarholta. Ég komst nýverið að því að hin glaðbeitta sendinefnd mín í Englandi á sér nöfnu sem er pínu krípí...

miðvikudagur, 16. febrúar 2005

Skólaferðalag

Í gær fór ég í skólaferðalag lengst uppí sveit. Já, bekknum mínum í nýsköpun og vöruþróun var boðið í heimsókn í Iðntæknistofnun. Ég hef einhvern veginn aldrei pælt neitt sérstaklega í þessari stofnun en oft séð húsið þegar ég hef verið á heimleið úr sumarferðalögum. Mér virðist margt sniðugt brallað þarna og hver veit nema maður þiggi aðstoð þeirra við að ýta einhverri nýjung úr vör.

Í gær skilaði ég líka ritgerð í markaðsfræði 2. Við vorum fimm sem skrifuðum hana saman og verð ég að játa að verkið sóttist ótrúlega vel. Það er nefnilega ekki það sama að skila bara ritgerð og ritgerð sem maður er virkilega ánægður með. Þessi fellur í seinni flokkinn.

mánudagur, 14. febrúar 2005

Óformlegur Valentínus

Síðasta pólóæfing var eina æfingin í síðustu viku. Það var nefnilega þannig að ég byrjaði að fá örlítið í hálsinn á mánudaginn en hélt það væri ekki neitt. Þetta smotterí jókst svo smátt og smátt þar til ég var kominn með einhverskonar pirrandi hálfveikindi. Ég komst s.s. í tíma en var að öðru leyti ekki til stórræðanna. Hins vegar finn ég að ég er byrjaður að sækja allverulega í mig veðrið og ætla að halda því áfram.

Nóg af armæðu og voli. Í dag er víst Valentínusardagur og á þeim degi fögnum við Ásdís óformlegu sambúðarafmæli okkar og er þetta í fjórða sinn. Góðar stundir...

miðvikudagur, 9. febrúar 2005

Fjölskylduhittingur

Í kvöld fengum við mömmu og pabba í heimsókn. Hér var mikið hlegið, spjallað og etið. Eftir matinn fengum við okkur tebolla og hlustuðum á tónlist. Það vill svo skemmtilega til að við hlustuðum meðal annars á rapparann Eminem og þegar mamma og pabbi voru nýfarin rákum við augun í þetta. Það er nú meira hvað þessir kanar eru miklir hræsnarar. Þeir eru alltaf að gera grín að þjóðum sem banna fólki að skerða hár sitt og þar sem konum er gert að ganga í ákveðnum fötum. Hvað gera þeir? Jú, nákvæmlega það sama!

þriðjudagur, 8. febrúar 2005

Tilkynningaskyldan

Í dag er þriðjudagur, bara svona að láta vita af því. Á sunnudaginn fórum við Ásdís í mat til Kristjönu og Braga. Maturinn stóðst allar kröfur matgæðinga enda er Bragi hörkukokkur. Eftir matinn spiluðum við Leonardo og co sem ég vann í (hehe). Þegar ég var við það að líða út af í sigurvímu var mér kippt snarlega niður á jörðina því Kristjana svoleiðis burstaði okkur í spili sem kallast Hættuspilið. Ég mæli með því, það er svona ekta spil þar sem maður tjúnast allur upp af æsingi og fjöri.

Í kvöld ætla ég svo að skella mér aftur á pólóæfingu. Nú mega æfingafélagarnir vara sig því ég hefi þegar hlotið viðurnefnið Prins Póló!

fimmtudagur, 3. febrúar 2005

Sundknattleikur og nágrenni

Í fyrradag fór ég á sundknattleiksæfingu sem var hörkustuð og hörkupuð. Þegar ég var að setja á mig sérstakt sundknattleikshöfuðfat rifjaði félagi minn upp að Ingjaldsfíflið í myndinni um Gísla Súrsson hefði verið með svipað pottlok. Ef einhver lesandi dagbókarinnar kann að synda og langar til að koma sér í brjálað form þá mæli ég með þessu, þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 20:30 í nýju innilauginni í Laugardal.

Í gær fórum við Pétur afi svo á góðan rúnt um Reykjavík og nágrenni í víðum skilningi orðsins nágrenni. Eftir að hafa staldrað í Hveragerði og kíkt á gott kaffihús þar brunuðum við hingað á Eggertsgötuna og fengum heita súpu og brauð hjá Ásdísi.

þriðjudagur, 1. febrúar 2005

Jæja best að blogga eitthvað

Í gær var veisla hjá hinu alræmda ýsugengi. Matseðillin var sá sami og venjulega enda engin ástæða til þess að breyta því sem gott er. Það vill líka svo heppilega til að klúbbsmeðlimir eiga það sameiginlegt að uppáhaldsmaturinn er einmitt soðin ýsa og kartöflur.

Að undanförnu höfum við Ásdís nýtt okkur skype í samskiptum okkar við umheiminn. Þetta er það þægilegt apparat að ég fæ ekki betur séð en að símar séu í rólegheitunum að detta upp fyrir.