Það er ekki hægt að hafa verið í Indlandi í fimm mánuði og ekki segja eitt orð um skorkvikindin hér. Þau eru af ýmsu tagi, ýmsum litum og lagi og af nógu er að taka. Gefðu mér maura, segirðu. Gjörðu svo vel, beint frá Auroville. Gefðu mér kakkalakka, segirðu. Gjörðu svo vel, beint úr örbylgjuofni í Bangalore. Gefðu mér mýflugur, blinda flugmaura, fljúgandi kakkalakka, sporðdreka, húsflugur, drekaflugur, bjöllur stórar og smáar, köngulær loðnar og litaðar, fiðrildi dags og nætur, þúsundfætlur feitar og langar, segirðu. Listinn er nær ótæmandi en komdu til Indlands, þar er úrvalið frábært.
Í Auroville voru maurar okkar helsta plága. Þeir voru allstaðar: upp á borðum, ofan í diskum, inn í innkaupapokum, upp um alla veggi og skápa, jafnvel í óhreina tauinu. Maurar eru mjög upptekin skorkvikindi: flytja þetta fiðrildi gegnum stjarnfræðilega litla sprungu á veggnum, bera brauðmola af eldhúsborðinu lengst upp í rjáfur, draga kexpakka þvert yfir gólfið. Okkar helsta dægrastytting var að stríða maurunum. Ef maður bleytir fingur með munnvatni og strýkur honum yfir mauraslóð þannig að hún þurrkist út á einum kafla verða þeir alveg ringlaðir og vita allt í einu ekkert í sinn haus. Og það tekur þá furðulangan tíma að átta sig á hvernig skuli tækla slíkar aðstæður. Kannski geri ég of miklar kröfur til vitsmuna þeirra.
Hér í McLeod Ganj er það húsflugurnar sem pirra mig hvað mest. Þetta eru hinar hefðbundnu húsflugur sem við þekkjum að heiman þó Baldur vilji reyndar meina að þar séu þær litríkari. Ég veit ekkert um það en get hins vegar staðfest að þær kunna sig betur heima, þær sækja kannski í matvæli en láta mann sjálfan að mestu vera. Flugurnar hér eru öðruvísi, þær eru alltaf utan í okkur og gefa okkur ekki stundarfrið. Meira að segja skorkvikindin hér á landi eru uppáþrengjandi.
Þegar maður sefur setjast þær á andlitið og helst varirnar svo mann kitli sem mest og rjúki upp bálreiður. Í hugleiðslu sækja þær í lófana og fingurna, dingla sér þar eins og um sé að ræða félagsmiðstöð. Svo er líka afskaplega pirrandi þegar þær fljúga í hárið á manni en þangað sækja þær mjög. Mig grunar að það sé hunangsjampóið sem ég nota. Ergo: ég hlakka mest til að sjampóbrúsinn klárist.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli