fimmtudagur, 30. nóvember 2006

Nóvemberannáll

Nóvembermánuður var afskaplega rólegur mánuður sem einkenndist af sundferðum, jóga í stofunni, göngutúrum um Kársnesið og samskiptum fram og til baka við Indland.

Þrátt fyrir að hafa tímann fyrir mér las ég engin reiðarinnar býsn. Ég las þó tvær góðar sem ég hafði mjög gaman af. Önnur var Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku sem tefldi fram dásamlega óþolandi karakterum. Hin var önnur bókin um Eragon, drekariddarann frækna. Ég hvet alla til að demba sér ofan í þá bókaröð því þá hefur maður alltaf eitthvað til að hlakka til þegar maður vaknar, haha.

Af kvikmyndum mánaðarins mæli ég helst með Walk the Line, Mýrinni og Ferðalagi keisaramörgæsarinnar. Reyndar fórum við líka að sjá heimildamyndinna Hoop dreams í Stúdentakjallaranum eitt mánudagskvöldið og höfðum verulega gaman af.

Úr daxins amstri ber hæst að ég spilaði póker í fyrsta skipti á ævinni í nóvembermánuði, heimsótti Listasafn Íslands í fyrsta sinn, fræddist um aktívisma í fyrsta sinn og sótti um visa til Indlands í fyrsta sinn. Það væri kannski rétt að tala um mánuð frumkvæðis að þessu sinni.

Engin ummæli: