mánudagur, 30. september 2013

Bókarabbið: septemberbækur

Septemberbækur
 
Hér kemur stutt samantekt á bókalestri mánaðarins. Bækur mánaðarins skiptust sem hér segir:
 
1 áhugaverð sögulega séð (The Sandcastle Girls)
1 leiðinleg (A Thousand Acres)
1 stórkostleg (Borða, biðja, elska)
2 tilgerðarlegar (Looking for Alaska & The Age of Miracles)
1 óþolandi (A Discovery of Witches)
2 virkilega góðar (The Graveyard Book & The Golem and the Djinni)
1 góð afþreying en óeftirminnileg (The Saturday Big Tent Wedding Party)
1 rokkandi milli góðrar og virkilega góðrar (Neverwhere)
1 góð en þreytandi á sama tíma (Kirkja hafsins)
 
= 11 bækur í september

Hér að neðan tek ég fyrir þrjár bestu bækur mánaðarins. 
 
Eftir að hafa lesið The Ocean at the End of the Lane, og gefið henni slíka stjörnudóma, fór mín í Neil Gaiman gírinn. Ég greip í The Graveyard Book og að lesa hana var svolítið eins og að takast að halda áfram með góða drauminn sem mann var að dreyma þegar maður vaknaði.
 
Gaiman er snillingur.
 
Honum tekst að skapa svo áhugaverða heima með svo einföldum hætti. Töfrandi, ógnvekjandi, dreymandi, líðandi, fangandi... þetta eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um stílinn hans Gaiman.
 
Það er kannski best að vera ekkert að reyna að ritrýna þessa bók. Farið bara og lesið hana. Ég lofa að tímanum er vel varið.
 
Ég hlustaði á nokkur viðtöl við Helene Wecker, höfund þessarar bókar, eftir að ég lauk lestri bókarinnar. Þar sagðist hún hafa unnið að þessari bók í einhver sjö ár, og undir lokin var hún farin að raða saman púslunum með flísatöng. Hún vandaði sig mjög við alla fínpússun og það borgaði sig. Sagan stígur fullsköpuð fram á sjónarsviðið og hrífur mann með sér frá fyrstu blaðsíðu. Ég hafði nokkrar væntingar til sögunnar áður en ég hóf lesturinn og varð ekki fyrir vonbrigðum.
 
Hér fáum við að kynnast dulmögnuðum verum úr ólíkum heimshornum: Annars vegar er það leirkonan Golem, sem búin er til af útskúfuðum rabbí í gyðingasamfélagi Póllands, og hins vegar er það Djinni, andinn sem vanur er að blása frjáls um eyðimerkur Sýrlands en uppgötvar í upphafi sögunnar að hann hefur verið lokkaður og hlekkjaður við flösku.
 
Spennandi? Jáhá!
 
Svo nú vitið þið af hverju ég fór spennt af stað. Og góðu fréttirnar eru þær að ég kom út hinu megin með bros á vör. Virkilega vel skrifuð, rannsökuð, útfærð og stílfærð. Persónunum tókst að vekja áhuga minn, samúð og hrifningu. Sögusviðið (New York, Sýrland, Pólland) hreif mig, en hrifnust var ég, eins og vanalega, af sögutímanum. Sögutíminn hér er ansi breiður, ef svo má að orði komast, því við fylgjum sumum persónum aftur til að því er virðist tíma Biblíunnar, en helsta áherslan er á árið 1899 þegar sagan hefst.
 
Allt verður betra þegar það er sett í sögulegan búning. Sögulegur búningur er svolítið eins og smjör að því leytinu til...
 
Eníveis, ég mæli sko alveg með þessari! 
 
Hér er á ferðinni bók sem er ansi umtöluð, enda metsölubók í meira lagi. Eða hvað kallar maður bók sem hefur selst í tíu milljónum eintaka um heim allan og sat samfleytt í þrjú og hálft ár á metsölulista The New York Times? Mememememetsölubók? Eða langalangalangalangametsölubók? Ég veit það ekki. Megabók kannski.
 
Það finnst mér allavega, algjör dúndurmega bók. Ég las þessa bók fyrst veturinn 2010 þegar ég fékk hana að láni á safninu. Í þetta sinn gat ég lesið mitt eigið eintak sem ég var svo heppin að kaupa á útsölu í Eymundsson áður en við héldum utan. Þannig hefur það æxlast að ég hef í bæði skiptin lesið hana á íslensku, sem er frekar óvenjulegt fyrir mig þar sem ég kýs að lesa enskar bækur á ensku. Íslenska þýðingin er hins vegar ansi fín í flesta staði, sem betur fer.
 
En það sem er kannski markverðast við þennan lestur er að ég las alla bókina upphátt fyrir Balduro mio.
 
Ok, lítum aðeins nánar á þetta. Ég var búin að lesa bókina, keypti hana svo og las aftur, og í þetta sinn upphátt fyrir manninn minn svo hann fengi ábyggilega notið sögunnar. Haldiði að ég sé hrifin?
 
JÁ!
 
Ég er big time Elizabeth Gilbert aðdáandi. Ég fylgist með henni á facebook. Ég er áskrifandi að fréttabréfunum hennar. Ég las Committed sem er sjálfstætt, óbeint framhald af Eat, Pray, Love. Ég elska TED fyrirlesturinn hennar. Ég býð spennt eftir nýju skáldsögunni hennar sem kemur út Á MORGUN!
 
En hvað með Borða, biðja, elska? Hvað hrífur mig svona við þessa sögu?
 
Það er fyrst og fremst Elizabeth sjálf. Hún er mögnuð manneskja. Hún berskjaldar sig, talar ófeimin um leit sína að Guði og tilgangi, hún er íhugul, pælandi, fyndin, hnyttin, bráðgreind, vel lesin, rosalega fær penni og síðast en ekki síst er hún hispurslaus. Hún talar um mál sem skipta máli en gerir það á þann veg að maður situr við borð og hlustar á innihaldsríkt samtal.
 
Svo er náttúrulega ekki hægt að segja nei við ókeypis ferðalagi til Ítalíu, Indlands og Indónesíu.
 
Lesið bókina gott fólk.
 
Jæja, þetta var í styttri kantinum þennan mánuðinn en ég kveð ykkur með þessum vísdómsorðum:

Enginn fitnar af fögrum orðum (hjúkket).
 

föstudagur, 27. september 2013

Kaffimöffins

Kaffumöffins

Í glósubókinni sem ég tók með mér til Bordeaux veturinn 2000 kallast þessar möffins 'jógúrtkökur', en kaffimöffins er meira sexý svo þær heita það hér með.

Þessar möffins tengi ég við æskuárin í Selásnum því mamma bakaði þær ansi oft þar. Ég man að ég stóð oft fyrir framan ofninn og horfði á þær bakast og gat varla beðið eftir að þær kæmu út úr ofninum. Svo varð maður að bíða í smá stund og leyfa þeim að kólna, en maður beið aldrei of lengi og loksins beit maður í heita og mjúka kökuna og fékk bráðið súkkulaði á varirnar.

Ah, hvernig væru æskuminningarnar ef engar hefðu verið kökurnar?

Þetta voru fyrstu möffins sem ég bakaði og ég hef því bakað þær ansi oft í gegnum tíðina. Í fyrstu bakaði ég þær bara í pappírsformunum, sett alltaf of mikið deig í hvert form og uppskar lágréttar möffins! Nú hefur mér lærst að setja pappírsformin í 3x4 álformið mitt, og þá koma þær allar gullfallegar og fagurskapaðar úr ofninum. Lóðréttar en ekki lágréttar!

Ef fyrir þér er komið eins og mér, þ.e.a.s. þú ert stödd/staddur ýmist í Frakklandi eða Noregi (hef bakað þessar möffins í báðum löndum) og finnur ekki kaffijógúrt, þá er einfalt að búa hana til sjálfur með því að sæta hreina jógúrt (180 g) og bæta útí instant kaffi. Það gerði ég við þessar og kaffijógúrtin mín var alveg á par við þá sem maður kaupir heima frá MS.

Uppskriftin dugar í svona 30 möffins.

Þetta er ferlega einfalt, hefjumst handa.

HVAÐ
3 egg
2 bollar sykur
220 g smjör, við stofuhita
1 dós kaffijógúrt
1 tsk vanilludropar
2,5 bolli hveiti
0,5 tsk matarsódi
150 g suðusúkkulaði, saxað

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Þeytið saman egg og sykur.
3. Bætið við smjöri, jógúrt og vanilludropum og hrærið vel saman.
4. Sigtið þurrefnin útí og hrærið saman (NB! ekki of vel því nú er matarsódinn kominn útí).
5. Bætið að lokum súkkulaðinu út í og blandið varlega saman við deigið með sleif.
6. Notið skeið til að deila deiginu út í bréfform. Fyllið 2/3 af hverju formi.
7. Inní ofn í 20-25 mín.

Þessar eru alveg æðislegar með ískaldri mjólk. Mmm...

Kaffimúffur
 
Kaffimúffur

miðvikudagur, 25. september 2013

Eggaldinlasanja

Eggaldinlasanja

Þessa uppskrift fékk ég hjá mömmu, sem mælti með henni í bak og fyrir.

Ég var efins.

Eggaldin? Jakk. Aldrei hef ég getað borðað það. Nema hjá einum kokki, henni Lotte sem rekur Lotte's Sandwichbar við Kronprinsessegade í Kaupmannahöfn. Ég á góðar minningar frá sumrinu 2006: skottast til Lotte, fá sér dýrindis grænmetisloku og skottast svo í Kongens Have í pikk nikk. Lotte hlóð súrum gúrkum, hummus, osti og, síðast en ekki síst, grilluðu eggaldini á grænmetislokurnar og hver munnbiti var sæla.

Það er því kannski Lotte að þakka að ég lét slag standa og ákvað að treysta meðmælum mömmu. Ég eldaði þennan rétt fyrir sambúðarafmæli okkar Baldurs og við sleiktum diskana. Jömmí!

Og rétturinn er tiltölulega einfaldur í ofanálag. Ef frá er talið að skera eggaldin í þunnar sneiðar, salta og bíða. En maður getur verið að lesa með tærnar upp í loft á meðan maður bíður, sem er ekki svo slæmt í mínum bókum.

HVAÐ
2 eggaldin
1 lítill laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
1 dós tómatar
3 tsk tómatkraftur
30-50 grænar ólívur, niðursneiddar
Salt og pipar
50 g ferskur parmesanostur, rifinn

HVERNIG
1. Skerið eggaldinin í þunnar sneiðar (langsum eða þversum) og leggið á bökunarpappír.
2. Stráið vel af salti yfir hverja sneið fyrir sig og leyfið að liggja í 1-2 tíma. Saltið dregur beiska bragðið úr eggaldinu og hjálpar því að halda lögun sinni við matreiðslu.
3. Hitið ofninn upp í 200°C.
4. Þerrið sneiðarnar með pappír, stingið svo eggaldinsneiðunum inn í ofn og bakið í 15 mín.
5. Útbúið sósuna: Saxið lauk og merjið hvítlauk, steikið á pönnu.
6. Bætið tómötum og tómatkrafti útí.
7. Leyfið suðu að koma upp, látið þá malla í 30 mín. og smakkið svo til með salti og pipar.
8. Raðið í eldfast mót. Til skiptis: eggaldinsneiðar, tómatsósa, ólívur og rifinn parmesanostur.
9. Setjið inní ofn í 45 mín. á 200°C.

Með þessu bar ég fram hvítlauksbrauð og hið dásamlega sæta hátíðarsalat. Veislumatur!

Eggaldinlasanja
 
Eggaldinlasanja
 
Eggaldinlasanja
 
Eggaldinlasanja

mánudagur, 23. september 2013

Helgarpistillinn


Þessa helgina lágum við yfir síðustu þáttunum af True Blood. Við byrjuðum að horfa fyrr í mánuðinum og áttum þá eftir hálfa fimmtu seríu og alla sjöttu seríu. Það er skemmst frá því að segja að við hökkuðum þættina í okkur - eða kannski væri meira viðeigandi að segja að við drukkum þá í okkur? Við kláruðum altént síðustu þættina um helgina og sátum eftir í sófanum, starandi stjörfu augnaráði út í bláinn. Þvílík þeysireið sem þessir þættir eru!

Frá True Blood að öðrum málefnum. Ég er búin að skrá mig í tvö námskeið hjá coursera. Coursera gerir manni kleift að sækja námskeið sem hinar ýmsu virtu háskólastofnanir útí heimi bjóða upp á. Þetta nýja fyrirbæri kallast MOOC, sem er skammstöfun á mass open online courses, og gengur út á að ótakmarkaður fjöldi kemst að til að hlusta á fyrirlestrana og læra saman með því að spjalla á spjallþráðum.

Námskeiðin sem ég skráði mig í eru Plagues, Witches and Wars: The Worlds of Historical Fiction sem kenndur er við University of Virginia og A History of the Worlds since 1300 sem kenndur er við Princeton. Sá síðarnefndi hófst fyrir viku síðan, og ég er komin á kaf í að lesa um Svarta dauða. Sá fyrrnefndi hefur síðan göngu sína eftir þrjár vikur, og ég er sérstaklega spennt að fylgja honum eftir því flottir rithöfundar mæta á svæðið til að fjalla um verk sín og svara fyrirspurnum. Geraldine Brooks er þeirra á meðal. People of the Book, anyone? Geggjað!

En að stóru spurningunni... hvað er með þetta myndband hér að ofan?

Í síðustu viku röltum við upp að Åletjern einu sinni sem oftar, og þá fór Baldur á hnén... og gerði pýramída armbeygjur. Ég fékk sem betur fer að vera í friði og taka upp atganginn.

Síðast en ekki síst: Ég er núna farin að vinna í afgreiðslunni í Elixia. Hjálpi mér allar vættir! Ég kem ekki nándar nærri öllum setningunum frá mér á skammlausri norsku, langt í frá reyndar, né skil ég allt sem við mig er sagt (hvað er með allar þessar mállýskur?), ég er enn ekki farin að geta svarað í símann (nema til að segja: jeg er under opplæring, her kommer en som kan hjelp deg), en ég er svakalega stolt af mér fyrir að dýfa mér í kalda laugina og er fullkomlega sátt við ófullkomna norsku. Í bili.

En ég kan að segja Så bra! lýtalaust. Það kemur manni langt í Noregi.

föstudagur, 20. september 2013

Sætt hátíðarsalat

Sætt hátíðarsalat

Hér er ein af mínum uppáhaldssalatuppskriftum: Sætt salat. Ég kalla það stundum sunnudagssalat, en það er réttara að kalla það hátíðarsalat því ég útbý það bara við sérstök tilefni, til hátíðabrigða.

Eins og til dæmis á sambúðarafmæli.

Þessa uppskrift skrifaði ég niður fyrir nokkrum árum, þegar ég var hvað mest að prófa mig áfram í hráfæði. Það tímabil var góð innspýting inn í salatgerð heimilisins.

Ég hef mætt með þetta salat í boð og samkomur og fólk hefur sleikt diska. Ég hef meira að segja poppað það upp með muldum nachos flögum og það kom mjög vel út.

HVAÐ
Góð salatblanda (t.d. Organic Girl Baby Leave ef hún er ennþá seld heima)
Baby spínatblöð
Rauð vínber
Brokkolí
Appelsínugul papríka
Döðlur
Sesamfræ

Dressing: Ólívuolía, dökkt balsamik edik, sítrónusafi, hunang, salt & pipar.

HVERNIG
1. Skolið salatblönduna og spínatið og vindið í salatvindu.
2. Skerið vínberin til helminga, brokkolíið í lítil búnt og papríkuna í strimla. Sneiðið niður döðlurnar.
3. Hendið öllu saman í fallega skál og stráið sesamfræjum yfir.
4. Blandið saman balsamik ediki og hunangi, bætið við sítrónusafanum og að lokum hellið ólívuolíu út í og hrærið stöðugt í á meðan, þangað til olían gengur saman við restina af dressingunni (hún hleypur saman).
5. Hellið dressingunni yfir salatið rétt áður en það er borið fram. Blandið vel.

Krönskröns! Njótið!

Sætt hátíðarsalat
 
Sætt hátíðarsalat
 
Sætt hátíðarsalat

miðvikudagur, 18. september 2013

Hugleiðsluhornið mitt

Hugleiðsluhornið

Mig langaði að sýna ykkur hugleiðsluhornið mitt, ef ske kynni að það blési einhverjum í brjóst
löngun til að byrja að hugleiða. Ég tala nú ekki um þá sem hafa lengi velt því fyrir sér að byrja að hugleiða, kannski ég geti verið klappstýran ykkar (koma svo, já!).

Það sem ég get sagt ef hugleiðslan togar í: Go for it.

Nú er ég, og við bæði, búin að hugleiða daglega síðan við fluttum hingað út. Það er mikill munur á daglegri iðkun og handahófskenndri iðkun, þessari 'ég-fer-í-'ða-þegar-ég-hef-tíma' nálgun. Við Baldur ræðum oft saman um liðna tíð og þegar við lítum um öxl standa þau tímabil sem við höfum iðkað hugleiðslu daglega skör hærra en önnur tímabil. Hugleiðslunni fylgir nefnilega léttir, afslöppun, þakklæti, gleði, afstressun, tenging. Meðal áhrifa sem hugleiðsla hefur má nefna að hún dregur úr kortisólframleiðslu (stresshormón) og eykur vaxtarhormón (við njótum fleiri hrukkulausra ára!). Búmm, tvær flugur í einu hormónahöggi.

Stór þáttur í því að gera hugleiðslu að daglegri iðkun er að taka frá smá horn sem maður sveiflar Harry Potter vendinum sínum yfir og segir: Abrakadabra, hér sé heilagt.

Svo einfalt.

Hugleiðsluhornið manns krefst ekki mikils pláss eða fyrirhafnar. Eins og þið sjáið á myndinni einskorðast hugleiðsluhornið mitt við mottuna mína í svefnherberginu. Ofaná mottunni er ég með mjúkt teppi sem ég sit á, og svo hef ég sankað að mér nokkrum gripum sem eru mér hvatning í andlegri ástundun.

Hvernig orðaði Gwen Stefani þetta aftur?

Já, alveg rétt. What You Waiting For?

mánudagur, 16. september 2013

Helgarpistillinn

Helgarcollage 14-15/09/13

Þessa helgina héldum við Baldur upp á sambúðarafmælið okkar.

12 ár, baby!

Það var öllu til tjaldað: ég útbjó fínasta hátíðarsalatið mitt, eldaði svo geggjað eggaldinlasanja (jömm!) og föndraði við ítalska eftirréttinn pannacotta.

Síðan kveikti Baldur upp í kamínunni því við eigum við í geymslunni og það er aðeins farið að kólna í lofti.

Smá kerti, smá eldur, smá tónlist, glös á fæti...

Takk fyrir árin tólf elsku Baldur. Skál fyrir næstu tólf!

föstudagur, 13. september 2013

{HRÁFÆÐI} Spænsk morgunverðarhræra

Spænsk morgunverðarhræra hráfæðiskokksins

Hér er réttur sem ég hef nokkrum sinnum útbúið. Sumarið 2008, þegar ég prófaði hráfæði í fyrsta sinn, komst ég í kynni við hana Ani Phyo og þessa fínu uppskrift hennar að spænskri morgunverðarhræru. Í ljósi þess hve ötullega ég hef bakað undanfarna daga og vikur var kroppurinn á mér alveg til í smá U-beyju og því henti ég saman í spænska morgunverðarhræru.

Þetta er svakalega auðveld og fljótleg uppskrift, og einnig ljúffeng. Ferskt kóríander og mildur vorlaukur gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð og tómatarnir hjálpa til við að djúsa hann aðeins.

HVAÐ
1 bolli möndlur
0,5 bolli sólblómafræ
1 tsk túrmerik
0,25 tsk salt
0,25 - 0,5 bolli vatn
0,5 bolli tómatar, í teningum
2 msk vorlaukur, niðurskorinn
0,25 bolli kóríander, gróft saxað
nokkur spínatblöð
klípa af svörtum pipar

HVERNIG
1. Setjið möndlur, sólblómafræ, túrmerik og salt í matvinnsluvél.
2. Látið vélina ganga þangað til möndlur og fræ hafa hakkast vel saman. Bætið þá við smá vatni, þangað til innihaldið fer að loða vel saman.
3. Hellið möndlu-fræhrærunni í stóra skál.
4. Hrærið saman við tómötum, vorlauk, kóríander og pipar.
5. Leggið spínatblöð á disk. Þjappið hluta af hrærunni í ausu eða skál og hvolfið henni síðan yfir spínatblöðin til að fá fallega formaðan rétt á diskinn.

Allt er vænt sem vel er grænt!

Spænsk morgunverðarhræra hráfæðiskokksins

miðvikudagur, 11. september 2013

Kanilsnúðar með rjómaostsglassúr

Kanilsnúðar með rjómaosti

Þessa kanilsnúða smakkaði ég í fyrsta skipti í IKEA þegar húsgagnaframleiðandinn hélt sænska kanelsnúðadaginn hátíðlegan. Það voru nokkrar ólíkar tegundir af snúðum í boði frá ólíkum bakaríum, en þeir sem bakari IKEA reiddi fram voru alveg sjúklega góðir. Vitfirrtir alveg.

Ég bakaði þessa snúða um daginn, í annað sinn. Uppskriftin eins og hún kemur af beljunni er risavaxin og því finnst mér best að helminga hana, svo maður sé ekki að jappla á snúðum fram til jóla.

En hvað er svona gott við þessa snúða? Þeir eru stökkir að utan en mjúkir inní, fyllingin er sæt, krydduð og djúsí, og síðan toppar rjómaostsglassúrinn snúðana, bókstaflega.

Það getur verið ágætt að kalla á fólk í kaffi þegar maður bakar þessa, svona til að friða samviskuna.

Hér kemur full uppskrift. Ég hef aðeins breytt  hlutföllum, minnkað sykur og bætt við hálfu eggi (uppskriftin frá IKEA kveður á um tvö og hálft egg! Þeir eru með fjölhæfar hænur á sínum bæ, ég segi ekki annað). Upphafleg uppskrift er í bollum og grömmum en ég viktaði þurrefnin því mér finnst betra að vinna eftir vikt en ónákvæmum bollum, og uppskriftin hér að neðan endurspeglar það.

HVAÐ
Deigið:
25 g pressuger (2,5 tsk þurrger)
1 bolli mjólk
2 stór eða 3 meðalstór egg, við stofuhita
75 g smjör, við stofuhita
800 g hveiti
130 g sykur
0,5 tsk salt

Kanelfyllingin:
500 g smjör, bráðið
400 g púðursykur
2-3 msk kanill

Rjómaostsglassúrinn:
85 gr rjómaostur, við stofuhita
200 g flórsykur
55 g smjör, við stofuhita
1 tsk vanilludropar
Salt af hnífsoddi

HVERNIG
1. Hrærið saman pressugeri/þurrgeri og 37-39°C heitri mjólk þar til gerið er uppleyst. Látið standa í 5 mínútur.
2. Bætið við eggjunum og smjörinu og hrærið saman með þeytara.
3. Bætið þurrefnum við (hveiti, sykur, salt). Ef notast er við hrærivél: hnoðið í 5-8 mín. Fyrir okkur hin: hræra vel saman með sterkri sleif í dágóða stund. Deigið á að vera blautt en þegar það fer að losna frá hliðum skálarinnar er búið að hræra nóg.
4. Smyrjið skál með matarolíu, skellið deiginu í og látið lyfta sér á volgum stað undir rökum klút þangað til það hefur tvöfaldast að stærð (40-50 mín.).
5. Á meðan deigið hefast er best að vinda sér í kanelfyllinguna. Hrærið saman púðursykri, kanil og bræddu smjöri og kælið niður þar til blandan hefur tekið að stífna.
6. Stráið hveiti á hreinan flöt. Hnoðið deigið þangað til áferð þess er orðin falleg og jöfn.
7. Skiptið deiginu í tvennt til að ráða betur við stærðina á því. (Ef þið hafið helmingað uppskriftina eins og ég gerist ekki þörf á að deila deiginu).
8. Fletjið hvorn helming fyrir sig út í 40 x 25 sm. Kappkostið að ná deiginu þunnu, það gerir snúðana skemmtilegri.
9. Smyrjið fyllingunni jafnt yfir.
10. Rúllið deiginu upp í langa rúllu, leyfið sárinu að snúa niður.
11. Skerið 2 sm breiða snúða og raðið á klædda ofnplötu. (Þegar ég sker bungast önnur hliðin iðulega út og þá hlið læt ég snúa niður svo yfirborð snúðarins sé jafnara)
12. Breiðið yfir snúðana með rökum klútum og leyfið þeim að lyfta sér í 40-50 mín.
13. Hitið ofninn í 200°C.
14. Bakið snúðana í miðjum ofni í þann tíma sem tekur að gefa þeim fallegan, gullbrúnan lit.

Jömmjömmjömm!

Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti
 
Kanilsnúðar með rjómaosti

föstudagur, 6. september 2013

Ítalskir pizzasnúðar

Pizzasnúðar
 
Föstudagsuppskriftin er ekki af verri endanum: Ítalskir pizzasnúðar!

Þeir eru krönsí að utan en dúnamjúkir inní, þeir eru djúsí, soldið spæsí og svakalega ljúffengir.

Hér kemur full uppskrift en sjálf gerði ég aðeins hálfa uppskrift og uppskar 30 snúða. Þeir hurfu á augabragði! Full uppskrift, aftur á móti, gefur svona 50-60 snúða. Það er vert að minnast á að ég notaði fulla uppskrift að sósunni og notaði ábyggilega 3/4 af henni, því ég vil hafa snúðana djúsí. Svo það gæti verið ráð að gera eina og hálfa uppskrift að sósu ef stefnan er tekin á fulla uppskrift.
 
HVAÐ
Deigið:
5 tsk þurrger eða 50 g pressuger
3 dl mjólk
3 dl heitt vatn
1 tsk salt
1 msk sykur
2 msk ólívuolía
12 dl hveiti
 
Sósan:
1 dós niðursoðnir tómatar, hakkaðir
2 msk chilisósa (hef iðulega notað tabasco sósu)
3 msk tómatsósa
1 msk matarolía
2-3 msk óreganó
1 tsk salt
2 tsk hvítlauksduft
2 tsk sykur
Ofaná:  rifinn ostur (ef vill)
 
HVERNIG
1. Byrjið á sósunni svo hún nái að kólna. Blandið öllu saman í pott og sjóðið við vægan hita í u.þ.b. 20 mín. eða þar til fyllingin hefur þykknað nokkuð. Kælið fyllinguna í vatnsbaði.
2. Deigið: Hellið saman vatni og mjólk í pott og hitið í 37°C.
3. Myljið gerið út í stóra og góða skál og hellið vökvanum útí. Hrærið gerinu vel saman við þangað til það hefur allt leyst upp.
4. Bætið sykri, salti og olíu út í ásamt hluta af hveitinu eða þar til blandan verður mjög þykkur grautur.
5. Stráið hveiti yfir og látið lyfta sér í 30-40 mín. Breiðið gjarnan klút yfir.
6. Takið deigið og hnoðið það í létt deig. Skiptið því í tvo hluta og fletjið hvorn fyrir sig. Rúllið því út í 50 sm á lengd og restinni út á breiddina.
7. Smyrjið sósunni yfir útflatt deigið. Ef þið viljið ost, rífið þá smá niður og dreifið yfir.
8. Rúllið upp. Skerið u.þ.b. 2 cm þykka snúða og raðið þeim á plötu klædda bökunarpappír.
9. Látið lyfta sér í 20-30 mín.
11. Hitið ofninn í 200°C.
10. Penslið snúðana með olíu og bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 20 mín.

Þessir snúðar eru tilvaldir með kjarngóðri súpu og grænu salati.
 
Pizzasnúðar
 
Pizzasnúðar
 
Pizzasnúðar

miðvikudagur, 4. september 2013

Tebollur

Tebollur

Ég bakaði tebollur í fyrsta skipti um daginn, og það var auðvelt. Það var líka gaman en það er af því mér finnst alltaf gaman að baka. Það er líka tiltölulega fljótlegt að henda í þessa uppskrift, mesta vesenið er að nudda smjörið inn í hveitið. Pínu messí en maður lætur sig hafa 'ða.

Þessi uppskrift kemur frá Rögnu sem heldur úti síðunni ragna.is.

HVAÐ
3,5 dl hveiti
1,5 tsk lyftiduft
3/4 dl sykur
100 gr smjör
1,5 tsk kardimommudropar
1 egg
1 dl mjólk
1 dl rúsínur eða grófsaxað suðusúkkulaði (eða 1/2 dl af hvoru)

HVERNIG
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Setjið öll þurrefnin í skál.
3. Skerið smjörið í bita og hendið út í þurrefnin. Brettið upp ermar, we're going in! Myljið smjörið í hveitiblönduna með berum höndum. Markmiðið er að nudda smjörinu jafnt inn í allt hveitið og til að ná því er best að nudda lófunum saman. Við viljum að blandan líti út eins og mulið kex áður en við höldum áfram.
4. Í glas eða skál hrærið saman eggi, mjólk og kardimommudropum. Hellið út á deigið og hrærið þar til eggja-mjólkurblandan hefur gengið saman við restina. Blandan er þykk og jafnvel ójöfn, en það jafnar sig allt út í ofninum, auk þess sem það hjálpar okkur að móta kúlur úr deiginu sem gefa okkur hærri og fallegri tebollur, í stað útflattra og breiðra.
5. Hrærið út í rúsínur eða súkkulaði. (Ég skipti deiginu í tvennt og setti rúsínur í annan og súkkulaði í hinn. Þar sem ég er ekki mikil rúsína þá kom mér það á óvart að mér fundust bollurnar með rúsínum betri en þær  með súkkulaðinu)
6. Leggið bökunarpappír á ofnplötu. Búið til kúlur á stærð við tennisbolta eða mandarínur og raðið á plötuna. Hafið gott bil á milli því bollurnar renna út til hliðanna í ofninum.
7. Inní miðjan ofn í 15-20 mín. (Eftir 20 mín setti ég ofninn á 200 til að skerpa aðeins á litnum og var umbunað með gullnum tebollum).

Og þá er bara að hella sér upp á te, því að Íslendingar borða bara tebollur með tebollanum...

Tebollur
 
Tebollur

mánudagur, 2. september 2013

Helgarpistillinn

Helgarcollage: 30-31/08/13
 
Þessa helgina:

- Tók Baldur lestina til Osló til að sækja einkaþjálfarabúðir
- Var ég grasekkja í 36 tíma
- Notaði ég tímann sem grasekkja til að kenna hatha jóga tíma fyrir Baldur. Ég æfði líka nokkrar vinyasa flow seríur þar sem ég er farin að kenna vinyasa flow jóga í Elixia. Vúhú!
- Pakkaði ég saman fínu nesti handa Baldri áður en hann hélt til höfuðstaðarins...
- ... af því ég hafði útbúið æðislegt salat úr ofnbökuðu grænmeti og linsum eftir uppskrift sem ég fann í Yoga Journal
-  Lá ég í sólbaði útí septembersólinni og las, nema hvað
- Bakaði ég tebollur! Með rúsínum!
- Horfðum við á myndina Epic, sem ég mæli alveg með. Geggjuð grafíkin!

That's all folks!