miðvikudagur, 9. nóvember 2005

Eftirminnilegur eftirmiðdagur

Í dag ákváðum við að gera alvöru úr heimsókn okkar á Thorvaldsens safnið. Ferðin hófst ekki á ósvipuðum nótum og síðast, loftlausu afturdekki. Að þessu sinni var það á Ásdísar hjóli en ekki þurfti annað en að pumpa smá og þá var hægt að halda ferðinni áfram.

Á safninu eru alls konar styttur eftir hálf-Íslendinginn Bertel Thorvaldsen. Við skoðuðum safnið hátt og lágt en vorum orðin frekar þreytt á gifsrisum í lokin.

Því næst var ferðinni heitið á Strikið. Sem við röltum þar um í sakleysi voru, innan um aðra útlendinga hér í borg, gellur við símhringing. Í símanum voru froskarnir, Kristján og Stella, að færa okkur gleðifréttir um að þau hafi eignast myndarstúlku þá um morguninn. Maður vissi nú ekkert í hvorn fótinn átti að stíga eða neitt en á morgun förum við (onkel Baldur og tanta Ásdís) á spítalann að hitta fjölskylduna.

Við rápuðum aðeins meira um og ræddum tíðindin þartil við bara urðum að tylla okkur á bekk og taka drekkutíma. Meðan við sátum í rökkrinu og borðuðum kanelsnúða à la Ásdís nutum við þess að fylgjast með mannhafinu líða jafnt og þétt hjá. Einnig fylgdumst við með sérstakri dýrategund, götusölum og listamönnum, og þeim áhrifum sem hún hafði á mannhafið.

Okkur á vinstri hönd var mállaus maður að selja alls konar lyklakippur og eyrnalokka sem lýstu og blikkuðu í myrkrinu, sjálfur var hann vel skreyttur af blikkljósum svo helst minnti á jólatré í dúnúlpu. Okkur á hægri hönd var auður bekkur þartil maður með bongótrommu og bjöllur um ökklana kom aðvífandi og settist þar. Hann byrjaði á að kveikja á stórum útikertum og raða í kringum sig. Þegar þarna er komið sögu má með sanni segja að við séum mitt í allri hringrás stemningarinnar.

Áfram sátum við andaktug og nutum upplifunarinnar. Bongótromman hljómaði um alla götuna og öldur mannhafsins risu og hnigu í takt. Einu skiptin sem bongótromman þagnaði var þegar samkeppnisaðilar, aðrir listamenn, komu til að kvarta undan of harðri samkeppni. Bongómaðurinn svaraði því ævinlega með spurningu um hví hinir kæmu svona seint ef þeir vildu ná góðum stað til að spila á og þegar þeir virtust ekki hlusta á það fór hann bara að spila aftur og var málið þá látið niður falla. Það er greinilega harður heimur sem götulistamenn vinna í.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til lykke med den lille pige i familien, Baldur minn.
DE er godt at bo í Kopavogur, siger nogle familier deroppe nu.
-islendingen