miðvikudagur, 2. maí 2007

Himalaya fjöllin góðu

Eftir að hafa þvælst um eyðimerkurfylkið Rajasthan og Sikka fylkið Punjab í rúmar tvær vikur í 40-45°C hita, þurru lofti og miklu ryki, vorum við sannarlega tilbúin til að stimpla okkur út og flýja til fjalla.

Veikindi Baldurs settu strik í reikninginn og í staðinn fyrir að eyða aðeins einum degi í Amritsar neyddumst við til að vera þar þrjá heila daga, föst inn á litlu og loftlausu hótelherbergi. Kvöldið áður en Baldur veiktist höfðum við einmitt verið að pakka niður full tilhlökkunar yfir að flýja hitann og komast í svalara loftslag. Það var því enn erfiðara en ella að þola hitann þessa auka daga sem við vorum í Amritsar, í huganum vorum við þegar komin til Himalaya.

Í morgun var Baldur sem betur fer ferðafær og við neyttum færis og tókum fyrstu morgunlestina til Pathankot. Þaðan tókum við síðan leigubíl til Dharamsala og deildum ferðinni með ágætishjónum, Greg frá Bretlandi og Stefani frá Nýja Sjálandi.

Á leiðinni uppeftir spjölluðum við heilmikið við þau hjónakorn, en þau eru búin að vera á heimshornaflakki í tæpt ár. Ég lærði m.a. að fólk frá Nýja Sjálandi talar um sjálft sig sem kiwi og er þar með að vísa í kiwi fuglinn sérkennilega.

Eftir því sem ofar dró urðu vegirnir þrengri og þverhníptari. Þá varð loftið svalara og svalandi, gróður grænni og sællegri og við sáum meira að segja á sem rann um grýttan dal. Áhrifin á sálina og andann voru ótvíræð: okkur leið eins og að koma til Paradísar.

Leigubíllinn keyrði okkur upp í lítinn bæ sem kallast McLeod Ganj, aðeins þremur kílómetrum norðan við Dharamsala. Þar fundum við herbergi með svölum og frábæru útsýni yfir grænan dalinn og snjóhvíta tinda.

Breytingarnar eru í stuttu máli sagt ótrúlegar, sérstaklega ef litið er til þess að aðeins er um tveggja tíma ferð að ræða frá Pathankot og Dharamsala. Okkur finnst við vera stödd í allt öðru landi. Dharamsala er dvalarstaður Dalai Lama og hér hefur tíbeska ríkisstjórnin aðsetur, hún er í útlegð rétt eins og Dalai Lama. Fyrir vikið er bærinn fullur af tíbesku flóttafólki sem flust hefur hingað til að vera í návígi við Dalai Lama. Viðmót Tíbetanna er gjörólíkt því sem við höfum hingað til upplifað í Indlandi. Fólk er miklu mun vinalegra og afslappaðra, konurnar klæðast sértíbeskum kjólum, svörtum eða gráum, sem eru bundnir í mittið og eru þar með allt öðruvísi en litríku saríar Indverjanna.

Í stað hinna hefðbundnu hindúahofa eru hér búddísk bænahjól og í stað hindí skrifmáls er allt á ensku eða tíbesku. Þá eru göturnar fullar af búddamunkum í rauðum og gulum kuflum og djúpum þönkum, afslöppuðum ferðamönnum með dredda og tíbeskum skólabörnum á þönum.

Ótrúlegasta breytingin er þó þessi: hér er svo svalt að maður fær gæsahúð í skugga, hér er svo svalt að ég varð að draga fram gallabuxur, hettupeysu, síðermabol og sokka, hér er svo svalt að það eru sængur á rúmum! Við eigum eftir að sofa svo vel í þessu svala lofti.

Engin ummæli: