Okkar fyrsta upplifun af Dharamsala sem Paradís bakpokaferðalangans stendur óhögguð. Hér er fólk indælt, aðrir ferðalangar eru að stjái, úrval veitingastaða er gott og hér eru meira að segja matvöruverslanir! Og þær selja eplasafa og hnetusmjör, finnska hrökkbrauðið Finn Crisp, majónes og súrar gúrkur. Allt í einu finnst mér ég komin heim þangað sem hlutirnir eru skiljanlegir og rökréttir :o)
Það besta við Dharamsala er þó án efa bíóhúsin. Þar sem við höfðum ekki séð kvikmynd í rúman mánuð var forgangsatriði að bæta úr því. Þegar við eigum stefnumót heima förum við yfirleitt á Devito's á Hlemmi og gæðum okkur á vel kryddaðri margarítu fyrir bíóferð. Í þetta sinn fórum við á Jimmy’s Italian Kitchen og fengum okkur margarítu með svörtum ólívum og pizza siciliana með eggaldin, lauk og ólívum.
Síðan fórum við inn í minnsta bíósal sé ég hef augum litið (rúmaði 22) og horfðum á The Last King of Scotland. Það vantaði vissulega góða poppkornið, sítrónutoppinn og gula strumpaópalinn, en þetta var engu að síður eins besta bíóferð sögunar. Svolítið eins og þegar hungrið er besta kryddið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli