þriðjudagur, 4. júlí 2006

Grams

Síðan ég hóf störf í bæjarvinnu Kaupmannahafnar hafa verkefnin verið af ýmsum toga en síðustu daga hef ég setið á litlum sláttutraktor. Í dag var hins vegar annað uppi á tengingnum þar sem grasið er víðast hætt að vaxa og orðið að gulri sinu vegna geggjaðs hita og lítillar úrkomu.

Ég var því sendur út af örkinni með konu sem heitir Shosh og var meginverkefni dagsins hekkmorð. Ekki slæmt að hafa reynslu af slíku og geta slegið um sig með hetjusögum um baráttu við bretónska dreka.

Okkur samdi mjög vel og gekk vinnan í takt við það. Rétt fyrir tvö kallar Shosh svo í mig og segir að nú ætlum við að taka allt draslið á bílinn og koma hekkafklippunum fyrir kattarnef ásamt öðrum lífrænum úrgangi.

Eftir að hafa tæmt af pallinum lítur hún svo á mig með skelfingarsvip og segir: Úps, er þriðjudagur? Hún hafði þá ruglast þannig í ríminu að hún hélt að það væri miðvikudagur en þá hættum við hálfþrjú en ekki hálffjögur eins og á mánu- og þriðjudögum.

Hvað á maður að gera þegar það er of mikill tími til að keyra að höfuðstöðvunum en of lítill tími til að byrja á einhverju af viti? Nú auðvitað gramsa í dótinu sem liggur í járnhrúgunnu á lókal haugunum þ.á.m. hjólum.

Ekki var gramsið til einskis því á leið heim úr vinnu í dag hjóluðum við Ásdís hvort með sína körfuna aftan á hjólinu, svo nú höfum við bæði körfur að framan og aftan. Ekki slæmt ef maður fer aftur í Aldi á leið heim úr vinnu. Það borgar sig stundum að gramsa.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

nú, ég skrifaði ummæli hér en sé þau ekki. Burt með hekkið! Hekk í kekki!
Ég skrifaði:
Vanir menn...
:-)