Við borðuðum í kvöld á Jimmy’s Italian Kitchen sem ég held að lesendur dagbókarinnar ættu að vera farnir að kannast við. Við borðum þar ansi oft þessa dagana og ástæðan er einföld: maturinn er góður, staðurinn verlega huggulegur og sú sem rekur staðinn, Diggí, er mjög alúðleg og ræðin. Svo skemmir heldur ekki að hún hefur góðan tónlistarsmekk, hvergi annarsstaðar höfum við t.d. fengið að hlusta á Jack Johnson.
Við höfum hingað til aðeins spjallað lítillega við Diggí en það hefur verið nóg til að sannfæra okkur um að hún er mjög góð í ensku. Í kvöld tókum við síðan eftir því að hún talaði við einn af kokkunum á hindí. Baldur spurði því af kurteisi og áhuga sakleysislegrar spurningar: “Hversu mörg tungumál talarðu eiginlega?”
Spurningin leiddi okkur út í áhugavert spjall sem stóð yfir alla máltíðina. Við komumst t.d. að því að Diggí talar frönsku því hún hlaut alla sína menntun fram að háskóla í klaustri í Pondicherry, klaustrinu sem er á vegum Móðurinnar, en Móðirin er einmitt sú sem byggði Auroville. Við fengum líka að vita að menntunin sem boðið er upp á í klaustrinu er óvenjuleg að því leyti að mikið er lagt upp úr því að nemendur verði meðvitaðir um sjálfa sig og umhverfi sitt og mikil áhersla er lögð á sjálfstæði hvers og eins. Þá lærðu þau einnig heimspeki Sri Aurobindo og öll kennsla fór fram á frönsku.
Við fengum líka að vita að Diggí ætlaði upphaflega að læra tölvufræði en leiddist út í að læra sanskrít, og til að læra sanskrít þarf maður að fyrst að ná góðum tökum á hindí. Hún kláraði B.A. í sanskrít og þýðingum og vann sem þýðandi áður en hún fór út í veitingahússrekstur. Hún þýddi m.a. fornrit úr Palí (tungumáli Búdda) yfir á sanskrít.
Að lokum fengum við að vita að fjölskyla hennar býr í Kathmandu í Nepal. Diggí ólst hins vegar upp í Pondy og fyrir vikið talar hún ekki nepölsku. Einhvern veginn nær hún samt að bjarga sér. Þegar hún er á markaðnum í Kathmandu blandar hún bara saman bengalí og hindí og nær þannig að gera sig skiljanlega í eyrum Nepalanna.
Sakleysislega spurningin varð semsé að smáævisögu! En hvert er svo svarið við spurningunni? Hvað talar Diggí eiginlega mörg tungumál? Sko, hún talar frönsku, ensku, tíbetsku, hindí, sanskrít, bengalí, tamíl og getur lesið Palí. Engin furða að það tók allt kvöldið að svara spurningunni, þetta er langur listi!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli