fimmtudagur, 31. október 2013
Gleðilega Hrekkjavöku!
Það er víst Hrekkjavakan í kvöld. Ég var minnt á það þegar ég fór að versla fyrr í kvöld og mætti hópi uppáklæddra ungmenna.
Mér finnst Hrekkjavakan spennandi og skemmtileg. Ég er að vísu ekki búin að dressa mig upp en ég er með grasker í húsinu, það er ekta.
miðvikudagur, 30. október 2013
Bókarabbið: Októberbækur
Október var í rólegri kantinum. Segi ég og las samt fimm bækur! Það er kannski ágætt að koma aðeins niður á jörðina!
Það er engu að síður áhugavert að sjá að lestrarrútínan mín er svolítið öfugsnúin þetta haustið. Venjulega les ég lítið á sumrin og síðan kemur september með kraftmikla innspýtingu í lesturinn og sú innspýting endist yfirleitt fram til jóla. Þetta ætlar að verða eitthvað öðruvísi þetta haustið og ekki sér fram á að nóvember verði gjöfullli því ég ætla að skrá mig til leiks í NaNoWriMo og þá forðast ég allar bækur. Ég smitast nefnilega jafnauðveldlega af góðum stíl eins og af stórum geispa.
Ég ætla hér að taka fyrir þær bækur sem stóðu upp úr í mánuðinum, sem eru Half Broke Horses og Jamrach's menagerie. Mér finnst eins og ég ætti að skrifa um The Interestings af því að hún hefur fengið svo mikla umfjöllun á árinu, en í sannleika sagt þá hef ég ekkert um hana að segja.
Jeannette Walls er þekktust fyrir að hafa gefið út æskuminningar sínar í bókinni The Glass Castle. Sú bók er alveg rosaleg. Sagan er engin sérstök skemmtilesning því þarna lýsir Jeannette uppvaxtarárum sínum og systkina sinna sem einna helst má lýsa með orðinu vanræksla. Engu að síður er um magnaða frásögn að ræða á öllum sviðum: hvað varðar efnistök, andrúm, textasmíð. Textinn stendur sterkur með sjálfum sér, sem kemur líkast til af því að Jeannette stendur sterk með sjálfri sér í gegnum alla frásögnina og öll sín uppvaxtarár.
Eeeeen, nú er það bókin Half Broke Horses sem er til umfjöllunar (áfram með smjörið Ásdís!). Ég segi hiklaust að jafnvel þótt um sjálfstætt verk sé að ræða er einstaklega áhugavert að lesa það í samhengi við The Glass Castle, því í þessari bók segir Jeannette frá móðurömmu sinni og uppeldi móður sinnar, og þegar maður hefur lokið við The Glass Castle er maður orðinn ansi forvitinn að vita hvaðan fólk eins og foreldrar hennar koma.
Hér er að mörgu leyti það sama í boði og í The Glass Castle: sterkur texti, sterkar persónur, fólk sem fer sínar eigin leiðir og er oft mjög á skjön við það sem gengur og gerist. Hér eru hins vegar engar lýsingar á hræðilegri vanrækslu sem gerir lesturinn auðveldari. Amman, Lily Casey Smith, er sérvitur og sjálfstæð, lendir í hremmingum, lifir allt af og hefur sína eigin sýn á lífið og tilveruna. Það er heillandi að fylgjast með lífshlaupi hennar og upplyftandi, sem er kannski einmitt það sem The Glass Castle er ekki. Þess vegna er ágætt að lesa þessa bók á eftir hinni til að halda trú sinni á mannkyn gangandi. Við þurfum þess.
Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Carol Birch. Áður en ég byrjaði á bókinni hafði ég einhverra hluta vegna bitið það í mig að þetta væri fyrsta verk höfundarins og var alveg agnofa meðan á lestrinum stóð. Þegar ég hafði lokið lestrinum og mátti lesa mér til um höfundinn komst ég að hinu sanna: Carol er margra bóka höfundur. Nú meikar heimurinn aftur sens.
Þetta er mögnuð saga. Hún er svona Charles Dickens og Moby Dick í einni bendu. Aðalpersónan, Jaffy Brown, og besti vinur hans, Tom, vinna fyrir sérstakan náunga, herra Jamrach sem flytur inn exótísk dýr á borð við tígrisdýr, páfugla og eðlur. Þegar hann hefur spurnir af því að sést hafi til alvöru dreka í Indónesíu sendir hann skósveina sína Jaffy og Tom á skip með það að markmiði að hafa uppi á þessum dreka.
Það er afskaplega margt vel gert í þessari sögu. Persónur eru vel dregnar og trúverðugar með sína skapgerðabresti og mannkosti, lýsingar á sögusviði og sögutíma gæða söguna fyllingu og lýsingu og ferðalag þeirra félaga kringum hnöttinn er stórskemmtilegt. Carol er hins vegar ekkert að víla það fyrir sér að fara óhefðbundnar slóðir og hristir allverulega uppí manni seinni hluta sögunnar þegar okkar menn komast í hann krappann.
Ég get sko alveg mælt með þessari.
Þá er það klappað og klárt og ég segi októberbókarabbi lokið. Vísdómsorð þessa bókarabbs koma frá C. S. Lewis:
I can’t imagine a man really enjoying a book and reading it only once.
Heyr heyr!
mánudagur, 28. október 2013
Gleðilegt haust!
Það er ekki seinna vænna að óska öllum heillavæns hausts. Það er einu sinni mætt á svæðið eins og sjá má svo glögglega á myndinni að ofan.
Myndin var reyndar tekin fyrir rúmum tveimur vikum, þegar við fórum í hjólatúr niður í bæ til að heimsækja Asia Market sem þar er að finna. Komum klifjuð linsum og baunum, fíkjum og hnetum úr þeirri ferð. Í millitíðinni hafa enn fleiri lauf fallið og fokið um, og það hefur rignt vel á okkur.
Gönguferðir á moldarstígum geta orðið svolítið vandasamar eftir miklar rigningar. Þá er gott að koma heim í hrökkbrauð og hnetusmjör!
En komist maður á leiðarenda fær maður verðlaun. Åletjern og hæðirnar í kring eru ekkert síður að fíla haustið en ég. Við erum sammála um svo margt.
föstudagur, 25. október 2013
Matarmikil grænmetissúpa
Í hillunni þar sem við geymum matreiðslubækurnar okkar er að finna áhugaverða bók sem Baldur kom með í búið frá foreldrum sínum. Hún heitir Diet for a Small Planet: High Protein Meatless Cooking og er eftir Frances Moore Lappé. Þessi bók var gefin út '71 og er fræðirit um hvernig hægt er að setja saman prótínríkar grænmetismáltíðir.
Ég fór að blaða í þessari bók fyrir nokkru og skoða uppskriftirnar sem henni fylgja. Þá rakst ég á súpu sem Frances kallar einfaldlega Hearty Vegetable Soup. Það var einmitt það sem mig langaði í, matarmikla og kraftmikla súpu fyrir kólnandi haustdaga.
Eftir að hafa gert okkur ferð í heilsubúðina til að verða okkur úti um mísó gat ég brett upp ermar og eldað þessa súpu. Jömm, hún er alveg yndisleg. Hnausþykk, braðgsterk, næringarrík. Bulgur og hýðisgrjón fara í hana og því minnir hún svolítið á íslenska kjötsúpu, allavega eins og Rut amma mín gerið hana.
En þetta er engin kjötsúpa, heldur útpæld súpa þar sem baunir og grjón vinna saman að því að færa líkamanum heilt prótín og næringargerið færir okkur B vítamín. En mestu skiptir að hún er frábærlega bragðgóð og áferðarfalleg.
HVAÐ
Ólívuolía
2 laukar, saxaður
2 bollar af niðursneiddu grænmeti (t.d. gulrætur, sveppir, sellerí)
1 dós tómatar
klípa af cayenne pipar
2 msk næringarger
1/2 tsk af þessum kryddum: basilíka, estragon, óreganó, sellerí fræ
1/4 tsk af þessum kryddum: timjan, rósmarín, meiran, salvía
2 msk sojasósa
1/2 bolli hýðisgrjón, ósoðin
1/2 bolli bulgur, ósoðið
1 bolli soðnar sojabaunir
6-8 bollar grænmetissoð
1-2 msk mísó
HVERNIG
1. Leggið sojabaunir (ca 1/3 bolli) í bleyti yfir nótt.* Sjóðið þær með lárviðarlaufi í 2-3 tíma eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Það getur verið gott að hæra varlega í þeim af og til. Einnig er ráð að veiða upp hýðið utan af baununum sem flýtur upp á yfirborðið. Þá gæti vel þurft að bæta vatni út í pottinn þar sem suðutíminn er svo langur.
2. Steikið saman lauk og niðurskorið grænmetið í ólívuolíunni í stórum potti í 5-10 mín.
3. Bætið útí tómatnum, cayenne piparnum, næringargerinu, öllu kryddinu og sojasósunni. Hrærið vel.
4. Bætið út í hrísgrjónum og bulgur, sojabaununum og grænmetissoðinu.
5. Náið upp suðu.
6. Takið einn bolla af súpu til hliðar og blandið 1-2 msk af mísó útí. Hrærið vel þar til mísóið er uppleyst. Skemmtilegt er að mauka þennan eina bolla af súpu með töfrasprota.
7. Hellið mísóblöndunni aftur út í súpuna.
8. Leyfið súpunni að malla í 1-2 tíma eða þangað til hrísgrjónin eru soðin. Ef þarf má alltaf bæta meira vatni út í súpuna.
Með þessari súpu er ansi gott að fá sér heilkorna brauð og góðan ost.
* Ég sýð reyndar aldrei svona smotterí í einu heldur nota ég tækifærið og sýð minnst hálft kíló af baunum í einu, leyfi þeim að kólna, deili þeim síðan í box eða nestispoka, skrifa innihald og dagsetningu á og set í frystinn.
miðvikudagur, 23. október 2013
Grænkálssnakk
Þessar grænkálsflögur smakkaði ég í fyrsta sinn hjá henni Ingibjörgu jógínu. Vá! Þvílíkt lostæti! Þær eru saltar og stökkar og mann langar bara í meira og meira.
Ingibjörg hafði útbúið sínar flögur í þurrkofni, en þar sem ég á enga svoleiðis fína græju fann ég uppskrift á netinu sem gerir ráð fyrir því að maður noti bakarofn.
Þessi uppskrift kemur frá Joanna Goddard.
Áður en við hefjumst handa er eitt atriði sem verður að vera á hreinu: grænkálið þarf að vera eins þurrt og hægt er að ná því, svo að flögurnar verði síður slepjulegar.
HVAÐ
Vænt búnt af grænkáli (helst lífrænu)
1 msk sesam eða ólívuolía
1-2 tsk soja eða tamarisósa
1 msk sesamfræ
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 175°C.
2. Þvoið og þurrkið grænkálið rækilega. Fjarlægið stilkana.
3. Rífið grænkálið niður í bita ofan í skál.
4. Bætið við olíunni, sojunni og fræjunum, blandið saman við kálið með höndunum. Leggið ykkur fram um þekja hvert einasta blað vel og vandlega.
5. Leggið grænkálsblöðin á ofnplötu klæddri bökunarpappír. Ef búntið er vel vænt gætuð þið þurft að dreifa þeim á tvær plötur.
6. Inní ofn í 6-10 mín. Hér þarf að fylgjast vel með því það er erfitt að gefa upp nákvæman tíma. Það er best að taka flögurnar út áður en þær verða að ösku!
Njótið þess að næra líkamann á þessum grænu eðalflögum!
föstudagur, 18. október 2013
Súkkulaðiterta með jarðarberjum
Það er föstudagur og þá er komið að föstudagsuppskriftinni. Súkkulaðiterta! Hver slær hendinni á móti annarri eins dásemd?
Þegar við bjuggum á eyjunni góðu í norður Noregi og deildum húsi með litlu Svíunum okkar Alexander og Petru bakaði Alexander stundum það sem hann kallaði kladdkaka. Hún var jättebra, sérstaklega með vaniljekrem sem þau, rétt eins og Norðmenn, heimtuðu að setja ofan á alla eftirrétti.
Þessi terta hér minnir mjög svo á þessa góðu kladdkaka. Hún er mjúk, svolítið blaut og með ríkulegu súkkulaðibragði.
Þessa uppskrift fann ég hjá henni Evu Laufey.
HVAÐ
140 g smjör, við stofuhita
100 g flórsykur
3 egg
170 g súkkulaði, brætt
2 msk hveiti
1 tsk vanillusykur
2 msk kakó
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Hrærið saman smjör og flórsykur þangað til blandan verður létt og ljós.
3. Bætið við eggjunum einu í einu.
3. Hellið bræddu súkkulaðinu saman við og hrærið vel.
4. Bætið loks við hveitinu, vanillusykrinum og kakóinu og hrærið saman við.
5. Hellið deiginu í vel smurt 24 sm form.
6. Bakið í 25-30 mín.
Með þessu er ansi gott að fá sér fersk jarðarber og góðan vanilluís.
mánudagur, 14. október 2013
Helgarpistillinn
1
Þessa súpu eldaði ég um helgina, hún er algjört megadúndur! Sojabaunir, misó, búlgur, sveppir, næringarger, hýðisgrjón... megadúndur er ekki orðum aukið. Við keyptum um daginn hvítlaukschili paste frá ástralska framleiðandanum Jensen's Choice og því bættum við síðan útí eftir hendinni þegar súpan var komin í diskana. Kraftmikil haustsúpa eins og þær gerast bestar.
2
Við fórum í pikknikk upp að Åletjern á sunnudaginn. Tókum með okkur kakómjólk í flöskum og smurt rúgbrauð. Ef við hefðum ætlað að taka Norðmanninn á þetta hefðum við pakkað appelsínum og Kvikk Lunsj, en við virðumst enn vera undir dönskum áhrifum og því er það rúgbrauð með osti í nesti fyrir okkur.
Við settumst á vatnsbakkann, brettum upp ermar og nutum veðurblíðunnar. Nú erum við hætt að fara út í vatnið og kominn mánuður síðan við tókum síðasta sundsprett. En þá nýtur maður Åletjern frá þurru landi og lætur öndunum vatnið eftir.
Þær eru, btw, vitlausar í brauð.
3
Súkkulaðiterta! Sem var bökuð í gær. Súkkulaðiterta á sunnudegi. Fersk jarðarber og vanilluís. Ég legg ekki meira á ykkur.
Hér að neðan eru síðan nokkrar myndir úr lautarferðinni í gær. Sjáið bara hvað haustið er fallegt hérna í suður Noregi!
föstudagur, 11. október 2013
Franskt sumarsalat
Þessa uppskrift rakst ég á í Fréttablaðinu fyrir Guð veit hve mörgum árum. Ég klippti hana út og setti í uppskrifta-úrklippubókina mína og þar hefur hún fengið að dúsa þar til nýverið að ég mundi eftir þessari uppskrift og hafði uppá henni.
Uppskriftin kemur úr franski kokkabók sem leikkonan Vigdís Hrefna deildi með lesendum Fréttablaðsins, og sem ég deili núna hér.
Fyrir þá sem hafa búið í Frakklandi og aðeins komist upp á bragðið með matinn þar þá á þetta salat ekki eftir að valda vonbrigðum. Ekta franskt enda salatið tilbrigði við hið þekkta salade Niçoise sem er í miklu uppáhaldi hjá mér.
HVAÐ
500 g nýjar litlar kartöflur
250 g kirsuberjatómatar
200 g haricot verte baunir
200 g soðnar linsur
stórt búnt af basilíku
Salatdressing:
2 skallottulaukar, fínt saxaðir
3 msk hvítvínsedik
2 msk grófkorna sinnep
Sjávarsalt
Nýmalaður svartur pipar
7 msk ólívuolía
HVERNIG
1. Sjóðið kartöflurnar í hýðinu í 20 mín.
2. Hitið ofninn í 200°C. Smyrjið eldfast mót með ólívuolíu og bakið tómatana í 10 mín.
3. Setjið allt sem á að fara í salatdressinguna, nema olíuna, í krukku með loki og hristið vel. Bætið síðan olíunni við og hristið aftur.
4. Skerið kartöflurnar í tvennt, setjið í salatskál og blandið dressingunni saman við.
5. Skellið baununum í sjóðandi vatn í 10 mín. og kælið síðan undir kaldri bunu í 1 mín. Setjið saman við kartöflurnar, túnfiskinn og tómatana.
6. Rífið ferska basilíku yfir og berið fram stax.
Með þessu er afskaplega gott að fá sér nýbakað og brakandi brauð og góðan rjómaost.
miðvikudagur, 9. október 2013
Gulróta & appelsínumöffins
Þessa uppskrift gerði ég nú eiginlega fyrir tilviljun. Mig langaði að gera gulrótaköku, en síðan breyttist það í að gera möffins og að lokum endaði ég á að útbúa gulróta & appelsínumöffins.
Þessar múffur eru bragðgóðar og djúsí og appelsínubörkurinn og safinn lyfta þeim verulega. Þær eru hins vegar aðeins meira maus en hefðbundnari gulrótamöffins því maður aðskilur eggjahvítur frá eggjarauðum og stífþeytir hvíturnar, og ekki má gleyma að minnast á appelsínubörkinn sem maður raspar varlega niður. En ef maður getur gefið sér góðan tíma í baksturinn launar hann sig alltaf að lokum.
Þessi uppskrift er í tíu möffins, svo það er um að gera að tvöfalda hana ef von er á mörgum gestum.
HVAÐ
Deigið:
2 egg, hvítur aðskildar frá rauðum
100 g smjör, við stofuhita
100 g púðursykur
1 (lífræn) appelsína, safinn + börkurinn
100 g hveiti
1 tsk lyftiduft
70 g valhnetur (+ auka fyrir skraut), saxaðar
1 tsk kanill
1/4 tsk þurrkað engifer
1/4 tsk múskat
160-170 g rifnar gulrætur
Kremið:
200 g rjómaostur, við herbergishita
60 g flórsykur
1 tsk vanilla
1/4 tsk salt
HVERNIG
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Raspið börkinn utan af allri appelsínunni og leggið til hliðar. Kreistið safann úr appelsínunni og setjið til hliðar.
3. Stífþeytið eggjahvíturnar í skál og setjið til hliðar.
4. Í stórri skál hrærið saman smjör og púðursykur þar til hræran verður létt og tekur á sig ljósari lit.
5. Bætið einni eggjarauðu út í blönduna í einu og hrærið vel saman við.
6. Bætið appelsínusafa og berki út í.
7. Hrærið hveiti og lyftidufti saman við.
8. Bætið hnetum, kryddi og gulrótum saman við.
9. Hrærið að lokum eggjahvítunum varlega saman við deigið með sleif.
10. Deilið deiginu út í möffinsform og fyllið tvo þriðju af hverju formi.
11. Inní ofn í 40-50 mín. Athugið að þegar múffurnar koma úr ofninum eru þær töluvert blautar í miðjunni en stífna við það að kólna.
12. Á meðan múffurnar bakast er ráð að útbúa rjómaostskremið. Hrærið öllu saman og geymið inní ísskáp.
13. Þegar múffurnar hafa fengið að kólna nægilega (45-90 mín) sprautið þá kreminu úr sprautupoka yfir hverja múffu fyrir sig. Skreytið með söxuðum valhnetum.
mánudagur, 7. október 2013
Helgarpistillinn
Eplin hanga þung neðan úr trjánum þessa dagana. Við tókum hring um hverfið um helgina til að heilsa upp á eplatrén og sjá hvernig eplunum reiðir af í mildu haustinu. Eins og sjá má á myndinni að ofan eru eplin bústin og sæl og dafna vel í heiðríkjunni, rétt eins og við mannfólkið.
Í labbitúrnum gengum við framhjá einu eplatré sem stóð utarlegar á lóðinni, með eplum prýddar greinar slúttandi yfir girðinguna. Við litum laumulega í kringum okkur, hölluðum okkur svo yfir girðinguna og seildumst í eplið sem var okkur næst, bústnasta og stinnasta eplið á öllu trénu. Baldur stakk því inn á sig og síðan gengum við flautandi og lallandi með hendur í vösum frá trénu. Þegar við vorum komin í hvarf drógum við fram eplið og fengum okkur bita.
Hamingjan hjálpi mér! Þvílíkt epli!
Besta epli sem ég hef smakkað, hands down.
Í kvöldmatinn voru líka epli, jarðepli. Ég hafði útbúið franskt sumarsalat úr kartöflum og túnfiski og ofnbökuðum litlum tómötum sem var afskaplega gott.
Af öðrum afrekum helgarinnar má nefna að ég bakaði hjónabandssælu. Með jarðarberjasultu. Því svo virðist vera sem rabbarbarasulta sé ekki fáanlega í búðum í Noregi.
Oh well, hún var samt fantagóð.
föstudagur, 4. október 2013
Mexíkóskt lasanja
Föstudagsuppskriftin þennan föstudaginn er algjört dúndur: Mexíkóskt lasanja!
Jömmjömmjömmjömm, jömmjömmjööööööm!
Þetta er að sjálfsögðu grænmetisútgáfa af þessum fína rétti, because that's just how I roll baby. Ég fann upp á því að útbúa svolítið sem ég kalla linsuhakk og er þessa dagana að setja út í allt: lasanja og lasagnette, spagetti bolognese, taco, mexíkóskar grýtur, ofan á pizzur...
Ég studdist við uppskrift Evu Layfeyjar þegar ég eldaði þetta fína lasanja, en - tada! - linsuhakksuppskriftin er úr minni smiðju.
Einn kosturinn við þessa uppskrift er að það má útbúa allt það helsta vel fram í tímann og geyma það í pottinum fram að þeim tíma sem maður þarf að stinga réttinum í ofninn. Þá á bara eftir að raða ofan í eldfasta mótið sem er alls ekki tímafrekt, og rétturinn verður bara betri við það að dúlla sér í pottinum í nokkra tíma. Svona uppskriftir elska ég!
HVAÐ
Linsuhakk:
300 g linsur, brúnar eða grænar (thekitchn er með upplýsingar um linsur)
1 lítill laukur eða hálfur venjulegur (svona 50 g), saxaður
2-3 hvítlauksgeirar, marðir
4 tsk þurrkuð papríka
2 tsk season all
1,5 bolli vatn
2 x Taco seasoning mix í pakka
Lasanja:
1 meðalstór rauðlaukur, smátt saxaður
1 rauð papríka, smátt söxuð
1 græn papríka, smátt söxuð
8-10 sveppir, niðurskornir (ég sker þá reyndar alltaf í fína teninga)
1/4 rautt chili, fræhreinsað og smátt saxað
1 dós niðursoðnir tómatar
350 g salsa (það má líka nota heimagerða sölsu)
1 dós maísbaunir
4 msk hreinn rjómaostur
2-3 msk kóríander, smátt saxað (ég nota oft þurrkað kóríander með góðum árangri)
Salt og pipar
6 litlar tortillur
Rifinn ostur
Nachosflögur, saltaðar
HVERNIG
Linsuhakkið:
1. Leggið linsur í bleyti í allt að 8 tíma. Ef þið hafið ekki svo mikinn tíma fyrir ykkur má alltaf leggja þær í bleyti í heitt vatn í 1-2 tíma.
2. Hellið af linsunum og skolið þær vel.
3. Steikið lauk og hvítlauk á pönnu í 5 mín.
4. Bætið við þurrkaðri papríku og season all, hrærið vel saman.
5. Bætið linsunum út í og hrærið vel við laukinn.
6. Hellið vatninu yfir. Hjá mér er það þannig að 1,5 bolli dugar vel til að það rétt fljóti yfir linsurnar, sem er einmitt það sem við viljum.
7. Leyfið suðunni að koma upp, lækkið svo í 3/6 og leyfið að malla í 20 mínútur undir loki.
8. Eftir 20 mínútur hrærið vel í hakkinu. Smakkið linsurnar til að athuga hvort þær séu ekki örugglega eldaðar (eiga að vera mjúkar undir tönn). Ef hakkið er þurrt þarf að bæta vatni útí fyrir næsta skref, en ef það er góður raki í hakkinu má bíða og sjá.
9. Bætið báðum pökkunum af Taco kryddinu og hrærið vel saman. Hér er bara að sjá hvort þurfi vatn eða ekki til að hjálpa kryddinu að ganga vel saman við hakkið. 1-2 dl gætu dugað.
10. Leyfið að standa á 2/6 í 10 mínútur.
Lasanjað:
1. Hitið ofninn upp í 180°C.
2. Á meðan hakkið eldast er hægt að byrja að lasanjasósunni. Í góðum potti steikið lauk, papríku, chili og sveppi í 5-10 mínútur.
3. Bætið útí tómötum, maísbaunum og sölsu og hrærið vel saman.
4. Bætið útí rjómaostinum og blandið honum vel saman við.
5. Bætið við kóríanderinu.
6. Bætið nú við öllu linsuhakkinu og hrærið vel saman.
7. Smakkið réttinn og saltið, piprið og bragðbætið að eigin smekk.
8. Nú hefst gamanið! Takið fram eldfast mót og raðið í lög: tortillur, linsuhakk, rifinn ostur.
9. Mér finnst gaman að skreyta með nokkrum flögum af þurrkuðu kóríander yfir ostinn. Svo má stinga tortilla flögum niður með forminu til að lyfta réttinum upp.
10. Inní ofn í 25-30 mínútur.
Við borðum þetta fína lasanja alltaf með ferskum avókadó, sýrðum rjóma, góðri sölsu og nachos.
miðvikudagur, 2. október 2013
Ostamöffins
Þessi uppskrift kemur úr bók Sollu Eiríks, Grænum kosti Hagkaupa.
Þessar múffur eru æði! Þær eru mjúkar, feitar og saltar, og það er svo auðvelt að henda í þær. Ekta haust- og vetrarverk að baka svona möffins.
Ég fékk 12 múffur út úr uppskriftinni, en kannski væri ráð að stefna heldur á 10 og fá hverja og eina til að rísa betur.
HVAÐ
125 g spelt
75 g maísmjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
0,5 tsk salt
150 g ferskur parmesanostur, rifinn
2 egg
50 ml ólívuolía
250 ml AB-mjólk
HVERNIG
1. Hitið ofninn í 200°C.
2. Blandið þurrefnum og rifnum osti saman í skál.
3. Þeytið eggin vel saman í annarri skál, þar til þau verða létt og freyðandi. Solla segir að leyndarmálið sé að þeyta eggin nægilega vel áður en við blöndum restinni út í.
4. Bætið olíu og AB-mjólk útí þurrefnaskálina og blandið varlega saman.
5. Bætið eggjahrærunni útí og blandið varlega saman.
6. Smyrjið möffinsform með olíu og deilið deiginu í 10 hólf.
7. Bakið múffurnar í 20 mín.
Þessar múffur eru æðislegar einar og sér, en síðan eru þær virkilega góðar með mat eins og súpu eða matmiklu salati. Mæli með þeim við þriggja bauna salat.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)