laugardagur, 31. ágúst 2013

Bókarabbið: ágústbækur

Bókarabbið: ágústbækur

Þá er síðasti dagur ágústmánaðar runninn upp og ég held ég sé bara í ágætu stuði fyrir bókarabb.

Ég las einar níu skáldsögur í þessum mánuði, þar af tvær alveg rosalegar: The Ocean at the End of the Lane og The Shipping News. Að sama skapi las ég tvær bækur sem ullu mér miklum vonbrigðum og sem verða, fyrir vikið, ekki til umfjöllunar hér: The Postmistress og Outlander.

Restin fellur síðan þarna á milli, í röð sem lítur einhvern veginn svona út:

Still Life - The Cuckoo's Calling - Why Be Happy When You Could Be Normal? - The Snow Child - The Bean Trees - The Shipping News - The Ocean at the End of the Lane.

Ég ætla að taka fyrir fjórar bestu bækur mánaðarins, plús eina sem var mikið á milli tanna bókaorma fyrr í sumar.

The Ocean at the End of the Lane (2013)
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Neil Gaiman. Gaiman hefur verið á radarnum hjá mér í svolítinn tíma. Nafnið hans er sífellt að poppa upp á listum yfir höfunda sem maður verður að kynna sér og margir bókabloggarar og rithöfundar halda ekki vatni yfir skrifum hans.

Mér fannst því kominn tími á að ég kynnti mér hann. Og þar sem hann var að gefa út nýja bók í júní ákvað ég að slá tvær flugur í einu höggi: lesa mína fyrstu Gaiman bók og lesa splunkunýja bók.

Svo ég greip þessa nýjustu bók hans og ákvað að demba mér bara beint í hana.

VÁ!

Hér er á ferðinni einn flottasti stílisti sem ég hef komist í tæri við. Prósinn er alveg tær og laus við grugg, hann rennur yfir mann áreynslulaust. Og Gaiman tekst svo vel upp með þennan stíl, hann rennur svo áreynslulaust sinn farveg, að maður lætur blekkjast og hugsar með sér: svona á maður að skrifa, þetta er auðvelt og fallegt. Ha! Því er einmitt öfugt farið: geysimikil vinna að baki því að senda frá sér svona líka slípaðan, agaðan og á sama tíma töfrandi texta.

Ég verð að bara að endurtaka mig: VÁ!

Ég er semsé nýjasti áhangandi Neils Gaimans. Hann er sparsamur á orð en dregur mann inn í töfrandi og ríkulegan heim og hann segir sögur af furðuverum í furðuheimum sem ekki eru til á sama tíma og hann tekst á við það allra raunverulegasta, þ.e.a.s. hvað manneskjan stendur frammi fyrir í þessum hérna heimi, þessum heimi okkar. Var ég búin að minnast á hvað sagan er áreynslulaus? Maður liggur í uppblásnum hringnum og lætur strauminn bera sig hring eftir hring í straumlauginni á meðan sólin vermir manni. Þannig les maður þessa bók.

Það þarf engu að breyta í þessu verki. Ekkert er of, ekkert er van. Ég rakst á einn bókadóm þar sem gagnrýnandinn vildi meina að sagan væri svo góð að hún hefði vel getað verið án töfra/fantasíuelementanna. Ég get ekki setið á mér og verð að segja: Þá skildirðu bara ekki söguna góði minn. Eða varst þú kannski í fyrra lífi keisarinn sem sagðir við Mozart: Úff, of margar nótur í þessu verki maður.

Hér er ekkert of, ekkert van, bara akkúrat eins og það á að vera. Vá.

The Snow Child (2012)
Það var svolítið fyndið að lesa bók með þessum titli í heitum ágústmánuði. En kannski ætti það einmitt að vera svona: lesa sumarbækur á veturnar og fá hlýju í hjartað, og vetrarbækurnar á sumrin svo manni verði síður kalt.

Eníveis, þetta er falleg saga og vel samin. Sögusviðið er Alaska og sögutími er 1920 og uppúr. Hún segir frá hjónum, Jack og Mabel, sem ákveð að flytja úr stórborginni yfir til Alaska. Þar byggja þau sér bjálkakofa og yrkja landið við erfiðar aðstæður. Þeim hefur ekki auðnast að eignast börn, en eitt kvöldið fara þau út í snjóinn og í gamni útbúa þau snjókarl sem verður að snjóstelpu. Næsta dag er snjóstelpan horfin og spor hennar leiða út í auðnina.

Ég hef mjög gaman af sögulegum skáldskap, og þegar hann blandast saman við töfraraunsæi og heillandi sögusvið, og eins og Alaska reynist vera, þá er kominn ansi traustur grunnur að góðri sögu. Í tilviki The Snow Child bætist ofan á þennan grunn góð karaktersköpun, áhugaverð framvinda og fallegur prósi. Rithöfundinum, Eowyn Ivey, hefur tekst mjög upp hér. Mæli með þessari.

The Shipping News (1993)
The Shipping News eftir Annie Proulx er bók sem við eigum einhversstaðar í kassar, í íslenskri þýðingu. Upp á íslensku kallast hún Skipafréttir og vísar titillinn í dálkinn sem aðalsöguhetjan skrifar fyrir dagblað.

Mig hefur lengi langað til að lesa þessa bók, og fyrir því eru tvær ástæður: Í fyrsta lagi, við eigum bókina, og þar með fer hún óhjákvæmilega á listann sem skrifaður er bak við eyrað, og í öðru lagi þá er Baldur búinn að lesa hana (á undan mér!) og hefur sitt á hvað mælt með henni við mig og nuddað mér upp úr því að vera ekki búin að lesa hana.

Mikið er ég fegin að þessa bók rak á fjörur mínar. Hér er aftur á ferðinni áhugavert og sjaldgæft sögusvið í boði: Nýfundnaland. Hversu oft rekst maður á það í skáldskap? Að því sögðu, þá er best að vara við stílnum. Annie Proulx er hörkustílisti, og ég get ekki ímyndað mér annað en að maður þekki verk hennar í sjómílufjarlægð. En það sem gefur sögunni sitt sérstaka yfirbragð (magnað stílbragð) getur, að ég ímynda mér, að sama skapi fælt marga frá, því auðvitað fellur svona sterkur og sérkennilegur stíll ekki að smekk allra. Ég er til að mynda mjög fegin að hafa lesið þessa bók núna en ekki fyrir tíu árum þegar ég var mun óreyndari bókaormur, sem þó taldi sig vel lesinn.

Góðu fréttirnar fyrir mig er að ég las hana ekki þá heldur núna, og gat notið textans og sögunnar alveg í botn. Framvindan er ekki aðalaðdráttarafl þessarar sögu, því hún er tiltölulega hófleg, þ.e.a.s. ekki svo margt sem gerist fyrir utan það að í byrjun sögunnar verður aðalpersónan ekkill og einstæður tveggja barna faðir sem flyst á æskuslóðirnar með aldraðri frænku sinni.

Það eru persónurnar sem halda sögunni uppi: knúa hana áfram, róa henni yfir fjörðinn, strjúka á henni kollinn. Persónurnar í sögunni eru sérvitrar, breiskar, kostulegar, forvitnilegar, eigingjarnar, hlýjar, litríkar, eftirminnilegar. Þær eru allar frábærar á sinn hátt, og þegar persónulitrófið er orðið svona þétt þarf ekki magnað plott því hver persóna heillar mann svo að maður les bara til að heyra í þeim.

Þessari mæli ég með við sjóaða bókaorma sem þola smá ágjöf.

The Bean Trees (1988)
Hér er önnur bók sem ég hef ætlað mér að lesa í svolítinn tíma. Ég man að eina verslunarmannahelgina, hugsanlega 2009, fór ég á bókasafnið og fékk slatta af bókum að láni, m.a. The Bean Trees eftir Barböru Kingsolver. Ég byrjaði á henni en síðan drógst athygli mín eitthvert annað og ég skilaði henni á safnið ólesinni. Í staðinn er hún búin að vera á Verð að klára-listanum mínum, og ekki bara af því að ég get sýnt af mér svo fína þráhyggjutakta, heldur líka af því að ég vil lesa fleiri verk Barböru Kingsolver. Og það er út af bókinni The Poisonwood Bible. Þetta umrædda sumar las ég nefnilega The Poisonwood Bible sem er hennar þekktasta verk og hefur selst í yfir milljón eintökum. Í stuttu máli sagt þá heillaði sú saga mig alveg upp úr skónum. Ég var því meira en lítið til í að lesa The Bean Trees.

The Bean Trees er hlýleg saga. En æ, nú hljómar þetta eins og dulbúið háð sem er alls ekki hugmyndin. Sagan er karakterdrifin, og í þessari sögu er fjallað um fólk sem aðstoðar hvert annað í þessum heimi, ergo hlýleg saga. Virkilega góð saga og vel skrifuð. Við kynnumst aðalpersónunni, Taylor Greer, þegar hún er að yfirgefa heimahagana í Kentucky til að flytja til Tucson í Arozina. Á leiðinni, meðan hún rúntar þennan spöl á hikstandi bíl, tekur hún að sér munaðarlausa stúlku og sagan fjallar að sjálfsögðu um þá breytingu á lífinu, auk þess sem nýir vinir í Tucson koma með sín vandamál inn í söguna.

Góð bók sem ég get mælt með.

The Cuckoo's Calling (2013)
Ég heyrði ekkert af þessari bók fyrr en fyrir nokkrum vikum, þegar í ljós kom að nafn höfundarins, Robert Galbraith, væri dulnefni og að raunverulegur höfundur bókarinnar væri engin önnur en Harry Potter drottningin J.K. Rowling. Vá, það eru stórar fréttir, og bókablogg loguðu í skamman tíma á þessari frétt.

Ég lét tilleiðast, eftir að hafa kynnt mér innihald og nokkra dóma, að lesa bókina. Nú hef ég bara lesið Harry Potter gersemarnar hennar og þekki hana því bara í því samhengi. The Cuckoo's Calling er að sjálfsögðu ekkert í líkingu við Harry Potter, og ég tek bara ofan af fyrir þeim sem gátu giskað á út frá stíl og orðfæri að hér væri J.K. Rowling á ferðinni. Ég á ekki séns í solleiðis galdrakúnstir.

Bókin er alveg ágæt, en það er kannski best að ég taki fram að ég er frekar hörð í gagnrýni þegar glæpasögur eiga í hlut. Ég er jafnvel út í það að vera pínu ósanngjörn. Ef mér finnst höfundur á einhverjum tímapunkti fipast bogalistin þá er ég alveg: Aha! Ef ég skynja ósamræmi/misræmi eða finnst höfundur henda inn ótrúverðugri atburðarás sem ég veit að þjónar einungis þeim tilgangi að fylla upp í plottgöt, þá ranghvolfi ég augunum eins og árið sé '94.

Að þessu sögðu, þá er sagan fínasta afþreying og J.K. Rowling spinnur fínan vef með plotti og undirplotti, allt eftir formúlunni. Veikasti hlekkurinn, þegar ég lít framhjá ósveigjanlegri ósanngirni minni í garð glæpasagna, eru karakterar og sögusvið, sem hvoru tveggja var í mínum huga óáhugavert. Þá vil ég frekar Jackson Brodie hennar Kate Atkinson.

Þá er það klappað og klárt, þetta voru bækur ágústmánaðar, og nú slaufa ég þessu bókarabbinu. Góðar stundir.

föstudagur, 30. ágúst 2013

Grænmetisborgarar

Grænmetisborgari

Þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn komumst við upp á lagið með að borða grænmetisborgara. Þá gat maður keypt tilbúna borgara í Irmu sem voru ansi góðir. Sumarið 2006 vorum við ábyggilega með grænmetisborgara á matseðlinum hverja viku. Hér í Skien, aftur á móti, fást engir grænmetisborgarar út í búð. En það er ennþá sumar og sumur kalla á góða borgara. Þá verður maður bara að bretta upp ermar.

Þessa uppskrift hamraði ég saman eftir að hafa skoðað margar ólíkar uppskriftir að baunaborgurum á netinu. Ég legg mikið upp úr áferð á borgaranum, og vil að hann sé þéttur og haldi vel lögun sinni. Ég legg minna upp úr bragðinu. Í raun vil ég ekki hafa borgarann mjög bragðmikinn því hann má ekki skyggja á meðlætið, sem að mínu mati gerir góðan borgara: feitur ostur, sölt og súr gúrka, hrár laukur, tómatur, sinnepið. Þannig féll ég t.d. frá öllum uppskriftum sem kölluðu eftir kóríander eða engifer.

Í staðinn útbjó ég mjög einfalda en braðgmilda og góða borgara. Þeir halda vel formi sínu en það er samt langbest að steikja þá strax og þeir koma úr ísskápnum, þannig halda þeir best lögun sinni.

HVAÐ
400 soðnar kjúklingabaunir (ein dós)
Papríkuduft
Season all
Pipar
1 laukur, fínt saxaður
1 lítil gulrót, rifin á járni
Hálfur stilkur sellerí, rifinn á járni
1 rauður chili, saxaður
1 miðlungsstórt egg
2-3 msk raspur

HVERNIG
1. Maukið baunirnar í matvinnsluvél.
2. Bætið við kryddinu. Ég set nóg af papríkudufti til að maukið taki á sig rauðan blæ.
3. Þegar baunirnar eru vel maukaðar bætið þá útí lauknum og rifnu grænmetinu.
4. Að lokum bætið við egginu og hrærið saman við baunablönduna.
5. Skiptið deiginu í 8 hluta og mótið hvern hluta í tennisbolta.
6. Veltið hverjum bolta fyrir sig upp úr raspi.
7. Leggið boltana á bretti klætt bökunarpappír eða plastfilmu og þrýstið þeim niður með lófanum til að móta úr þeim borgara.
8. Geymið inní ísskáp í a.m.k. 1 klst.
9. Steikið í olíu á pönnu, 5-7 mín. á hvorri hlið.

Með svona góðum borgara finnst mér best að fá mér súrar gúrkur og lauk, tómat, salatblöð, sinnep og auðvitað ost. Með grænmetisborgurum fáum við okkur yfirleitt bakaða kartöflu með kotasælu, sem er algjört lostæti. Mæli með 'ví!

Grænmetisborgari
 
Grænmetisborgari
 
Grænmetis-GÓÐ-borgari

miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Skotfoss

Heimsókn til Skotfoss

Sunnudaginn síðasta fórum við í smá dagstúr. Við hjóluðum yfir í smábæinn Skotfoss sem liggur hér upp við Skien. Þetta eru rétt rúmir sex kílómetrar og þar af er löng brekka niður í mót, Gulsetringen. Síðan beygir maður til vesturs inn á Skotfossvegen og hjólar þá meðfram Meierelva.

Það er næstum hægt að lýsa landslaginu sem stórbrotnu: hægt líðandi áin á aðra höndina og skógi vaxin hlíðin á hina. Hvert sem maður lítur eru trjátoppar ofar trjátoppum, græn hæð handan hæðar. Hér er landslag ekki flatt, svo mikið er víst.

Þegar við komum að sjálfum bænum Skotfoss byrjuðum við á því að hjóla að kirkjunni, sem er ansi reisuleg. Þaðan er einnig frábært útsýni yfir Meierelva því kirkjan er reist við ánna en stendur þó ofar en sjálf áin. Við gengum hringinn í kringum kirkjuna og tókum út nágrennið. Vermdum andlitin í sólinni. Dáðumst að fallegum hurðum og glitrandi gluggum.

Næsta stopp var skipastiginn. Til að komast þangað hjólar maður fyrir ósa Meierárinnar og einmitt í beygjunni þar er glæsilegt útsýni yfir að Skotfosskirkju. Þar stöldruðum við við í vegakantinum á meðan ég tók nokkrar myndir.

Til að komast að skipastiganum héldum við áfram í suðurátt. Løveid kanallinn hleyptir smábátum í gegnum sig með aðstoð stiga sem er þannig úr garði gerður að hann er hólfaður niður og síðan ýmist fyllast eða tæmast hólfin af vatni eftir því hvort viðkomandi smábátur er á leið upp í land eða niður. Þannig geta bátarnir klifið áfram frá Þelamörk og lengra inn í land.

Þegar okkur bar að Løveid kanalnum höfðum við heppnina með okkur því í kanalnum beið bátur eftir því að sigla niður stigann. Við fylgdumst með skipastigaverðinum opna hliðin milli hólfa og sáum vatnið fossa úr efra hólfinu niður í það neðra. Þegar vatnsyfirborðið hafði jafnast út sigldi báturinn yfir í neðra hólfið. Síðan endurtók ferlið sig. Meðan báturinn beið, og bátsverjar heilsuðu upp á kunningja á bakkanum, lokaði skipastigavörðurinn efra hliðinu og opnaði það neðra og vatnið tók að fossa. Í þessum rólegheitum kleif báturinn hægt og sígandi niður Løveid kanalinn og að endingu komst hann niður að Meierevla og gat þá siglt áfram, með norska fánann blaktandi.

Á meðan við fylgdumst með bátnum í stiganum vorum við með öðru auganu að fylgjast með hvítum ketti sem var að sniglast í kringum stigann. Mjallahvítur skipastigaköttur. Hann hélt sig í grænni brekkunni rétt fyrir ofan bakkann og vildi í fyrstu ekkert við okkur tala, þrátt fyrir viðleitni Baldurs. Hvíti-Brandur lét þó að lokum tilleiðast og gaf Baldri konunglegt hnus áður en hann skokkaði í átt að skipastiganum. Það var nefnilega verið að opna neðsta hliðið og hann vildi ómögulega missa af vatnsflaumnum. Hann fór yfir litla brú og staldraði þar, horfði er að því virtist hugfanginn á fossandi vatnið.

Við köstuðum kveðju á dáleiddan Hvíta-Brand og héldum för okkar áfram. Frá kanalnum héldum við áfram í suður og römbuðum að stóru og reisulegu húsi. Nánari eftirgrennslan okkar leiddi í ljós að hér áður fyrr hýsti þessi reisulega bygging pappírsverksmiðju, en í dag er þar fornmunasala sem aðeins er opin um helgar. Það var reyndar búið að loka þegar okkur bar að garði en við kipptum okkur ekkert upp við það heldur héldum áfram og tókum nú að skima eftir notalegum bletti fyrir teppið okkar.

Við fundum hann eftir stutta leit. Við ánna er fínasti trjálundur með pikk nikk borðum, og skammt þaðan fundum við laut þar sem við breiddum út teppið og drógum fram vínberin. Síðan tók ég upp Borða, biðja, elska eftir Elizabeth Gilbert og las upphátt fyrir Baldur í sumrinu.

Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss
 
Heimsókn til Skotfoss

mánudagur, 26. ágúst 2013

Helgarpistillinn

Helgarcollage 24.-25. ágúst

Þessa helgina nutum við mikillar veðurblíðu hér í Skien. Ég notaði reyndar laugardaginn í bakstur svo veðurblíðan þann daginn fór svolítið framhjá mér, en sunnudagurinn var líka fallegur og þá fórum við út úr húsi.

Ég bakaði hvorki meira né minna en tvær sortir á laugardaginn: Pizzasnúða og Parísarbollur. Í bæði skiptin er um að ræða gerbakstur og þar með er einnig um að ræða tímafrekan bakstur. Fyrir pizzasnúðana þarf ennfremur að kokka upp sósu og leyfa henni að kólna, svo þau eru mörg handtökin. En my oh my, þeir eru hvers handtaks virði, svo ljúffengir eru þeir. Og hvað haldiði? Ég ætla að deila uppskriftinni að þessum uppáhaldssnúðum með ykkur hér á hnotskurninni einhvern tímann á næstunni. Þið eruð dekruð, hafið það hugfast.

Parísarbollurnar, aftur á móti, voru vonbrigði. Mér fannst dúlleríið í kringum þær mjög skemmtilegt: sjóða upp vanillusósu, fletja út deig, fylla hverja bollur og loka henni og velta upp úr sykri. En útkoman var óspennandi, og ég held ég hafi ekki einu sinni borðað heila bollu. Ég fyllti nokkrar með sultu þegar vanillukremið var uppurið, og þær voru bragðmeiri en þó klístraðri því sultan lak út úr bollunum í ofninum. Ég þarf ekki að prófa að baka Parísarbollur aftur, það er næsta víst.

Á sunnudaginn nutum við veðurblíðunnar með því að hjóla til Skotfoss. Þar skoðuðum við skipastigann og kirkjuna, pikk nikkuðum við ánna og lásum. Um kvöldið útbjó ég æðislega grænmetisborgara. Sú uppskrift kemur líka á hnotskurnina einhvern tímann á næstu dögum.

Góð helgi að  baki. Gleðilegan mánudag!

laugardagur, 24. ágúst 2013

Fiskitúrar

På fisketur

Að (reyna að) veiða fisk er góð skemmtun. Hér í Skien finnast fiskar sem við fáum ekki í íslenskum ám og vötnum, t.d. gedda. Geddan er afskaplega góður matfiskur en hún er svo hrikalega gráðug að hún étur ekki bara alla hina fiskana, heldur andarungana og Gísla, Eirík, Helga og ábyggilega köttinn með.

Heimamenn eru hvattir til að veiða þetta árásargjarna ljúfmeti í sem mestu magni. Hann Kjell Remi vinnufélagi minn er mikið fyrir þessa iðju og hefur sjanghæað mig með sér tvo ólíka en skemmtilega túra.

Fyrir fyrri túrinn fengum við lánaðan bíl og splæstum í rækjur í beitu og höfðum með okkur alls konar dót. Lögðum af stað síðla dags, rerum litlum báti um vatnasvæði uppi á einhverjum hólnum hér í grennd. Fór svo að við kræktum í geddu og aborra. Það var svo ekki fyrr en seint um kvöld og löngu komið niðamyrkur að við komum með aflann til byggða, skiluðum bílnum og ég rétt náði síðasta strætisvagni í átt að heimahaganum, vantaði samt 4-5 kílómetra upp á að hann gengi alla leiðina.

Ekki vildi samt betur til en svo að vagninn sem átti að klára að skila mér uppeftir svaraði ekki talstöð og var að líkindum úr umferð. Þetta leist mér illa á, með afla, stígvél og óþarflega mikið af græjum.

Að labba upp Gulset og klukkan að ganga eitt! Greinilegt var að vagnstjórinn var á sama máli því hann spurði mig hvar ég ætti heima og skutlaði mér eins nálægt og hægt var með góðu móti. Ég man nú bara ekki eftir öðrum eins liðlegheitum síðan SVK var og hét. Ég legg ekki meira á þig lagsmaður!

Seinni fiskitúrinn var nú eiginlega meira svona sólar-, hjóla- og göngutúr með veiðistangir. Við veiddum ekki neitt en hjóluðum líklega 30-40 kílómetra, gengum líklega um 5 kílómetra og klöngruðumst á marga fiskilega staði við vötn og ár. Ekkert beit á en við urðum heltanaðir, koldrullugir, rennblautir og sársvangir.

föstudagur, 23. ágúst 2013

Kjúklingabaunir og ertur í indversku karrýi

Kjúklingabaunir & ertur

Þessi uppskrift er í miklum hávegum höfð á okkar heimili. Ég er búin að útbúa þennan rétt ansi oft og alltaf kemur hann jafnvel út.

Ég myndi segja að rétturinn væri blanda af norður Indlandi og suður Indlandi. Hráefnin, eins og blómkál og tómatar, eru mjög hefðbundin norður indversk hráefni, en úr kókosmjólkinni fáum við suður indversk áhrif. Ef rétturinn væri alfarið norður indverskur væri notuð súrmjólk í stað kókosmjólkur. Og ef þetta væri alfarið suður indverskur réttur? Ja, mér dettur einna helst í hug að þá væri fiskur í stað kjúklingabauna!

Hvað sem því líður þá er þetta frábær réttur. Hann er tiltölulega einfaldur en á sama tíma sparilegur, svo hann dugar vel sem sunnudagsmatur eða þegar gestir koma í mat. Hann er skemmtilega léttur fyrir sumrin en svo er hægt að spæsa hann aðeins og þá er komin frábær vetrarkássa sem fírar upp í manni.

Þessi uppskrift kemur, eins og svo margar aðrar góðar, úr bókinni hennar Sollu, Grænn kostur Hagkaupa. Vindum okkur í uppskriftina.

HVAÐ
1 msk ólívuolía
1 laukur
1-3 hvítlauksrif (smekksatriði, ég nota alltaf meira en minna)
1 ferskur chili, rauður (annars þurrkaður chili, kannski 1/6 tsk til að byrja með)
2 sm engiferrót
2-3 msk karrýmauk (milt eða sterkt)
1 blómkálshaus, í minni kantinum
400 g soðnar kjúklingabaunir (eða ein dós)
1 dós kókosmjólk
100 g grænar sykurertur eða niðursoðnar haricote verte
2 tómatar
salt + pipar
ferskt kóríander

HVERNIG
1. Við byrjum á því að búa til paste úr lauknum, hvítlauknum, chili og engiferinu: Skerið lauk og hvítlauk gróft. Afhýðið engiferið (með skeið!) og skerið í grófa bita. Skerið og fræhreinsið chili. Setjið lauk, hvítlauk, engifer, chili og karrýmaukið í matvinnsluvél og maukið. (Ég hef reyndar alltaf notað töfrasprota í þetta verk því matvinnsluvél var lengi vel ekki til á heimilinu og enn í dag dugar töfrasprotinn betur hér en matvinnsluvélin mín.)
2. Bútið blómkálið niður í þægilega munnbita.
3. Skolið tómatana og skerið í smáa teninga.
4. Ef þið notið sykurbaunir: skolið og skerið hverja í þrennt. Ef þið notið haricote verte úr dós: látið renna af þeim í sigti.
5. Ef þið notið kjúklingabaunir úr dós: látið renna af þeim í sigti.
6. Hitið olíu á pönnu og steikið maukið í 2-5 mín., hrærið vel í á meðan.
7. Bætið núna við blómkálinu, kjúklingabaununum og kókosmjólkinni, hrærið. Náið upp suðu og látið svo eldast undir loki við meðalhita í 15 mín. Gott að ýmist hræra 2-3 sinnum eða skekja pönnuna svo kássan fari á smá hreyfingu.
8. Bætið núna sykurertunum/haricote verte og tómötum út í og eldið áfram í 10 mín. án loks.
9. Salt + pipar, smakkið ykkur til hér.
10. Klippið ferkt kóríander yfir og berið fram.

Ég ber þennan rétt iðulega fram með góðum hýðisgrjónum. Solla mælir einnig með tómat-mozzarellu-basilíkusalati og það fer mjög vel saman við þennan rétt.

Eins og ég segi alltaf: कृपया भोजन शुरू कीजियै!*

Kjúklingabaunir & ertur

* Hindi fyrir: please start eating!

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Tívolí!

Tívolí!

Síðustu helgi var tívolí í bænum. Það hefur rignt svolítið undanfarna daga, en þar sem það var heiðskírt og fallegt á laugardeginum ákváðum við að kíkja við, taka út stemmninguna og sjá hvort einhvert tækjanna togaði í okkur.

Við byrjuðum á því að taka hring í kringum svæðið þegar við komum. Tívolíið er samsett af mörgum farandvögnum sem umbreytast í litlar búðir meðan tívolíið er opið. Þarnar var mjög svo hefðbundinn tívolívarningur til sölu eins og gasblöðrur, derhúfur, bolir og glingur, en einnig aðeins óhefðbundnari varningur eins og parket og líkamsræktarkort! Við féllum ekki í neinar sölugildrur parketsölumannanna, hófum bara vísifingur á loft, skókum hann aðeins og sögðum: Neinei, við erum með parket, og gengum á brott. Það hefði líka verið svo óhagkvæmt að hjóla með langa parketfleka heim.

En við féllum alveg kylliflöt fyrir poppinu! Ekta bíópopp: gult og vel saltað! Jömmjömm. En áður en við fengum poppið í hendur keyptum við okkur nokkra miða og skelltum okkur í eitt snúningstryllitækið sem þeytir manni hátt upp í loft, aftur á bak og áfram. Ég öskraði allan tímann eins og stunginn grís og Baldur hafði mest gaman af látunum í mér.

Síðan fengum við popp og fórum í Parísarhjólið. Sáum vel yfir hæðirnar hér í kring og reyndum að sjá upp í Gulset,  hæðina sem við búum á.

Eftir þetta vorum við bæði komin með nóg af látunum í tívolíinu og tónlistinni sem var á repeat allan tímann (We Can't Stop með Miley Cyrus, anyone?). Baldur var kominn með sjóriðu og við urðum að koma við í Spar og kaupa vistir. Hjóluðum þaðan í Lundedalen, tylltum okkur á bekk víðsfjarri tívolíinu og fengum okkur baguette og kókómjólk.

Blunduðum svo í grasinu áður en við lögðum í brekkuna heim.

Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!
 
Tívolí!

mánudagur, 19. ágúst 2013

Helgarpistillin

Helgin 17.-18. ágúst

Þessa helgina:

* kíktum við í tívolí!
* fengum við alvöru popp!
* fórum við í útsýnisferð með Parísarhjólinu!
* fórum við í þeysireið í spinningstryllitæki!
* varð Baldur sjóveikur!
* pikknikkuðum við í Lundedalen!
* lögðum við okkur í grasinu í Lundedalen!
* borðuðum við eitt besta salat í heimi: marinerað grænmeti!
* eldaði ég blómkál, ertur og kjúklingabaunir í karrýi! (uppskrift kemur síðar)
* bakaði ég mína fyrstu kaffilengju úr bókinni góðu Stóru bakstursbókinni!

That's all folks!

föstudagur, 16. ágúst 2013

Tómatsúpa frá Toskana

Tómatsúpa frá Toskana
 
Þessa uppskrift rakst ég á fyrir margt löngu, vistaði og geymdi en eldaði aldrei. Síðasta sunnudag fannst mér nú kominn tími á að gera bót á því og skellti í þessa skemmtilegu tómatsúpu með brauði. Hún er æði! Hún er bragðmikil, matarmikil og flauelsmjúk. Hún er einnig einföld í matreiðslu. Plús, plús og aftur plús.

Ég man því miður ekki hvar ég fann þessa uppskrif, en það var mögulega á mbl. Uppskriftin er altént fengin frá veitingastaðnum La Primavera.

HVAÐ
1 laukur, fínt saxaður
3 hvítlauksgeirar, marðir
750 gr tómatar eða ein 500 g krukka af heilum tómötum
1 lítri soð (upprunleg uppskrift kveður á um kjúklingasoð)
Maldon salt
Pipar
250 gr brauð, skorpulaust, helst dagsgamalt
1 búnt basilíka
Ólívuolía

HVERNIG
1. Ef þið ætlið að elda úr ferskum tómötum: Afhýðið tómatana. Fjarlægið kjarna og skerið í bita. Sjálf legg ég ekki í það að afhýða tómata, ég notaði tómata úr dós og var alsæl.
2. Þurrkið brauðið í ofni í nokkrar mínútur.
3. Hitið olíu í potti og mýkið lauk í um 5 mín. án þess að brúna.
4. Bætið tómötum og hvítlauk saman við og eldið í 5 mín. til viðbótar.
5.  Hellið soðinu út í pottinn og sjóðið í 30 mín.
6. Kryddið með salti og pipar.
7. Rífið brauðið út í súpuna ásamt basilíku og látið standa í 10 mín.
8. Ausið súpunni á diska og setjið vel af ólívuolíu yfir hvern disk.
 
Frábært að bera þessa súpu fram með hinu litríka tómat-mozzarellu-basilíkusalati.

Tómatsúpa frá Toskana
 
Tómatsúpa frá Toskana

miðvikudagur, 14. ágúst 2013

Fantekjerringkollen

Fantekjerringkollen

Á göngum okkar um svæðið í kringum Åletjern þrömmum við iðulega framhjá skilti sem á stendur Fantekjerringkollen. Höfum heyrt heimamenn mæla með göngu þangað upp en ekki látið verða af því. Um daginn tókum við svo skyndiákvörðun um að drífa okkur upp.

Samkvæmt skiltinu er ekki um að ræða langa göngu. Við þrömmum. Við þrömmum meira og komum að öðru skilti sem upplýsir okkur um að við höfum gengið 300 metra. Jæja, þeir eru drjúgir kílómetrarnir hérna í hæðunum, nema mælingamaðurinn mæli bara í beinum línum.

Nú er sól farin að lækka á lofti. Við örkum áfram þessa fallegu leið, í gegnum friðsælan skóg og sjáum glitta í kvöldsólina á milli trjánna. Þá vitum við að við erum komin nálægt toppinum. Skógurinn þynnist og viti menn, við erum komin á toppinn. Við okkur blasir Þelamörk vítt og breitt eða að minnsta kosti dágóður slatti af trjám, vatni og undurfagurt sólarlag.

Þarna sitja nokkrir sem augljóslega eru í fastri áskrift að sólsetrinu á Fantekjerringkollen og einn þeirra fræðir okkur svolítið um það sem fyrir augu ber. Að auki fáum við vænan skammt af sögum um ættingja hans nokkra ættliði aftur, hvar hver hefur unnið, búið, drukknað og ýmislegt fleira sem gerist á löngum tíma.

Þetta er hugguleg stund. Svo hugguleg að við ætlum varla að hafa okkur í bakaleiðina þrátt fyrir að hver mínúta þýði meira myrkur í skóginum. Þetta hefst þó og nú höfum við klifið þennan fagra koll.

mánudagur, 12. ágúst 2013

Tómat-mozzarellu-basilíkusalat

Tómat-mozzarella-basilíkusalat
 
Hér er á ferðinni mjög frískandi og sumarlegt salat. Eldrauðir tómatar, hvít mozzarellan og græn basilíkulauf: ítalski fáninn á diski.
 
Ég hef mjög oft haft þetta einfalda salat með ítölsku grænmetissúpunni en að þessu sinni eldaði ég tómatsúpu frá Toskana og hafði þetta salat með sem var alveg dásamlegt. Uppskrift að tómatsúpunni kemur inn á næstu dögum.
 
Uppskriftin kemur úr bók Sollu, Grænum kosti Hagkaupa, en ég hef aðeins breytt hlutföllum.

Þessi uppskrift er hugsuð fyrir tvo.
 
HVAÐ
2 tómatar
1 mozzarellakúla
Hálfur rauðlaukur (ef vill)
fersk basilíka
Ólívuolía
Sítrónusafi
Salt + pipar
 
HVERNIG
Skolið og sneiðið tómatana niður í grófar sneiðar. Sneiðið mozzarellakúluna í helmingi þynnri sneiðar til að fá út tvöfalt fleiri sneiðar á við tómatsneiðarnar. Skerið rauðlaukinn í fínar sneiðar. Takið til u.þ.b. 30 fersk basilíkulauf og leggið til hliðar.
 
Takið fram tvo diska og raðið upp til skiptis mozzarellasneiðum og sneiðum úr tómötunum (einn tómatur per disk). Stingið rauðlauk og basilíkulaufunum inn á milli. Hellið yfir smá olívuolíu og sítrónusafa. Saltið og piprið.
 
Borðið með bestu lyst!
 
Tómat-mozzarella-basilíkusalat
 
Tómat-mozzarella-basilíkusalat

föstudagur, 9. ágúst 2013

Hafraklattar með pekanhnetum

Hafraklattar
 
Í hver sinn sem ég spyr Baldur hvað hann vilji að ég baki fæ ég sama svarið:

Hafraklatta.

Með rúsínum.

Mér finnast hafraklattar alveg ágætir en ég er ekki í klappstýrusveit rúsína, og hef aldrei verið. Ok, ef þær eru í múslíinu þá fá þær núna að vera þar óáreittar fyrir fingrum mínum (nema þær séu ósanngjarnar og klessi sig saman í stórar og ógnvænlegar rúsínubombum), en þær eru alveg big No! No! í bakstri. Að bíta í heita, mjúka köku til þess eins að finna fyrir rúsínu... *hrollur*. Þá byrja ég að plokka.

Við Roz Doyle erum alveg sammála þegar kemur að rúsínum: Oh, damn! Chocolate covered raisins. I'd like to meet the idiot that came up with these. Take a grape, let it shrivel into a disgusting little wart and cover it with perfectly good chocolate.

Svo ég gerði svolítið sniðugt: ég skipti deiginu í tvennt og setti hálfan bolla af rúsínum í annan helminginn (fyrir konung rúsínanna) og hálfan bolla af hvítu súkkulaði í hinn (fyrir mig).

Þetta er auðveld og þægileg uppskrift, það er kannski helst að smjörið þarf að vera við herbergishita. Svo ætli maður sér að baka strax að morgni er sniðugt að vigta og setja til hliðar að kvöldi. Uppskriftin kemur frá hinni frábærlega vandvirku Stephanie Jaworski sem heldur úti síðunni Joy of Baking.

Úr þessari uppskrift fást 20-24 klattar.

HVAÐ
170 g smjör, við herbergishita
210 g púðursykur
1 stórt egg
1 tsk vanilludropar
105 g hveiti
0,5 tsk matarsódi
0,5 tsk salt
0,5 tsk kanill
260 g valsaðir hafrar
110 g pekanhnetur, ristaðar og saxaðar
Ef vill: 1 bolli að eigin vali af t.d. dökku eða hvítu súkkulaði, rúsínum eða þurrkuðum berjum (eins og trönuberjum eða kirsuberjum)

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C og klæðið tvær bökunarplötur með bökunarpappír.
2. Ristið pekanhneturnar ýmist á pönnu eða í ofni, þar til þær eru orðnar dökkar og ilmandi. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru saxaðar.
3. Hrærið saman smjöri og sykri þar til hræran er orðin mjúk og áferðin kremuð (2-3 mín). Bætið þá við egginu og vanilludropum og hrærið vel saman.
4. Í annarri skál blandið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið hveitiblöndunni út í smjörhræruna og hrærið þar til allt hefur gengið vel saman.
5. Bætið hnetum, höfrum og súkkulaði/berjum og hrærið varlega með sleif.
6. Notið sem samsvarar fjórðungi úr bolla fyrir hvern klatta. Þeir verða stórir, svo ef þið viljið minni klatta notið þá minna af deigi en svo. Margir nota ísskeið til að móta klattana og ég mæli sjálf með því.
7. Raðið klöttunum á bökunarplötu og gætið þess að hafa gott bil á milli (5 sm). Þjappið klattana örlítið niður, svo þeir verði rúmlega sentimetri að þykkt.
8. Bakið klattana í 12-15 mín. eða þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir í köntunum.
9. Takið klattana úr ofninum og leyfið þeim að kólna í nokkrar mín. Færið þá síðan yfir á grind.

Ísköld mjólk í glas og voilà!

Hafraklattar
 
Hafraklattar
 
Hafraklattar & mjólk
 
Hafraklattar & mjólk