sunnudagur, 12. nóvember 2006

Norður- og suðurslóðir á sama degi

Við mamma kíktum á nokkrar sýningar á laugardaginn var, réttara sagt einar fjórar sýningar.

Við byrjuðum menningarheitin með því að kíkja í Gerðuberg á sýninguna Flóðhestar og framakonur þar sem mannfræðingurinn Ólöf Gerður Sigfúsdóttir hafði safnað saman ýmsum minjagripum frá Afríku. Mér fannst hver gripurinn öðrum fallegri en fíladagatalið og Örkin hans Nóa með öllum smáu dýrunum stóðu upp úr.


Frá Afríku héldum við á norðurslóðir í Gerðarsafni. Þar stóðu yfir þrjár mismunandi sýningar á nútímalist frumbyggja Kanada. Á neðri hæðinni voru mergjaðir skúlptúrar ínúíta, margir hverjir sýndu manninn við veiðar og óhjákvæmilega seli og rostunga en einnig sauðnaut sem okkur mömmu þóttu skemmtilega hornótt og loðin.

Á efri hæðinni voru tvær ljósmyndasýningar. Önnur var á verkum Myron Zabol og ber heitið Þjóð hins dansandi himins og samanstendur af myndum af fólki frá Sex-þjóð-friðlandinu. Hin er af nútímalist Carls Beam þar sem hann teflir hefðbundnum táknum indjána gegn hefðbundnum vestrænum táknum.

Af þessum tveimur ólíku álfum, Afríku og Norður Ameríku, væri ég frekar til að kíkja til Afríku. Meira að segja er ég svo til í það að ef ég væri ekki á leið til Indlands væri ég allavega áreiðanlega á leið til Botswana þar sem vinkona mín Precious Ramotswe býr.

Engin ummæli: