laugardagur, 28. apríl 2012
Laxinn og Lovund
Laxeldið sem við vinnum fyrir heitir Nova Sea og hér að ofan er splunkuný stuttmynd sem fyrirtækið lét gera til að kynna sig og starfsemina. Ég ákvað að deila myndinni hér á síðunni því hún er vönduð og falleg, og það sem best er, hún sýnir hvað Norður Noregur er fallegur og hve fagleg og fín verksmiðjan er sem við vinnum í daglega. Ég hef nefnilega oft á tilfinningunni þegar ég tala við fjölskyldu og vini að þau hafi aðra mynd af vinnunni en raunin er: að hún sé mjög erfið, aðbúnaður slæmur og maður sé kaldur í gegn allan daginn. Mér finnst myndin sýna aðstæður og aðbúnað mjög vel og því mæli ég með henni fyrir forvitna.
Eins og fram kemur í myndinni eru starfsstöðvar Nova Sea dreifðar um nokkrar eyjar en höfuðstöðvarnar eru þó á eyjunni góðu Lovund, þar sem er að finna slátrunar- og pökkunarverksmiðjuna sem við vinnum í auk rannsóknarstofu, söluteyma og fjármáladeildar.
Seinni helmingur myndbandsins sem fjallar um Lovund og pökkunarverksmiðjuna á mest við um starfið okkar, þar sem myndskeið eru tekin innan úr verksmiðjunni og sýna laxinn fara inn í vélarnar sem slægja og síðan yfir á viktina í frauðkössum og allaleið yfir á kælilager. Það er skemmtilegt frá því að segja að við Baldur höfum unnið á flestum þessum starfstöðum, ég aðallega á vikt og inn í slægingu og Baldur inn í slægingu og kælilager að keyra gaffallyftara. Að vinn'á lyftara, ekkert mál!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli