Seinasta daginn okkar í París fórum við í fjögurra tíma göngutúr um borginna með hópi annarra ferðamanna. Leiðsögumaðurinn okkar sýndi okkur sjarmerandi hliðargötur sem maður annars hefði ekki rambað á, benti okkur á leyniinngang að Louvre safninu og fræddi okkur um blóðugt brúðkaup úr sögu borgarinnar sem var eins og beint upp úr Game of Thrones. Og hún kenndi okkur að segja Champs Elysées sem var ansi gagnlegt.
Eftir gædaða túrinn gerðum við okkur ferð í Lúxemborgargarðinn sem mig hefur langað að sjá síðan ég las Les Misérables. Við settumst á sólbekk rétt eins og hinir gestir garðsins og sóluðum okkur í síðdegissólinni. Ég sá fyrir mér Jean Valjean og Cosette ganga arm í arm um garðinn.
Frá garðinum röltum við síðan inn í Mouffetard hverfið og þar fundum við nýja creperie á rue du Pot de Fer. Við nældum okkur í smá kvöldsnarl sem samanstóð af bragðgóðri gallette, salati og kóladrykknum Breizh cola, sem kemur frá Bretaníu. Að sjálfsögðu fengum við okkur síðan crêpe í eftirrétt.
Við kíktum því næst í kvöldsiglingu á Signu og sáum Eiffelturninn lýsast upp í náttmyrkrinu. Við enduðum kvöldið, og Parísarheimsóknina, á því að ganga um svæðið í kringum Notre Dame og hlusta á tónlistarmenn sem höfðu komið sér fyrir á Pont Notre Dame og blésu þar í saxafón og spiluðu á rafgítar.
Yndisleg Frakklandsferð í alla staði og París stendur alltaf fyrir sínu.
2 ummæli:
Langt síðan ég rakst hér inn síðast. Svaka skemmtilegar myndir Ásdís!
Takk fyrir það! Gaman að þú hafir kíkt við :) Knús á familíuna!
Skrifa ummæli