1. desember er ekki aðeins merkisdagur í augum Íslendinga því dagurinn sá er líka alþjóðlegi alnæmisdagurinn. Í tilefni af því drifum við Ásdís okkur niður í bæ í kvöld til að taka þátt í auglýstri blysför, fjöldagöngu niður að tjörn.
Þegar við mættum á auglýstan stefnumótsstað, nokkrum mínútum of seint að vísu, var ekki að sjá nein ummerki mannfjölda né kyndlafjöld á leið niður Bankastrætið. Við strunsuðum því sem fætur toguðu niður að Tjörn og engan sáum við. Vorum meira að segja farin að halda að minnið væri eitthvað að stríða okkur.
Ekki dugði þó að gefast upp, síðasti dagskrárliður þessa dags var hugvekja í Fríkirkjunni og læddum við okkur þangað inn. Þar var þá saman kominn allur hópurinn, u.þ.b. 20 stykki. Séra Ása fríkirkjuprestur ræddi alnæmi, náungakærleik og margt fleira við söfnuðinn og inn á milli fluttu Regína Ósk og Friðrik Ómar tónlistaratriði ásamt undirleikara.
Stundin var öll hin besta en þó verð ég að hafa orð á því hve sorglegt mér þykir fámennið. Fámennt en góðmennt, jújú. Ég væri samt alveg til í að sjá a.m.k. tífaldan til þúsundfaldan þennan fjölda rölta saman, ræða saman og vekja athygli á málstaðnum saman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli