Hvað er hægt að segja um júlímánuð? Danir segja "varmeste juli i mands minde" og MetroXpressen hitti naglann á höfuðið með þessum ummælum: "Der har været god grund til at tørre sveden af panden i denne juli". Hver þarf gufuböðin í Laugardalnum þegar það dugir að stíga út fyrir hússins dyr í Kaupmannahöfn? Ég held ég hafi aldrei svitnað eins mikið á ævinni, það mætti halda að ég væri í æfingabúðum fyrir það sem koma skal á Indlandi.
Á meðan lærdómur skipar fyrsta sæti hjá okkur gefst lítill sem enginn tími í afþreyingu. Þannig fór ég að lesa Alkemistann hans Paulo Coelho í annað sinn og náði kannski tveimur blaðsíðum á kvöldi áður en ég lognaðist út af. Þá eru kvikmyndir of mikil tímasvarthol fyrir tímasnauða fólkið svo þær hafa ekki átt upp á pallborðið að undanförnu. Við gáfum okkur reyndar tíma til að horfa á What's Eating Gilbert Grape en hefðum betur látið það ógert.
Þrátt fyrir að vera með hausinn ofan í lærdómi leyfðum við okkur líka að hitta fólk og vera athafnasöm. Þannig kíktum við í þrítugsafmæli, tókum þátt í flutningum og túrhestuðumst aðeins í Kaupmannahöfn. Aðallega snerist lífið samt um garðyrkju og lærdóm og því eru minningar júlímánaðar bundnar við þetta tvennt. Baldur fann til að mynda körfur á hjólin okkar, mér var gefinn súkkulaðimoli og ég fékk hugmynd að inngangi að MA verkefninu - allt á vinnutíma. Þá lauk ég greiningu á rannsóknargögnum og gat farið að einbeita mér að skrifunum og þá byrjaði líka niðurtalning í skilin.
Það sem helst stendur upp úr júlímánuði er að við fengum ferðahandbækurnar í hús og fórum í kjölfarið að huga betur að Asíureisunni, við fengum splunkunýja myndavél og svo urðum við vitni að löggueltingaleik. Við hefðum betur haft nýju myndavélina á okkur þá.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli