Ég sat í dag á kaffihúsi og las í bók. Aldrei þessu vant var ég nefnilega einn á kaffihúsi, Ásdís heima að lesa á svölunum eins og henni er einni lagið. Þegar maður er einn á kaffihúsi er allt í lagi að lesa í bók.
Núnú, það var margt um manninn á kaffihúsinu og notaleg stemmning. Á næsta borði við mig sitja tvær virðulegar dömur á spjalli og komst ég ekki hjá því að heyra dágóðan hluta af því sem þeim fór á milli, nýjunga-radarinn sá til þess.
Sú eldri, sem var um sjötugt, spyr þá yngri, sennilega á fertugsaldri, hvar hún hafi fengið krafta sína. Án þess að blikna svaraði hún að kraftarnir hefðu komið úr kristal á fjarlægri stjörnu í fyrra lífi. Ýmislegt fór þeim fleira á milli en ég verð að játa að þetta stóð helst upp úr.
Auðvitað var ég frekar hissa, lét þó vera að spyrja, en á sama tíma opnaði ég hugann fyrir nýjum og ekki nýjum pælingum. Ef heimurinn er óendanlega stór er heldur betur sennilegt að líf finnist á öðrum hnöttum, annað hljómar fremur þröngsýnt. Sé þetta líf einhvers staðar aukast líkurnar á að einhvers staðar séu lífsform með svipaðan eða meiri vitsmunaþroska en mannkyn.
Ef fólk trúir á sama tíma á hringrás endurfæðinga hlýtur sú hugmynd að vera án landamæra, leyfi mér hér að ætla að pólitík hafi ekkert með þetta að gera. Ef endurfæðingin tekur ekki tillit til landamæra, litarháttar eða kyns og er tilkomin vegna einhvers almáttugs afls hlýtur það sama að gilda um alheiminn.
Samkvæmt þessu ættum við því vel að geta endurfæðst sem fjólubláir þríkynja drekar í þrettándu vídd Djúbb Tontont í Brabra sjtörnuþokunni á bak við fjöll bleiku sólanna þar sem Ikarus selur kerti úr endurunnu vaxi. Ja, hví ekki?
1 ummæli:
My feeling exactly. The sky's the limit. Tíminn er hringrás, eða öllu heldur gormur. Ekkert tapast, það fer bara annað í bili.
Skrifa ummæli