miðvikudagur, 31. júlí 2013
Bókarabbið: Júlíbækurnar
Ég er mikill bókaormur. Þeir sem þekkja mig vita það. Allar afmælis- og jólagjafir frá 14/15 ára og vel fram yfir tvítugt voru bækur og bara bækur (nánast). Bókalestur er áhugamál mitt numero uno. Í ár hef ég notið þess að lesa eins mikið og mig lystir, og farið eins margar ferðir á bókasafnið og ég vil. Nú þegar ég hef kindle er ég enn frjálsari og les eins og mér sé borgað fyrir það (sem væri náttúrulega besta starf í heimi).
Ég ætla að blása til nýs pistils og kalla hann Bókarabbið. Hugmyndin er að taka fyrir þær bækur sem ég hef lesið í hverjum mánuði fyrir sig. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta verði mánaðarlegur pistill heldur frekar þegar á við. Það eru ekki allir mánuðir gjöfulir, stundum les maður bara lélegar bækur (og þær nenni ég ómögulega að skrifa um) og stundum nær maður ekki að lesa neitt.
Talandi um að lesa, venjulega les ég ekki mikið á sumrin en þetta sumar hefur orðið undantekning á. Ég hef verið í miklu lestrarstuði, og svo hjálpar að hafa góðan frítíma. Þetta eru einar sex bækur, sem er ekki mikið miðað við fyrstu mánuði ársins þegar ég náði 10-11 bókum á mánuði, en miðað við að ég er tiltölulega nýflutt og það er bongóblíða upp á hvern einasta dag, þá er ég ansi sátt. Mögulega gekk svona vel að lesa þennan mánuðinn því flestar bókanna sem ég las í júlí voru bækur sem ég hafði beðið eftir í svolítinn tíma, og það með eftirvæntingu.
Nú er bara að demba sér í 'etta.
The Invisible Bridge (2010)
Julie Orringer er virkilega fær rithöfundur. Henni tókst að heilla mig með smásagnasafni sínu. Venjulega, fram til þessa allavega, hef ég lítið haft saman að sælda með smásögum, en ein jólin gaf Baldur mér smásagnasafn Julie, How to Breathe Underwater, og sögurnar hafa ekki slitið sig frá mér síðan. Þær fylgja mér hvert sem ég fer og minna reglulega á sig því mér verður oft hugsað til þeirra. Til dæmis núna í sumar, þegar við hjólum daglega út að tjörn til að stinga okkur út í, þá kemur ein saga úr safninu sérstaklega upp í huga mér. Að þessu leytinu minnir safnið á bók Geraldine Brooks, People of the Book, sem er uppbyggð eins og margar smásögur en þó í formi skáldsögu, og rauði þráðurinn er bókin sem tengir kynslóðir og heimssvæði. Önnur frábær bók sem er alltaf að poppa upp í huga mér, og sem ég get ekki mælt með nógsamlega.
Eníveis, þessi fyrsta skáldsaga Julie Orringer er mikil í sniðum og hún veldur öllum þráðunum vel: plottinu, persónunum, sögusviðinu, tímanum. Sögusviðið er París og Búdapest fyrir seinni heimsstyrjöld og síðan færist sagan inn í styrjöldina sjálfa. Ég nýt þess alltaf að lesa sögulegan skáldskap, og sérstaklega þegar höfundur leggur upp úr því að draga fram smáatriði sem varpa ljósi á tímann, samfélagið og sögusviðið, sem Julie einmitt gerir mjög vel. Það sem situr helst eftir hjá mér eru lýsingar á andrúmsloftinu í París rétt fyrir stríð og frásögnin af þessu kæruleysislega stúdentalífi sem Andras, aðalpersónan, lifir. Ég get alveg mælt með þessari.
Swamplandia! (2011)
Karen Russell er búin að vera á radarnum mínum í svolítinn tíma. Margir bókabloggarar hafa lofsamað fyrstu söguna hennar, St. Lucy's Home for Girls Raised by Wolves (2006), og það sama má segja um nýjustu bók hennar sem kom út fyrr á árinu, Vampires in the Lemon Grove.
En Swamplandia! er fyrstu kynni mín af Karen Russell og nú er forvitni mín vakin. Hún er flink og fær. Henni tekst að draga upp áhugaverðan heim í Flórídafenjunum þar sem við fylgjumst með Övu og fjölskyldu henna leggja allt í sölurnar til að halda uppi fjölskyldurekna krókódílabúgarðinum/skemmtigarðinum.
Það er margt vel gert í þessari smíð. Kareni tókst að vekja áhuga minn (þarf reyndar ekki svo mikið til, en vott evv), vekja forvitni mína og gera mig spennta að sjá málin leyst á einn eða annan veg. Þeir kaflar, sem að mínu mati draga úr lestraránægjunni, eru kaflarnir þar sem við fylgjumst með ævintýrum bróður Övu. Hins vegar voru ævintýri systur hennar miklu áhugaverðari og þau knúðu í raun söguna áfram.
Það er margt vel gert upp á að ná ákveðinni stemmningu í frásögnina og Karen kryddar söguna með mörgum skemmtilegum lýsingum og pælingum um heiminn sem koma úr hugarfylgsni Övu. En það er einnig ýmsu ábótavant þegar kemur að því að halda góðu frásagnarflæði. Það gengur ekki að maður spóli í gegnum suma kaflana en komist varla fram úr öðrum fyrir leiðindum. Engu að síður, fyrir aðdáendur fantasíu til dæmis, ætti Swamplandia! að vera skemmtileg lesning.
Life After Life (2013)
Eins og kom fram í síðasta helgarannáli þá lá ég allan þarsíðasta laugardag og las nýjustu bók Kate Atkinson. Flatmagaði á teppi, kúrði upp í sófa (undir teppi). Kate Atkinson er breskur rithöfundur og mér finnst hún alveg frábær. Ég náði einmitt þeim merka áfanga fyrr á árinu að lesa allar bækurnar sem hún hefur gefið út, meira að segja smásagnasafnið hennar, og var búin að bíða spennt eftir þessari nýjustu.
Af fyrri bókum hennar er ég sérstaklega hrifin af Behind the Scenes at the Museum og Human Croquet. Kate Atkinson hefur einnig skrifað glæpasögur um einkaspæjarann Jackson Brodie, sem eru skemmtilega öðruvísi en aðrar glæpasögur. Ég sá sex þátta BBC seríuna fyrir nokkru, sem tekur á fyrstu þremur bókunum úr seríunni og kallast einfaldlega Case Histories. Sögusviðið er Edinborg og karakterarnir eru hver öðrum sérvitrari. Frábært sjónvarpsefni.
En í Life After Life tekst Kate Atkinson á við stórar hugmyndir, eða kannski bara eina hugmynd: Tækifæri. Tækifæri til að gera aftur betur. Aðalsöguhetjan, Ursula, fæðist að morgni árið 1910 en deyr strax á fyrstu augnablikunum. Hún endurfæðist strax inn í sömu fjölskyldu og deyr sem smábarn. Endurfæðist strax inn í sömu aðstæður og deyr fljótlega aftur, en aðeins eldri í þetta sinn. Í hver skipti tekst henni, þó ekki alltaf í fyrstu tilraun, að komast hjá hverju því sem veldur því að hún deyr í hverjum aðstæðum fyrir sig. Ef þetta hljómar ótrúverðugt eða eitthvað í ætt við vísindaskáldskap þá er það klaufalegum úrdrætti mínum um að kenna, og þar með alfarið á mína ábyrgð, því það er ekkert klaufalegt við þessa sögu sem Kate Atkinson hefur sent frá sér.
Ég hlustaði á viðtal við hana um daginn og þá var hún spurð út í hvort Ursula væri sér á einhverjum tímapunkti meðvituð um örlög sín, þ.e. að hún fæddist alltaf aftur og aftur og fengi því ótakmörkuð tækifæri til að rétta það sem úr skorðum fór síðast. Kate sagðist ekki hafa viljað skrifa neitt afdráttarlaust"aha!" móment inn í söguna, og vildi frekar að Ursulu grunaði hvernig í málunum lægi. Ég vil ganga enn lengra og segja að Ursulu grunar aldrei hvernig í pottinn er búið, heldur öðlast hún innsæi og það brýst út sem jákvæð eða neikvæð tilfinning í tilteknum aðstæðum, sem hún stundum tekur mark á (og stundum ekki: ó nei, nú deyr hún aftur!).
Að sjálfsögðu er þetta viðfangsefni mjög heimspekilegt. Life After Life minnir mjög á eina af mínum uppáhaldskvikmyndum, Groundhog Day, sem er líka mjög heimspekileg og mjög svo af sama toga, þ.e. aðalpersónan fær ótakmörkuð tækifæri til að upplifa saman daginn og bæta það sem betur má fara. Endurfæðing og karma, búddismi og hindúismi.
Ég ætla hins vegar ekki að fara dýpra í þessa umfjöllun því ég þarf að komast úr sporunum. En læt þessi lokaorð fljóta með: Virkilega frábær bók! Kate Atkinson hefur frábært vald á viðfangsefninu, henni tekst að tækla þessa flóknu hugmynd svo vel og hún útfærir hana snilldarlega. Engar endurtekningar, alltaf fersk og ný efnistök í hverjum kafla þrátt fyrir að plottið bjóði auðveldlega upp á sífelldar endurtekningar. Mæli með'enni!
And the Mountains Echoed (2013)
Khaled Hosseini er virkilega snjall rithöfundur. Hann er svo snjall að ég las seinni partinn af Flugdrekahlauparanum upphátt fyrir Baldur (þá var hann með Delhi belly á ströndinni í Goa), og síðan, þegar við vorum stödd í Kuala Lumpur á þeim tíma þegar önnur bók hans kom út, arkaði ég inn í næstu bókabúð, keypti og las Þúsund bjartar sólir á einu bretti, fyrst í einrúmi og síðan upphátt fyrir Baldur. Hann bara varð að heyra þessa sögu.
Líklega hef ég gert mér of miklar væntingar því ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með þessa nýjustu bók Khaleds. Hann er náttúrulega alltaf flinkur höfundur og maður rekst ekki á nein byrjendamistök. Allt er vel slípað og pússað. Og ég held ekki að form sögunnar hafi verið að truflað mig. Hann segir sögur nokkurra persóna sem tengjast mismiklum böndum. Við fylgjumst með dóttur sjá um aldraðan föður sinn í Kalíforníu, við fylgjumst með eldri manni í Kabul og einkaþjón hans, við kíkjum á lífið á lítilli, grískri eyju og svo fáum við að upplifa París. Khaled vefur þessar sögur saman afskaplega vel, og hver þeirra varpar ljósi á fortíð eða framtíð persóna í hinum sögunum. Það krefst geysilegrar færni af hálfu höfundar að takast svona vel upp við flókinn vefnað.
Hvar koma þá vonbrigðin inní? Fyrir mér voru það persónurnar. Ég small eiginlega ekki saman við neina þeirra. Mér þóttu þær ýmist óáhugaverðar, of veiklundaðar, of illkvittnir... Það má í raun segja að þær persónur sem vöktu mestan áhuga hjá mér hafi verið aukapersónurnar. Mig langaði að heyra meira af þeim. Og mig langaði í rauninni, ef ég á að vera alveg hreinskilin, að lesa meira um Afganistan. Líkast til hefur mig langað í Flugdrekahlauparann II eða Þúsund bjargar sólir II. Önnur vonbrigði sem ég get talið til: Í mínum huga liggur einn af aðalstyrkleikum Khaleds í kraftmiklum, hrífandi og frumlegum myndlíkingum, og þeirra saknaði ég í And the Mountains Echoed.
Það virkar á mig eins og Khaled sé að reyna eitthvað nýtt með þessari sögu, hugsanlega er hann að ögra sjálfum sér sem rithöfundi. Mér finnst sem ég sjái það í stílnum, uppbyggingunni og umfjöllunarefninu. Hins vegar finnst mér hann reyna of mikið að gera eitthvað nýtt á kostnað þess að láta frá sér frábæra sögu. En jafnvel þegar hann veldur mér svolitlum vonbrigðum þá er Khaled samt sagnameistari. Ef maður er aðdáandi verka hans þá les maður þessa bók. Og ég fæ ekki betur séð en að meirihluti lesenda sé hæstánægður með nýju bókina, og það gleður mig því ég get ekki áætlað hve stór hluti vonbrigðanna liggur á miklum væntingum. Ætli ég lesi þessa bók ekki aftur einn daginn og taki stöðuna.
The Yonahlossee Riding Camp for Girl (2013)
Hér er önnur söguleg skáldsaga á ferðinni. Höfundurinn er Anton DiSclafani og ef þú ert eins og ég og dregur þá ályktun að höfundurinn sé karlkyns, þá hefurðu rangt fyrir þér. Það er hún Anton sem skrifaði þessa sögu, og það var ágætt að ég komst að því í tæka tíð, svo ég héldi ekki áfram að hugsa: hann veit augljóslega ekkert um táningsstúlkur...
En þetta hljómar eins og ég hafi ekki verið hrifin af sögunni. Sem er ekki allskostar rétt. Ég hakkaði hana í mig og tókst samt að staldra við og anda að mér andrúminu og öllum smáatriðunum. Það var einmitt í ýmsum smáatriðum sem mér fannst henni Anton takast svo vel upp. Það voru hugleiðingar, vangaveltur og athuganir varðandi heiminn og umhverfið sem vöktu hjá mér ýmist sterkar tilfinningar, aðdáun eða aha!
Antoni tekst vel að skapa stemmningu og andrúmsloft, sem er alltaf stór plús í mínum kladda. En það er sögusviðið sem heillaði mig mest í þessari sögu: heimavistarskóli/knapaskóli fyrir stúlkur í Blue Ridge fjöllum Kentucky 1930. Kentucky er ekki sögusvið sem ég rekst oft á í skáldsögum og hvað þá reiðknapaskóli fyrir stúlkur í heimavist. Við fylgjumst með drama í lífi unglingsstúlkna og þeim áskorunum sem þær standa frammi fyrir á þessum stað og þessum tíma. Það eru nokkrar lýsingar á útreiðatúrum, sem ég hef allra jafna ekki áhuga á, en höfundi tekst mjög vel að koma þeim lýsingum frá sér og passar upp á að þær eigi heima í sögunni. Mæli ég með henni? Why, yes!
The Light Between Oceans (2012)
Það er skemmtileg saga á bak við það hvernig þessi bók komst á radarinn minn. Í fyrrahaust var ég að fylgja leiðbeiningum frá góðkunningja mínum honum Randy Ingermanson um hvernig maður skrifar skáldsögu (the snowflake method). Eitt af fyrstu skrefunum er að fara inn á The New York Times og skoða metsölulistann þeirra, nánar tiltekið lesa og tileinka sér þessar hnitmiðuðu einnar setningar lýsingar á sögunni. Þar rak ég augun í titil sem hreif mig strax (The Light Between Oceans) og hnitmiðaði úrdrátturinn gerði einmitt það sem honum er ætlað: vekja áhuga minn. Ég er því búin að bíða spennt eftir þessari bók síðan í september í fyrra.
Loksins þegar ég komst í að lesa bókina ætlaði ég ekki að geta slitið mig frá sögunni. Og það er mjög skiljanlegt: heillandi sögusvið og sögutími, áhugaverð vandamál sem persónurnar kljást við, vandaður prósi... Sögusviðið er Ástralía eftir fyrri heimsstyrjöld. Við fylgjumst með aðalpersónunum, Tom og Isabel, kynnast, verða ástfangin og giftast. Tom vinnur sem vitavörður og Isabel flytur til hans út á mjög svo afskekkta eyju þar sem einu samskipti þeirra við umheimin koma í formi vistabáts og tveggja sjóara sem sigla vistunum út til þeirra. Einn daginn rekur upp í fjöruna árabát og í bátnum er látinn maður og grátandi ungbarn.
Ég gef ekki meira uppi um framvinduna, en þaðan sem þessari lýsingu sleppir tekur við áhugaverð saga um afleiðingar gjörða manns. Þetta hljómar sem ansi þung og alvarleg saga, svo til að taka af allan vafa vind ég mér beint í hrósið. Mér finnst þessi bók afspyrnuvel skrifuð. Hér er enn og aftur á ferðinni höfundur (M.L. Stedman) sem er frábærlega fær í að draga fram stemmningu og blása lífi í löngu liðinn tíma. Þá er hún einnig mjög flink í að skapa persónur og gefa þeim áhugaverð verkefni/vandamál í sögunni. Þegar ég las bókina hugsaði ég oft: þetta er allt svo meitlað og fínpússað. Hér hefur verið legið yfir hverri setningu og hverju orði og allt auka og umfram fjarlægt.
Plottið, persónurnar, sögusviðið, vandamálin sem persónur þurfa að kljást við: allt er gert af mikilli natni og umhugsun. Hér eru engin vonbrigði á ferðinni, heldur margra mánaða tilhlökkun sem síðan blómstraði í algjöra gleði við að lesa söguna. Ég get ekki nógsamlega mælt með þessari sögu, jafn fyrir þá sem njóta að lesa sögur plottsins vegna sem og fyrir þá sem njóta stíls og góðs handbragðs höfundar.
Og með þessum orðum slaufa ég þessu fyrsta Bókarabbi. Ég sé fram á nokkurn bókalestur næsta mánuð svo kannski sjáumst við aftur í lok ágúst!
föstudagur, 26. júlí 2013
Pizza rossa
Það er föstudagur, svo það er kominn tími á skemmtilega uppskrift! Og hvað er meira viðeigandi á föstudegi en uppskrift að ekta ítalskri pizzu?
Síðasta vetur á Snorrabrautinni fórum við Baldur reglulega til félaga okkar á Devitos og fengum okkur þar iðulega margarítu sem er að mínu mati sú besta í bænum. Hér í Skien, aftur á móti, er enginn Devitos. Það er reyndar pizzastaður hér nálægt, í Gulset Sentret, en okkur langar ekki alveg svo mikið í pizzu að við tímum að borga hvítuna úr öðru auganu fyrir.
Síðasta vetur á Snorrabrautinni fórum við Baldur reglulega til félaga okkar á Devitos og fengum okkur þar iðulega margarítu sem er að mínu mati sú besta í bænum. Hér í Skien, aftur á móti, er enginn Devitos. Það er reyndar pizzastaður hér nálægt, í Gulset Sentret, en okkur langar ekki alveg svo mikið í pizzu að við tímum að borga hvítuna úr öðru auganu fyrir.
Hvað gera bændur þá? Jú, þeir gúggla! Enginn verður óbarinn biskur/páfi?, og enginn fær ekta, ítalska pizzu á borð til sín nema með smá framkvæmdarvilja.
Þessa uppskrift fann ég þegar ég gúgglaði italian pizza recipe og datt þá inn á síðuna Walks of Italy. Sú sem setur út uppskriftina er sögð deila með okkur sinni eigin ekta ítölsku, margreyndu og áreiðanlegu pizzauppskrift. Ég ákvað að slá til og nú get ég sagt að þetta var vinnunnar og biðarinnar virði.
Biðarinnar? Já, deigið þarf að hefast í að minnsta kosti 5 tíma. Svo langi mann í flatböku í kvöldmat er best að byrja bara í dögun að hræra í og hnoða. En það er algjörlega þess virði.
Þessi uppskrift dugar í tvær þunnbotna pizzur, og því er ráð að tvöfalda hana ef fleiri en tveir eða þrír eru í mat.
HVAÐ
300 ml volgt vatn
0,5 kg hveiti
13 g pressuger
3 msk ólívuolía
0,5 - 1 msk salt
1 tsk sykur
Pizzasósa
Mozzarella ostur, rifinn eða niðursneiddur
Basilíkulauf
HVERNIG
1. Leysið gerið upp í volgu vatni (38-40°C). Muna að hræra til að tryggja að gerið leysist upp.
2. Takið megnið af hveitinu og leggið á borðið, búið til gíg og hellið gervatninu í gíginn.
3. Bætið restinni af hráefnum ofan í gíginn (olía, salt, sykur).
4. Hnoðið saman í deig. Gefið ykkur alveg 10-15 mín. Mikilvægt að halda undirlaginu hveitistráðu. Þegar deigið er orðið vel teygjanlegt hefur það verið nægilega vel hnoðað.
5. Smyrjið skál með olíu, leggið deigið í. Penslið yfirborð deigsins létt með olíu.
6. Hyljið skálina með viskustykki og leggið til hliðar þar sem enginn er gegnumtrekkurinn. Leyfið að hefast í að minnsta kosti 5 tíma.
7. Fyrir þá sem vilja fylgja ítölsku hefðinni skal skorinn kross í deigið áður en það er lagt til hliðar. Þannig blessa Ítalirnir brauðið sem bakast mun úr deiginu.
8. Þegar 5 tímar eru liðnir er ráð að hita ofninn upp í 200°C.
9. Skellið deiginu á hveitistráð borð og sláið það niður (lemjið það og berjið) til að losna við megnið af loftbólunum.
10. Skiptið deiginu í tvennt og leyfið því að standa í nokkrar mín. áður en lengra er haldið.
11. Rúllið fyrst öðrum helmingnum og síðan hinum út í 30 cm hring fyrir þunnbotna pizzu (pizza bassa), nú eða út í ferhyrning eins og þeir gera líka á Ítalíu (þ.e. þegar maður kaupir pizzu eftir lengd)
12. Setjið pizzuna á bökunarpappír og síðan á bökunarplötu.
13. Þekið botninn með pizzasósu og olíuberið skorpuna. Af lit sósunnar dregur pizzan nafn sitt: Pizza rossa.
14. Bakið botninn í u.þ.b. 10 mín. Botninn mun púffast aðeins upp eins og sjá má á myndunum hjá mér.
15. Takið botninn út og bætið rifinni eða sneiddri mozarellu ofan á.
16. Inní ofn og bakið áfram þar til skorpan er orðin brún + osturinn bráðinn.
Til að ná fram enn sterkari ítölskum svip á pizzuna má leggja nokkur basilíku lauf ofan á.
Bragðlaukar, velkomnir til Ítalíu! Buon appetito a tutti!
Bragðlaukar, velkomnir til Ítalíu! Buon appetito a tutti!
miðvikudagur, 24. júlí 2013
Lemon bars
Hér kemur önnur uppskrift frá Mountain Mama Cooks. Lemon bars, eða sítrónubitar. Ég hafði aldrei smakkað álíka sætindi og þar sem ég var í stuði fyrir sítrónusætindi fannst mér upplagt að prófa þessa uppskrift. Ég get ekki beðið, ég verð að segja frá því strax: Þessir sítrónubitar eru himneskir.
Þeir komu hins vegar aðeins dekkri úr ofninum en ég hafði gert ráð fyrir. Kannski hefði verið ráð að setja álpappír yfir formið til að koma í veg fyrir það. En það virðist ekki hafa komið niður á bragðinu því, eins og ég var að enda við að segja: ólögleg sætindi.
Það eru til þúsundir af lemon bars uppskriftum á netinu og þessi er aðeins óvenjuleg fyrir þær sakir að Kelley hefur bætt kókos út í uppskriftina. Næst ætla ég að prófa hefðbundnari uppskrift að lemon bars, þ.e. sans noix de coco. Þá gæti líka svo farið að ég fengi heiðgula sítrónubita út úr ofninu, og þá yrði þessi bakari/ljósmyndari afar ánægður.
Látum nú hendur standa fram úr ermum!
HVAÐ
Í botninn fer:
2 bollar hveiti
0,5 bolli sykur
0,5 tsk salt
1 bolli ristaður kókos
250 g kælt smjör, skorið í teninga
Í fyllinguna fer:
1,5 bolli sykur
4 egg
3 msk sítrónubörkur
0,5 bolli sítrónusafi, rifinn fínt
2 tsk hveiti (já, 2 teskeiðar)
1 tsk lyftiduft
1/8 tsk salt
HVERNIG
Til að útbúa botninn:
1. Hitið ofninn upp í 175°C.
2. Ristið kókosinn, ýmist í ofni eða á pönnu (mér finnst pannan betri upp á að hafa betur auga með ristuninni). Leyfið að kólna aðeins.
3. Rífið sítrónubörkinn.*
4. Smyrjið 23x23 sm form.
5. Setjið hveiti, sykur, salt og kókos í matvinnsluvél** og pölsið (pulse-takkinn). Bætið við smjöri og pölsið þangað til deigið byrjar að klumpast saman.
6. Þjappið deiginu ofan í form og bakið fyrir miðjum ofni í 25 mín.
Til að útbúa fyllinguna:
1. Sykur, egg, sítrónubörkur, sítrónusafi, hveiti, lyftiduft og salt saman í matvinnsluvél**.
2. Blandið saman á hægum snúningi.
3. Hellið fyllingunni yfir botninn og bakið áfram í 25-30 mín.
Kælið og skreytið með flórsykri. Skerið niður í ferninga, leggið einn bita á fallegan disk, setjist pent til borðs, leyfið augunum að taka inn fegurðina (bíðið!) og svo... njótið afraksturs erfiðisins.
* Best fer á að nota mjög fínlegt rifjárn þegar rífa á sítrónubörk. Ennfremur er mikilvægt að rispa aðeins ysta lagið af sítrónuberkinu, þ.e. gulasta lagið, og láta það hvíta undir alveg eiga sig. Þannig nær maður fram mestu sítrónubragði og sleppur við beiska bragðið sem kemur af pektíninu.
** Ef engin er matvinnsluvélin á heimilinu má hæglega notast við hendurnar og kremja smjörið milli lófanna þangað til það hefur gengið vel saman við sykurinn og hveitið. Fyrir fyllinguna má að sjálfsögðu notast við hrærivél í stað matvinnsluvélar.
mánudagur, 22. júlí 2013
Helgarpistillinn
Þá er enn ein helgin að baki þetta sumarið. Ég hef tekið eftir því að ég tel helgarnar á sumrin, tikk-takk, ólíkt því sem ég geri á veturna, og ég sé á eftir hverri og einni...
Þessari helgi var varið úti í yndislegu sumrinu við að borða sumarsalat, baða okkur í tjörninni, flatmaga með kindle-inn úti á teppi, leyfa grasinu að kitla tærnar, borða ís...
Við erum farin að venja komur okkar til Åletjern nánast upp á hvern einasta dag, og nú er svo komið að okkur finnst við ekki almennilega hrein og böðuð nema við höfum stungið okkur útí með hinum öndunum. Alla síðustu viku beið ég spennt eftir því að Baldur kæmi heim úr vinnunni svo við gætum smellt okkur í baðfötin, tekið fram hjólin og hjólað í sumarylnum út að tjörn. Og við erum svo sannarlega ekki eina fólkið sem er að baða sig þar fram eftir kvöldi. Mig er aðeins farið að langa í nightswimming, ætti maður að hætta sér?
Ég útbjó þriggja bauna salat handa okkur um helgina, sem ég sneiddi rauða tómata út á. Pipraði vel. Lá síðan alla helgina og las. Fyrst las ég bókina Life After Life sem kom út fyrr á árinu og er eftir breska rithöfundinn Kate Atkinson. Æði. Síðan byrjaði ég á bókinni The Light Between Oceans eftir M.L. Stedman. Vá. Rosaleg. Þvílíkt vald á viðfangsefninu.
Ísbíllinn kom á sunnudaginn! Röbbuðum við bílstjórann/sölumanninn sem fræddi okkur á því að það er Íslendingur í Drammen sem gerir út þennan og að ég held fleiri ísbíla sem síðan rúnta um bæi eins og Skien. Ísbíllinn rúllar eftir götunum og spilar lagstúf sem einna helst minnir á lagstúfinn úr Klaufabárðunum (kannski að einhver þekki þá sem Vitlausu karlana). Við keyptum okkur mangó-rjómaís og hann var kærkomin viðbót í sumarið.
En, stóra spurningin er: þessa vikuna, blir det nightswimming?
föstudagur, 19. júlí 2013
Sumar & salsa!
Það er föstudagur, og þá er kominn tími á góða uppskrift!
Ég var búin að lofa að deila með ykkur uppskriftinni að sölsu sem ég útbjó síðustu helgi, og nú læt ég verða að því. Uppskriftin er frá Kelley sem heldur úti síðunni Mountain Mama Cooks.
Áður en við hefjumst handa þá er vert að geta þess að salsan er ansi þunn og því ekki lík að áferð þeirri sölsu sem maður fær venjulega úr krukku. Ef maður vill chunky sölsu þá er ráð að halda eftir einhverju af niðursoðnu tómötunum og bæta þeim útí eftir á svo þeir hakkist ekki í mauk.
En hvað sem áferð líður þá er þessi salsa mjög bragðgóð og við hökkuðum hana í okkur með einföldum nachos. Ég notaði afganginn síðan í salsalasanja og það kom mjög vel út. Hér er salsa frekar dýr út í búð og því gæti verið ákveðið hagræði í því að búa alltaf til sína eigin sölsu. Við sjáum til...
Dembum okkur í'etta!
HVAÐ
425 g hakkaðir tómatar
285 g hakkaðir tómatar með chilli
1/2 laukur, gróft saxaður
1 hvítlauksgeiri, marinn
1/2 - 1 jalapeño, með eða án fræja (ég notaði jalapeño úr krukku og áætlaði hvað þyrfti margar sneiðar til að ná upp í hálfan jalapeño)
1 tsk hunang
1/2 tsk salt
1/4 tsk malað cumin
góð handfylli af kóríander
safi af einu lime
1 tsk hunang
1/2 tsk salt
1/4 tsk malað cumin
góð handfylli af kóríander
safi af einu lime
HVERNIG
Skellið öllu hráefninu í matvinnsluvél, notið pulse takkann í 30 sekúndur. Smakkið til. Reddí!
Takið fram nachos, setjist út í garð eða í sófann og njótið. Mmmm...
Skellið öllu hráefninu í matvinnsluvél, notið pulse takkann í 30 sekúndur. Smakkið til. Reddí!
Takið fram nachos, setjist út í garð eða í sófann og njótið. Mmmm...
miðvikudagur, 17. júlí 2013
Heimalagað engiferöl
Ég er í áskrift að fréttabréfum frá Yoga International og á dögunum sendu þau bréf þar sem var m.a. að finna uppskrift að engiferöli. Ég er mjög hrifin af engiferöli, og þar sem það fæst ekki í búðinni hjá okkur ákvað ég að taka málin í mínar eigin hendur og laga mitt eigið engiferöl.
Það er ekki vandasamt að útbúa engiferöl en það tekur tíma því fyrst þarf að útbúa engifersírópið og síðan þarf að hella því í flösku og kæla. Ég fékk heilan lítra upp úr krafsinu og þennan lítra þynnir maður síðan út með hlutföllum sem falla að eigin smekk.
Hér kemur uppskriftin.
HVAÐ
Hálfur bolli af rifnu engiferi
1 bolli reyrsykur
4 bollar vatn
HVERNIG
Skellið öllu hráefninu í pott og náið upp suðu. Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið malla í 10 mínútur. Takið til hliðar, kælið og hellið í gegnum sigti til að síja frá tægjur.
Hellið sírópi í glas (t.d. 1:3), bætið við sódavatni, klökum og lime sneiðum ef vill.
Geymið engifersírópið í ísskáp. Athugið að bragðið styrkist dag frá degi.
Skál!
mánudagur, 15. júlí 2013
Helgin 1-2-3-4
Hér er helgarannáll í stiklum:
1 - BERJASUMAR! Ég segi það einu sinni enn: Þetta er algjört berjasumar! Það skýrir mögulega af hverju ég næ þessum brandara ekki úr hausnum: Hefurðu séð sól berja sultu? Og þar sem það er heitt sumar, þá er þessi ekki langt undan: Hefurðu séð ís í boxi? (sem kallar á næsta brandara: Hefurðu séð kú reka stígvél?) Eníveis, morgunmatur úti á svölum þessa helgina, eða kannski ætti ég að segja í sólstofunni: Jarðarber, bláber, banani, múslí, kefir, hunang, gott start í hvaða dag sem er.
2 - ENGIFERÖL! Sem ég bruggaði sjálf, takk fyrir. Alveg eitursterkt, en það er afskaplega gott að þynna það út með köldu sódavatni og klökum. Uppskrift á leiðinni.
3 - SALSA! Ég var einu sem oftar að gramsa á áhugaverðir matreiðslusíðu og rakst á einfalda uppskrift að sölsu. Skellti í hana um helgina og svo gæddum við skötuhjú okkur á henni með söltuðum nachos. Það er lífið! Uppskrift innan tíðar.
4 - LEMON BARS! Já, þessi helgi var eitt risatilrauneldhús. Mig langaði svo að prófa að búa til sítrónubarra svo ég dreif mig bara í því. Þeir komu svolítið dökkir að ofan úr ofninum en bragðið!... Mæ ó mæ, þeir eru æði! Uppskrift ekki langt undan.
Semsé, ég vaknaði á laugardaginn þrælspennt því ég var búin að plana dag í eldhúsinu, og mér finnst þessa dagana fátt skemmtilegra en að prófa mig áfram í eldhúsinu. Flysjaði engifer, reif niður sítrónubörk, sigtaði hveiti, sauð sykur í vatni, reif niður ferskan kóríander... þetta er bara sýnishorn af öllum handtökum laugardagsins.
Við kíktum líka út. Það hefur verið svo heitt undanfarið að maður hættir sér nánast ekki út fyrr en seinnipartinn þegar sólin er aðeins farin að gefa eftir. Ég vona bara að þessi bongóblíða haldi áfram. Gefur mér kjörið tækifæri til að klæðast nýju stuttbuxunum.
Hér er síðan mjög áhugavert TED talk sem Baldur sendi mér fyrir helgi. Ég horfði á það og deildi því á fésið, deili því hér líka svo það sé geymt á vísum stað.
sunnudagur, 14. júlí 2013
Aloo ka parantha
Á þessu tiltekna matreiðslunámskeiði lærðum við að útbúa malai kofta (vá, hvað sá réttu er himneskur!), mynturaitu og aloo ka parantha. Aloo ka parantha, eða bara parantha eins og þessi fylltu flatbrauð kallast í norður Indlandi, er einfaldlega chapatti brauð (hið daglega brauð Indverja) fyllt með soðnum kartöflum (aloo), rauðlauk (pyaaz) og góðum kryddum (masala), sem síðan er steikt á pönnu. Þetta er algengur morgunmatur, sem ég veit að okkur þykir sérkennilegt - kryddaður matur í morgunmat?! - en þessi flatbrauð eru alveg mergjaðslega góð! Líka á morgnana!
Og af því ég er hvort í senn áhugasöm um matreiðslu og ljósmyndun og svo sæt í mér þá set ég þessa uppskrift út fyrir þau ykkar sem langar að prófa að fá Indland beint á bragðlaukana. Ef maður kemst ekki til Indlands þá getur maður allavega fengið Indland heim til sín.
Hér að neðan er síðan myndband sem ég klippti saman frá matreiðslunámskeiðinu. Þar má sjá ferlið við að útbúa deigið og hvernig það er fyllt með kartöflustöppunni. Ég get erfiðlega lýst með orðum hvernig maður ber sig best að og því mæli ég eindregið með að kíkja á myndbandið til að sjá hvernig maður fer að því að hnoða í deigið og rúlla því út. Handbragð, handbragð, handbragð!
Ok, búum til aloo ka parantha!
HVAÐ
200 g hveiti
Smá vatn
3 kartöflur, soðnar og skrældar
1/4 - 1/2 úr rauðlauk, saxaður smátt (magn eftir smekk)
1/2 tsk cumin fræ
1/2 tsk garam masala
örlítið af chili
1 tsk fenugreek lauf (ég sleppti þessu því ég átti þetta ekki til)
1/2 tsk salt
1/2 tsk carom seed (ég sleppti þessu því ég átti þetta ekki til)
HVERNIG
Stappið kartöflurnar vel saman og blandið smátt skornum lauknum saman við. Bætið kryddi og salti saman við og hrærið vel. Leggið til hliðar.
Setjið hveitið í þægilega skál, hellið smá vatni saman við. Byrjið að hræra hveiti og vatni saman með höndunum. Bætið vatni við í smáum skömmtum (sjá myndbandið). Þegar hveitið og vatnið hafa gengið vel saman má byrja að hnoða deigið. Hnoðið þar til deigið hefur fengið góða þéttni. Fínn mælikvarði er að þrýsta þumlinum í deigið og ef hann skilur eftir sig dæld sem óðara byrjar að fyllast aftur upp í, hefur deigið náð góðum teygjanleika.
Næst á dagskrá er að rúlla deiginu út í ílanga rúllu og skipta henni í fjóra parta. Rúllið hverjum parti í góða kúlu. Dýfið kúlunni í hveiti og byrjið að fletja hana út milli fingranna (sjá handtök í myndbandi). Skiptið fyllingunni í fjóra parta. Fyllið því næst útflatt deigið með einum fjórðungi af katöflufyllingunni, ljúkið deiginu yfir fyllinguna og passið að þrýsta köntunum vel saman. Hér getur verið gott að væta fingurgómana í vatni til að hjálpa deiginu að límast betur saman. Ef það reynist erfitt að loka kúlunni aftur er of mikil fylling í, og þá má fjarlægja svolítið af henni til að auðvelda sér verkið.
Ok, næst er að dýfa flottu, fylltu kúlunni í deig og því næst leggja á borð, taka sér kefli í hönd og byrja að fletja út bolluna þangað til hún tekur á sig mynd flats brauðs. Ef laukurinn er of gróft skorinn rífur hann gat á yfirborð flatbrauðsins, en það gerir ekki mikinn skaða.
Steikið á létt olíuborinni pönnu við háan hita. Gott að dýfa pensli í olíu og létt bursta flatbrauðið að ofan á meðan það steikist á annarri hliðinni. Paranthan er tilbúin þegar brauðið er farið að dökkna verulega.
Þessi flatbrauð er mjög gott að borða ein og sér, finnst mér, en Indverjar borða þau oftast með jógúrt raitu, pikkluðum chili/mangó/tómat og chutney, og auðvitað brennheitu chai. Einnig góðar með smjöri!
Þessi parantha flatbrauð er einnig hægt að búa til með spínati (palak) og blómkáli (gobi).
föstudagur, 12. júlí 2013
Sumargestur
Það er sumar og sól í Skien.
Ég sit út á svölum, eða flatmaga öllu heldur á rómverska legubekknum, og vinn í tölvunni. Nýt þess að virða fyrir mér nýju desktop myndina sem ég bjó til sjálf í Inkscape. Kokeshi dúkka. Studdist við leiðbeiningar fyrir Inkscape svo hönnunin er ekki mín, en ég er ansi ánægð með útkomuna.
Hitinn á svölunum er 33 gráður og mér er of heitt jafnvel þó ég sitji bara. Þess vegna teygi ég mig reglulega í glas af sítrónuístei með miklum klökum, en þessi drykkur er nýja uppáhaldið mitt.
Annað uppáhald?
Íssamlokur! Var að skoða matarblogg og fékk hugdettu um að búa til mínar eigin íssamlokur. En svo fengust þær út í Coop. Bíð kannski aðeins með að búa til mínar eigin, er með svo margar uppskriftir í handraðanum sem mig langar að prófa.
Innan úr stofu berst röddin hans Ásgeirs Trausta. Ég skiptist á að spila hann og Jónas Sigurðsson & Lúðrasveit Þorlákshafnar. Þvílíkar plötur! Textar og tónsmíð: snilld, og ég er húkkt.
Hér kemur textinn við lagið Sumarfugl, af plötu Ásgeirs Trausta Dýrð í dauðaþögn.
Fuglinn minn úr fjarska ber
fögnuð vorsins handa mér.
Yfir höfin ægibreið
ævinlega – flýgur rétta leið.
Tyllir sér á græna grein
gott að hvíla lúin bein
ómar söngur hjartahlýr
hlusta ég á – lífsins ævintýr.
Fús ég þakka fuglinn minn
fyrir gleði-boðskapinn
þessa ljúfu tæru tóna - tóna.
Þegar haustar aftur að
af einlægni ég bið um það
að mega syngja sönginn þinn
sumargestur – litli fuglinn minn.
Fús ég þakka fuglinn minn
fyrir gleði-boðskapinn
þessa ljúfu tæru tóna - tóna.
Þú átt athvarf innst í sál
ó að ég kynni fuglamál
skyldi ég lag á lúftgítarinn prjóna.
Höf: Einar Georg Einarsson
fimmtudagur, 11. júlí 2013
Åletjern pikk nikk
Við fórum í pikk nikk í gær!
Pökkuðum saman góðu nesti sem samanstóð m.a. af vatnsmelónu, ístei með klaka og þriggja bauna salati. Tókum svo fram hjólin og ætluðum að hjóla sömu leið og við höfðum gengið um daginn. Sem hefði átt að taka svona 20 mínútur. Það tók að þessu sinni upp undir klukkutíma þar sem við margvilltumst. Trufluðum margan Norðmanninn á göngu til að biðja um leiðsögn og jafnvel tvær virðulegar eldrir frúr sem stóðu og kjöftuðu yfir limgerðið. Allir virtust benda í sitthvora áttina og gefa ólíkar leiðbeiningar, svo það kemur kannski ekki svo á óvart að ferðin tók sinn tíma.
Þegar við loksins komumst á áfangastað og höfuðum fundið okkur góða klöpp til að sitja á vorum við orðin svo soltin að við blésum strax til snarls. Og þá var öllu til tjaldað: pikk nikk teppi breitt út yfir klöppina, plastglösum stillt upp, gafflar mundaðir og viskustykkið lagt ofan á fægðan silfurbakkann (eða hvað?). Meðan við borðuðum horfðum við yfir bjartan vatnsflötinn og hlustuðum á hlátrasköll og busl frá öðrum sumargestum sem höfðu komið til að baða sig.
Við töldum okkur hafa undiðbúið okkur ansi vel en við vorum ekki viðbúin öllum óboðnu gestunum sem vildu koma upp á teppið til okkar og gramsa í öllum okkar föggum. Ég er að tala um maurana, en þeir bitu okkur bæði. Ái!
Við stungum okkur að sjálfsögðu út í sjálfa tjörnina sem var svöl og djúp með hálum, grænum steinum. Endurnar héldu sig í hæfilegri fjarlægð meðan við vorum ofan í vatninu, en þegar við vorum komin upp úr aftur og farin að henda til þeirra brauðmolum af klöppinni vildu þær endilega heilsa upp á okkur.
En ég er að gleyma því markverðasta! Við Åletjern er að finna hátt stökkbretti, á að giska fimm metra hátt, sem við gerðum okkur lítið fyrir og stukkum fram af! Það verður nú samt að fylgja sögunni, til að gæta sannsögli, að ég reif mig út á brettið á undan Baldri og ætlaði aldeilis að koma honum á óvart með því að hlaupa út plankan og svífa síðan út í vatnið. Það sem gerðist í raun var að ég hljóp út plankann og svo skransaði ég rétt áður en ég kom að enda brettisins og var bara einu skrefi frá því að herma eftir Andrési Önd og fleiri fínum fígúrum sem geta stoppaði í lofti áður en þær hrapa niður. Úff. Það tók mig langan tíma að róa æst hjartað sem bankaði duglega og var eflaust að reyna að segja: Get me out of here! Þessi stelpa ætlar að hoppa fram af!
En það hafðist eftir nokkurt hik og eftir að hafa sent Baldur á undan mér. Ég stökk!
Á bakaleiðinni heilsuðum við upp á hestana sem búa tveir innan við lága rafmagnsgirðingu inni á grænu túni. Mér sýndist þeim vera alveg jafnheitt og mér eftir daginn. En greyin fengu engan sundsprett í Åletjern og ekkert íste með klökum.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)