sunnudagur, 23. desember 2001

Þorláksmessa

Í kvöld fórum við til mömmu og pabba í kvöldmat sem vant er á sunnudögum. Eftir gómsætar kræsingar fórum við á Laugaveginn þar sem ég fann afmælisgjöf númer 22 handa Snorkstelpunni. Það var múgur og margmenni í bænum og meiri múgur og enn meira margmenni sem var einmitt ástæðan fyrir þessarri bæjarferð.

Að sjálfsögðu hlaut maður að þekkja einhver andlit í tugþúsunda hópi ojújú seisei. Þarna var fólk af öllum stærðum og gerðum og meira að segja einhver kall sem var svo tötsí að hann ætlaði nú bara að reyna að fá pabba til að gefa sér einn á lúðurinn en við bara hlógum að honum. Eftir að hafa labbað upp og niður Laugaveginn og upp aftur þá fórum við og fengum okkur desert númer tvö og höfðum gaman af og ekki spillti markviss og notalegur taktur frá Bretagne og undurblíð álfarödd Alans Stivell.

Þessi Þorláksmessa var nú bara ekkert mess og engin skata hjá okkur en hins vegar fór jólabaksturinn fram á einu bretti í dag og hef ég ekki tölu á sortum úr galdraverksmiðju Snorkstelpunnar. Jæja nú fer ég í dvala enda búinn að borða barrnálagrautinn hennar mömmu.

múmínsnáði

föstudagur, 21. desember 2001

Jólafrí!!!(42)

Jæja nú er ég senn kominn í jólafrí og það er frábært. Ég hætti snemma í vinnunni í dag og heimsótti Kidda sem er í sumarfríi og fékk hjá honum smákökur sem hann hafði gert í fríinu auk þess að ég fékk að rannsaka piparkökuhús sem hann var að búa til.

Í morgun klikkuðum við mamma að sjálfsögðu ekki á súrefnisrúntinum góða en sá rúntur er svo góður að nú er það gjörsamlega nauðsynlegt að komast aðeins út á vinnudegi, slaka á og labba og að sjálfsögðu að hitta mömmu sína.

Í gær fékk ég jólagjöf frá íslenskri erfðagreiningu, tvo geisladiska. Annar diskurinn var flutningur á einhverju Bach dóti og er stórfínn en hinum var skipt fyrir DVD myndina Fierce creatures sá var með Eddu Heiðrúnu Bachman og voru skiptin ákaflega góð mér í hag en Japis í mínus. Við horfðum svo á myndina áðan og hlógum eins og brjálæðingar. Myndin var nefnilega alls ekki síðri svona aftur. EN núna er ég svo ógeðslega syfjaður að ég ætla ekki að skrifa meira.

mánudagur, 17. desember 2001

Íííhaaa!

Það fór þó aldrei svo að maður ætti ekki eina bók í jólabókaflóðinu í ár. Reyndar á ég ekkert í henni.... og þetta er kannski ekki beint partur af jólabókaflóðinu... en samt, hún kom út fyrir jólin, það dugir mér.

Þannig er mál með vexti að í febrúar í ár var dagur dagbókarinnar og Baldur tók þátt í því með því að senda inn hugrenningar sínar. Síðan voru bara nokkrir af þeim sem tóku þátt sem fengu að fara í þessa bók og Baldur minn var einn af þeim.

Við vorum búin að steingleyma því að þetta ætti að koma út í bók, það var ekki fyrr en um daginn sem við mundum eftir því þegar við fengum bréf frá Kristjáni hennar Stellu þar sem hann var að biðja okkur að ná í þessa bók fyrir sig, hann á nefnilega líka smá part í jólabókaflóðinu. Við Stella ættu sko sannarlega að vera stoltar af köllunum okkar. Á örskömmum tíma má því segja að Baldur sé orðinn bæði stórsöngvari og rithöfundur. Eftir áramót ætlar hann síðan á listmálaranámskeið og skapa eitt stykki málverk handa mér. Hvar endar þetta?

Annars er ég búin í prófunum núna, þetta er bara of gott til að vera satt. Í tilefni af því gaf Baldur mér eina afmælisgjöf, nr. 12, það var bókin eftir Isabel Allende, alveg frábært. Ég hef nú aldrei þjófstartað áður í jólabókunum, en einhvern tíma er allt fyrst.

Sem ég keyrði Miklubrautina upp í vinnu til Baldurs eftir prófið tók ég eftir því að í þessum svaka hlýindum sem leikið hafa um landið undanfarið hefur grasið orðið græn! Maður hefur upplifað snjólaus jól, ok, en grænkandi gras, það er einum of. Ég vona bara að þetta sé eitthvað ofvirkt vítamíngras sem fatti að það eigi ekki heima á jólunum þótt grænn sé einn af litum hátíðarinnar.

P.s. Baldur hringdi meðan ég var að skrifa og kom með eitt gullkorn sem honum flaug í hug. Hvað eru rasspeningar? Nú, þjórfé!

sunnudagur, 16. desember 2001

Harry Potter og viskusteinninn

Við fóru í bíó í gær að sjá jólamyndina okkar í ár, Harry Potter. Það var ferlega skemmtilegt og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Það var helst til hratt farið yfir söguna en ef myndin hefði verið ýtarlegri hefði hún orðið að fjögurra tíma sýningu að minnsta kosti. Hún er reyndar 2 og hálfur tími en maður finnur ekki fyrir því og þegar við komum heim langaði okkur helst að fara að lesa bækurnar. Hlakka til jólanna, það er víst orðinn siður hjá pabba að gefa mér eitt stykki Harry Potter í jólagjöf eða afmælisgjöf (hint hint).

Af persónunum sjálfum vorum við hrifnust af Ron Weasly, hann var þvílíkt skemmtilegur. Stelpan sem lék Hermione var líka góð. Sviðsmyndin var líka frábær, maður vildi helst búa í þessum stóra kastala, náttúrulega fyrir utan þessa drauga, Nearly headless Nick og co.

Híhíhí, Baldur er inn í þvottaherbergi að æfa raddböndin, do-re-mí... nei það er kannski svolítið ýkt, hann er að syngja Ó helga nótt og fleira í þeim dúr. Hann er nefnilega að fara að syngja á tónleikum annað kvöld með Stjörnukórnum hennar Tótu (nú lítur út fyrir að ég viti allt um kóra en það er sko langt frá því að vera satt). Ég missi víst af þeim tónleikum, ég ætla að vera heima að læra undir seinasta prófið. Hvernig meikaði ég fimm próf seinustu önn, mér er bara spur.

laugardagur, 15. desember 2001

Huggulega hælisgrænt

Jæja, þetta er allt í áttina, eitt stykki jólapróf eftir, mikið hlakka ég til þegar þessari törn líkur. Ég kláraði prófið í Mannfræði barna í dag, það var ferlega skemmtilegt að lesa undir það próf en einnig gaman að taka það. Verst hvað tíminn er alltaf stuttur, maður hefur svo miklu meira að segja.

Þrátt fyrir miklar annir í prófinu, samfelld þriggja tíma skrif, gat ég ekki annað en veitt því athygli hve allt var einstaklega grænt inn í þessari stofu, borðplöturnar voru grænar, sumir stólar voru grænir, prófarkirnar voru grænar og jafnvel rissblöðin voru græn! Ég þarf vart að taka fram að allt var þetta svona huggulega hælisgrænt.

Í prófinu skrifaði ég m.a. um barnadauða á Íslandi fyrr á öldum og kenningar sagnfræðinga um tilurð hugtaksins barndómur. Einn franskur sagnfræðingur, Ariès, vildi meina að slíkt hugtak hefði ekki verið til fyrir miðaldir og að börn hafi bara verið litlir fullorðnir. Sú kenning hafði gríðarleg áhrif á hugsunarhátt manna og velti kenningum þroskasálfræðinnar hans Piaget úr sessi að mörgu leyti.

Í ritgerðinni um barnadauðann kom ég inn á ástæður hans en þær voru m.a. fátækt, skortur á hreinlæti og sú staðreynd að íslenskar mæður gáfur börnum sínum ekki brjóst á tímabilinu 1500-1800. Ég man þegar Jónína var að segja frá þessu í bekknum, það göptu allir af undrun. Börn fengu dúsu sem samanstóð m.a. af tuggnum fiski og kjöti sem sett var í klút og þessu síðan stungið upp í börnin. Af þessum sökum fengu börnin m.a. niðurgang, þornuðu upp og dóu.

Ég man líka eftir öðru sem kom okkur á óvart. Það var í tímanum þegar við vorum að tala um brjóstagjöf og hvernig henni væri háttað í hinum ýmsu samfélögum og meðal hinna ýmsu þjóðarbrota, þá sagði Jónína okkur að karlmenn gætu líka gefið brjóst! Ja, þá duttu mér allar dauðar lýs af höfði. Við gátum varla trúað þessu en Jónína sagðist vita til um tvö tilfelli þess frá sinni vettvangsrannsókn í Afríku að faðirinn hefði gefið barni sínu brjóst.

Við vorum greinilega skeptísk á þetta því í næsta tíma kom læknir og hélt fyrirlestur og þá spurðum við hann í þaula út í þetta. Hann sagði þetta allt vera satt og vitnaði m.a. í Íslendingasögurnar, ég man ekki hverja, þar sem faðir átti að hafa gert nákvæmlega þetta.

föstudagur, 14. desember 2001

Baby marxist og mannát

Frábært, núna eru bara tvö próf eftir. Ég tók þetta blessaða próf í kenningum II í gær og mikið var þetta leiðinlegt próf. Maður komst ekki í neitt skriftarstuð af því að manni leiddust svo ritgerðaefnin. Eitt er þó gott við að taka próf hjá Svenna, hann er alltaf með eina undirbúna spurningu sem við erum búin að undirbúa heima og síðan er bara að leggja allt á minnið fyrir prófið. Að þessu sinni var spurningin svo hljóðandi:

Hversu mikið vægi hefur frjáls vilji mannsins gagnvart ytri áhrifaþáttum (líffræðilegum, vistfræðilegum, strúktúralískum) í athöfnum hans eða hennar?

Það fyndna er að við í leshópnum erum búnar að kvarta í allan vetur undan þessum frönsku heimspekingum sem við þurftum að lesa, spyrjandi okkur hvers vegna við í mannfræðinni þyrftum að leggja okkur þetta til augna, en síðan endaði þetta með því að ritgerðin samanstóð eiginlega bara af því sem Merleau-Ponty, Bourdieu og Foucault sögðu um frjálsan vilja og atbeina. Það skemmtilega við svona kenningar er að maður getur túlkað þær á sinn hátt og fær því ekki rétt eða rangt nema kennari sjái enga glóru í túlkuninni og finnist rökin léleg.

Skemmtilegast í ritgerðinni fannst mér þó að skrifa um kenningar félagsvísindamanna sem trúa á líffræðina og félagsvistfræðinganna. Líffræðin talar um að svokallað sjálfselskt gen stjórni öllum okkar athöfnum og þannig má eiginlega segja að við séum fangar í eigin líkama með engan atbeina.

Síðan eru það "brandarakallar" mannfræðinnar eins og t.d. Harris en hann er harðlínu efnishyggjumaður og telur sig líka vera marxista. Þakkir þær sem hann fær frá mannfræðinni er að vera kallaður "baby marxixt" og "vulgar materialist".

Það er kannski ástæða fyrir því, mannfræðingar eru t.d. ekkert allt of hrifnir af því hvernig hann útskýrir mannát. Hann vill nefnilega meina að menn stjórnist algjörlega af því umhverfi sem þeir lifa í og ef þeir fá ekki einhver næringarefni eða steinefni vill hann meina að það komi fram í hegðun manna. Þannig segir hann mannát vera tilkomið vegna prótein- og saltskorts manna og þess vegna brenni menn lík manna þegar þeir gefa upp öndina og éti síðan öskuna, þannig eru þeir að fá þau næringarefni sem þá skortir!

Núna er ég aftur á móti lögst yfir mannfræði barna og það er svo sannarlega skemmtilegt. Þetta er þó oft á tíðum erfið lesning, í gær var ég t.a.m. að lesa um dulsmál á Íslandi frá 1500-1900 og hvernig foreldrar förguðu börnum sínum. Síðan kom skemmtileg grein um nafngiftir á Íslandi og hvernig þeim væri háttað, það var mergjað.

Vissuð þið að t.d. að kona ein í Færeyjum var ólétt þegar átta manna áhöfn fórst einhvern tíma fyrr á öldum. Áhöfni birtist henni síðar í draumi þar sem mennirnir komu til að vitja nafns. Konan fæddi síðan stúlkubarn og var hún nefnd eftir þessum átta sjómönnum, nefnilega Ada Magnina Petra Thomasina Kristina Thomina Daniella Elisabeth.

p.s. það er komin nýr linkur hér til hægri, baggalútur kallast sú síða. Mæli eindregið með henni.

miðvikudagur, 12. desember 2001

Stælt veri fólkið!

Í kvöld var mikið heilsukvöld hjá mér. Ég og Biggi fórum að lyfta og tókum nú bara vel á því og þá sérstaklega á blessaðum bíbbanum þó svo að bakið hafi óhjákvæmilega flotið með. Eftir snarpa og góða æfingu drifum við okkur í Laugardalinn en þar er stór og góð sundlaug með pottum í kring og viti menn einn þeirra er heitur. Ég lá þar einn í mauksoðningu meðan Biggi tsjikkenaðist í potti nokkrum sem er ekki heitur pottur en kallast pottur númer þrjú.

Eftir þetta allt saman dreif ég mig heim og eldaði hrísgrjón og hrærð egg sem var borið fram með chilisósu. Það er nefnilega gott að borða hot þegar maður er slappur í hálsinum. Þannig er nefnilega farið með mig að ég er með smá hálseymsli og neyddist til að sleppa kóræfingu í gær (dem). Ég verð þá bara að hitta Jón organista á morgun og fá hjá honum nótur að fimmtán lögum og spólu með svo ég eigi auðveldara með að æfa mig. :)

þriðjudagur, 11. desember 2001

Loksins!!!!!!!!!

Við erum komin með tölvuna í gang. Ég var farin að efast um að það hefðist fyrir nýja árið, það er búið að vera endalaus smáatriði sem þurfti að redda. En núna er allt komið í gang og tölvan betri en nokkurn tíma fyrr :) Ég tók reyndar eftir því að myndirnar koma ekki upp á dagbókinni, við verðum bara að redda því hið snarasta en á meðan vona ég að þið látið ykkur hafa það.

Úff, mikið er leiðinlegt að hafa misst allan þennan tíma úr, tvær vikur næstum því sem við erum ekkert búin að skrifa. Það hefur verið nóg að gera eins og venjulega, ungarnir eru að sprengja þetta litla hamstrabúr utan af sér, kisa er farin að hlakka til jólanna en óskaplega fegin samt að snjórinn skuli vera farinn, Fríða Sól lifir í sínum tímalausa heimi, ég berst við kenningar Bourdieu, Merleau-Ponty og Foucault og Baldur er orðinn stórsöngvari. Segið svo að við höfum ekkert haft fyrir stafni þessar fyrstu vikur desembermánaðar!

Já, yndislegur desember er komin, svo margt sem þá gerist (lesist með viðeigandi tóni). Svo margt frægra sem þá fæddust, Jesús og Ásdís María to mention just a few :) Við erum búin að skreyta allt hátt og lágt, okkur vantar bara jólaseríur í gluggana og þá er allt komið.

Við eyddum einu laugardagskvöldi um daginn í að föndra heima hjá mömmu og fólst föndrið að þessu sinni helst í perli og súkkulaðiáti. Það var alveg ferlega gaman og margt sem rifjaðist upp í leiðinni, enda langt síðan maður perlaði síðast. Ég tók t.d. eftir því hversu vantrúaður maður er núna á að geta perlað og ef maður er með uppskrift fyrir framan sig verður maður að fara eftir henni út í ystu æsar, annars...já bara katastróf sko. Þegar maður var pons hins vegar var þetta allt í hausnum á manni og uppskriftir voru fyrir mömmur og ömmur til að prjóna á mann peysur (sem maður gekk svo misjafnlega mikið í).

Prófin vofa yfir manni eins og Kolbeinn latínukennari forðum (hrollur). Fyrsta þrautin hefsta þann 13. klukkan 13:30 að staðartíma. Næsta þraut er síðan háð þann 15. og lokaþrautin, 18. des., kallast þrímenningaglíma þar sem ég og aðrir samnemendur mínir munum kljást við heljarmennin Marx, Weber og Durkheim. Og eftir það er ég frjáls. Annars ætti ég ekki að setja fram slíka fullyrðingu eftir allt þetta heimspekital um frelsi, ég verð frjáls á minn hátt en þó ekki alfrjáls.

Í kvöld er það svo málþing um börn og mannréttindi í Borgarleikhúsinu. Frummælendur þar verða m.a. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri íslandsdeildar Amnesty International og mannfræðingur og Jónína Einarsdóttir mannfræðingur og kennari minn í mannfræði barna. Ég mæti sko með blokk og penna, þetta er einmitt það sem við höfum verið að fjalla um í námskeiðinu, þ.e. barnasáttmáli SÞ frá 1989 og gagnrýni á hann og nú fær maður að vita hvaða hugmyndir eru uppi hvað þetta varðar. Hlakka til og mæli með að fólk mæti.

Post scriptum: Vantar einhvern kanínu?

mánudagur, 10. desember 2001

Kórahórur í vígahug

Jæja, nú erum við nettengd aftur. Það hefur margt gerst síðan ég skrifaði síðast og ætla ég ekki að segja frá því öllu. Í gærkveldi var ég að syngja á tónleikum í Hjallakirkju ásamt restinni af Hjallakirkjukór. Það gekk mjög vel og var nú barasta gaman og ekki spillti að stórsöngvarinn Ólafur Kjartan söng með okkur.

Fyrir tónleikana var smá panikk í gangi því ég fattaði að ég hafði engin svört jakkaföt til að vera í við tónleika sem þessa, hmmmm. Þannig að ég brunaði í Hagkaup og eyddi þar tíu heilum mínútum í að finna og máta jakkaföt, skyrtu og bindi.

Þrátt fyrir stuttan fyrirvara og litla fyrirhöfn sat ég uppi með ágætis búning. Ég kann Bigga vini bestu þakkir fyrir að plata mig á kóræfingu eða ætti ég að segja kórAæfingar, hmmmmm. Þannig er að þegar pilturinn sá´arna var búinn að fá mig í einn kór sá hann að ég er frekar auðtrúa og auðplataður í kóra og fékk mig í annan kór sem þýðir bara meiri skemmtun, heheheee. Hann er nefnilega kórahóra og vill að allir vinirnir séu það líka sem er nú bara gott og blessað.

Nú ætla ég að rusla mér á æfingu ásamt áðurnefndum Bigga. Þar ætlum við að sprikla eitthvað og hegða okkur karlmannlega með þung lóð því við erum svo rosalega sterkir.

laugardagur, 1. desember 2001

Próflestur og fyrirbærafræði

Ég var að koma úr leshópnum, við hittumst til að ræða um fyrirbærafræðilega mannfræði. Greinin var skrifuð af hinum virta mannfræðingi Michael Jackson, ég er ekki að grínast, hann ber í raun og sann þetta nafn. Ég man í fyrra, þegar maður var algjör nýnemi, þá var einhver að tala um að hann væri að lesa etnógrafíu Michael Jackson og það sem ég varð hneyksluð, mannfræðingur að skrifa etnógrafíu um Michael Jackson! Það reyndist þó ekki vera rétt sem betur fer, trú mín á mannfræði hefði farið veg sinn allrar veraldar hefði það verið svo.

Próflestur er sem sé hafinn og nóg er að gera þar. Mér tókst að klára þessar ritgerðir fyrir miðvikudaginn (auðvitað) og var meira að segja nokkuð ánægð með þær. Hins vegar hefur þetta tekið allan minn tíma og það er ein ástæðan fyrir því að við erum ekki búin að láta heyra boffs í okkur í viku. Þið verðið bara að afsaka þetta.

Önnur ástæða er sú að við erum að strauja tölvuna þannig að hún verði eins og ný og það tekur langan tíma, það þarf að redda forritum o.fl. Við reyndum að uppfæra heimasíðuna í gegnum fartölvuna en það var of mikið vesen, hún er ekki með FrontPage og notpadið virkar ekki sem skildi. Sem sagt: Við erum lögleg afsökuð :)

Núna eru Ólöf og Jói farin til France að kíkja á óðalið, lukkunarpamfílarnir. Það verður sem sagt ekkert matarboð næsta sunnudag og við Baldur vitum ekkert hvað við eigum af okkur að gera. Seinasta sunnudag var reyndar tvöfalt boð, fyrst kaffiboð því Jói átti afmæli og síðan vorum við eftir og fengum dýrindis máltíð. Ætli við séum ekki lukkunarpamfílarnir eftir allt saman?