fimmtudagur, 14. ágúst 2003

Af stífstraujuðum sængurfötum og miðnæturbakstri

Gærdagurinn gekk vonum framar og komum við öllu í verk sem á tékklistanum var og gott betur. Með gott betur á ég við að í straujárnsleiðangrinum mundum við eftir öðru apparati sem við höfum lengi ætlað að festa kaupa á, það er eggjasuðutæki.

Við keyptum sem sagt straujárn frá Philips í Heimilistækjum ásamt eggjasuðutæki frá Melissa. Þá keyptum við hvít/græn röndótt straubretti í Rúmfatalagernum og fórum með filmurnar í framköllun í Bónus. Skólataskan mín fór í viðgerð hjá skóara í Smáralind og ætlaði sá að skipta um sleðann á rennilásnum. Svo má ekki gleyma yfirdýnunni sem við sóttum í hreinsun.

Þegar heim var komið drifum við okkur í að rífa allt upp úr pakkningum sínum eins og óðir krakkar á jólum. Forgangsverk var að koma yfirdýnunni á rúmið og þegar það var búið og gert fannst okkur tilvalið að setja hreint á rúmið. Þá fannst okkur enn tilvaldara að prufukeyra straujárnið og straubrettið svo við gerðum okkur lítið fyrir og straujuðum hreinu sængurfötin. Þegar við vorum síðan búin að búa um rúmið var það svo girnilegt að mann langaði strax upp í rúm að kúra.

En dagur var ekki að kveldi kominn enn þrátt fyrir þessa ofangreindu iðjusemi. Við skutumst nebbla í sund með pater meus þar sem við syntum tilskylda 500 m. Ég fór þrjár ferðir flug og var ansi ánægð með framfarirnar á því sviði. Ég er alltaf að ná betri tökum á þessum stíl sem Baldur er alltaf að tala um :)

Við buðum síðan pabba í tebolla eftir sund til að plana helgina og þá fékk ég þá brjálæðislegu hugmynd að baka möffins. Sem ég og gerði og man ég ekki eftir að hafa bakað um miðnætti áður. Muffurnar smökkuðust mjög vel.

Á tékklista dagsins í dag er m.a. að kaupa batterí í úrin okkar beggja. Mitt hefur verið batteríslaust í nokkra mánuði en Baldurs í nokkur ár! Þá ætlum við að kíkja til Péturs afa en svo vill til að hann á afmæli í dag. Heppilegt að ég skuli hafa bakað í gær.