Í hver sinn sem ég spyr Baldur hvað hann vilji að ég baki fæ ég sama svarið:
Hafraklatta.
Með rúsínum.
Mér finnast hafraklattar alveg ágætir en ég er ekki í klappstýrusveit rúsína, og hef aldrei verið. Ok, ef þær eru í múslíinu þá fá þær núna að vera þar óáreittar fyrir fingrum mínum (nema þær séu ósanngjarnar og klessi sig saman í stórar og ógnvænlegar rúsínubombum), en þær eru alveg big No! No! í bakstri. Að bíta í heita, mjúka köku til þess eins að finna fyrir rúsínu... *hrollur*. Þá byrja ég að plokka.
Við Roz Doyle erum alveg sammála þegar kemur að rúsínum: Oh, damn! Chocolate covered raisins. I'd like to meet the idiot that came up with these. Take a grape, let it shrivel into a disgusting little wart and cover it with perfectly good chocolate.
Svo ég gerði svolítið sniðugt: ég skipti deiginu í tvennt og setti hálfan bolla af rúsínum í annan helminginn (fyrir konung rúsínanna) og hálfan bolla af hvítu súkkulaði í hinn (fyrir mig).
Þetta er auðveld og þægileg uppskrift, það er kannski helst að smjörið þarf að vera við herbergishita. Svo ætli maður sér að baka strax að morgni er sniðugt að vigta og setja til hliðar að kvöldi. Uppskriftin kemur frá hinni frábærlega vandvirku Stephanie Jaworski sem heldur úti síðunni Joy of Baking.
Úr þessari uppskrift fást 20-24 klattar.
HVAÐ
170 g smjör, við herbergishita
210 g púðursykur
1 stórt egg
1 tsk vanilludropar
105 g hveiti
0,5 tsk matarsódi
0,5 tsk salt
0,5 tsk kanill
260 g valsaðir hafrar
110 g pekanhnetur, ristaðar og saxaðar
Ef vill: 1 bolli að eigin vali af t.d. dökku eða hvítu súkkulaði, rúsínum eða þurrkuðum berjum (eins og trönuberjum eða kirsuberjum)
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C og klæðið tvær bökunarplötur með bökunarpappír.
2. Ristið pekanhneturnar ýmist á pönnu eða í ofni, þar til þær eru orðnar dökkar og ilmandi. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru saxaðar.
3. Hrærið saman smjöri og sykri þar til hræran er orðin mjúk og áferðin kremuð (2-3 mín). Bætið þá við egginu og vanilludropum og hrærið vel saman.
4. Í annarri skál blandið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið hveitiblöndunni út í smjörhræruna og hrærið þar til allt hefur gengið vel saman.
5. Bætið hnetum, höfrum og súkkulaði/berjum og hrærið varlega með sleif.
6. Notið sem samsvarar fjórðungi úr bolla fyrir hvern klatta. Þeir verða stórir, svo ef þið viljið minni klatta notið þá minna af deigi en svo. Margir nota ísskeið til að móta klattana og ég mæli sjálf með því.
7. Raðið klöttunum á bökunarplötu og gætið þess að hafa gott bil á milli (5 sm). Þjappið klattana örlítið niður, svo þeir verði rúmlega sentimetri að þykkt.
8. Bakið klattana í 12-15 mín. eða þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir í köntunum.
9. Takið klattana úr ofninum og leyfið þeim að kólna í nokkrar mín. Færið þá síðan yfir á grind.
Ísköld mjólk í glas og voilà!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli