Þar sem ég var enn ekki orðin fullfrísk í fætinum í gærkvöldi ákváðum við að leggja til hliðar öll áform um að heimsækja hið rómaða Angkor Wat. Við höfðum upphaflega hugsað okkur þrjá daga til að skoða hofin og byggingarnar en sýkingin í fætinum setti allt úr skorðum. Nú þegar þessir þrír dagar sem ætlaðir voru Angkor Wat eru liðnir verðum við að kveðja Kambódíu í bili og halda aftur til Bangkok, ekki viljum við verða of sein á stefnumótið okkar þar.
Þetta þýðir hins vegar það að við erum farin að skipuleggja aðra heimsókn til Kambódíu enda bara um dagsferð að ræða frá Bangkok. Við höfðum bæði hlakkað mjög til að heimsækja hofin í Angkor og ætlum að láta þann draum rætast. Það kemur sér í raun mjög vel að kíkja hingað aftur því rétt eins og Víetnam hefur Kambódía náð að heilla okkur með fallegu konungshöllinni, hryllilegri sögu sinni, jákvæða fólkinu, yndislegri náttúrufegurð og fáránlegum vegum :o)
Fyrir þessa fyrstu heimsókn reiknuðum við bara með tíu dögum og töldum það vera nóg. Þegar uppi er staðið finnst okkur Kambódía eiga skilið meiri tíma og við erum að gæla við að kíkja kannski á eitthvað fleira en bara Angkor næst. Ég held samt við komum til með að halda okkur rækilega á troðnu slóðinni, að þræða ótroðna slóð getur þýtt óvænt stefnumót við jarðsprengju og svoleiðis stefnumót vill maður ekki fara á.
2 ummæli:
það var nú lán í óláni að skyldir hafa fengið Harry rétt um það leyti sem þú lagðist. Ég er viss um að hann lækni þig Ásdís mín.
Segðu!
Ég hefði ekki geta valið betri tíma til að fá í löppina. Ég hefði samt eiginlega viljað sleppa við það alveg, en það er ekki á allt kosið.
Potterinn var æði, lengdi líf mitt um sjö ár :o)
Skrifa ummæli