Fyrsta kvöldið okkar í Dharamsala áttu sér stað átök milli Tíbeta og Indverja og tvennt lenti á spítala. Í dag mótmæltu Tíbetarnir þessu ofbeldi með því að hafa allan rekstur lokaðan.
Það var því frekar dauft yfir bænum í dag. Við vorum þó fljót að þefa uppi opna staði, allir Indverjar í rekstri hér héldu opnu, og svo fór að við hengum á Chocolate Log góðan hluta dagsins.
Um kvöldið kíktum við aftur í bíó, að þessu sinni í annað kvikmyndahús en jafnlítið fyrir því. Við sáum Eragon, mynd um drekann Safíru og drekariddarann Eragon. Ég las tvær fyrstu bækurnar í seríunni í baðstofunni á Þinghólsbraut síðastliðið haust og hafði mikið gaman af. Það var líka gaman að sjá söguna á tjaldi og tilhugsunin um að fara á bak dreka var allt í einu ekki svo fráhrindandi.
Á leiðinni heim eftir myrkum og þröngum götum McLeod Ganj rákumst við á okkar eigin dreka, lítinn svartan sporðdreka sem skreið eftir götunni. Þrátt fyrir að hann væri töluvert minni en drekinn Safíra vakti hann engu að síður mun meiri skelfingu. Við höskuðum okkur sem hraðast mátti heim á leið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli