sunnudagur, 30. apríl 2006

Aprílannáll

Það er komið að samantekt mánaðarins. Ég held mig við það form sem annálarnir hafa tekið síðustu þrjú skiptin, þ.e. byrja að tíunda fréttir úr heimi bókmennta og kvikmynda og tek síðan fyrir hnitmiðaða upprifjun á helstu atburðum. Hljómar þetta ekki ábúðarfullt? Ég ætla rétt að vona það.

Mér tókst að ljúka við þrjár bækur í apríl og er nokkuð sátt við þá frammistöðu, einkum ef ég ber hana saman við marsmánuð með sína einu bók. Ég las Himnaför eins og ég hef þegar greint frá og hafði gaman af. Sú ánægja var ekki síst tilkomin af gleðinni yfir að fá nýja bók sem maður tekur úr plastinu, les og kemur síðan haganlega fyrir í bókahillunni að lestri loknum.

Á bókasafninu fann ég stóran og mikinn doðrant sem mér leist dável á. Ég er nefnilega ein af þeim sem dæmir bækur mikið til eftir þykkt. Um var að ræða bókina All My Sisters eftir Judith Lennox, sögusviðið er England og Ceylon (nú Sri Lanka) fyrir, um og eftir fyrri heimsstyrjöld. Í stuttu máli sagt fjölskyldudrama með stóru F-i.

Þannig bækur höfða til mín svo strax og ég hafði lokið við söguna fór mín aftur á safnið og þefaði uppi næsta doðrant eftir sama höfund, Written on Glass. Sama sögusvið (fyrir utan Ceylon reyndar) nema önnur tímasetning: eftir seinni heimsstyrjöld. Þrátt fyrir að hafa notið þess að lesa þá bók líka held ég að ég segi það gott í bili af verkum frú Lennox, ég hef hreinlega ekki tíma til að lesa fleiri klumpa í andarblikinu.

Ég sá margar áhugaverðar kvikmyndir í apríl. Sumar hafði ég nú séð áður en vildi endilega kíkja á aftur, eins og t.d. hina óborganlegu Tilsammans, klassíkerinn Falling in Love og í veikindunum Lion King, hún læknar kramið hjarta og flensupest.

Þar sem þema mánaðarins var páskar í öllu sínu veldi tengdum við glápið inn á þá bylgjulengd og á Föstudaginn langa sáum við The Passion of the Christ og eins og áður var greint frá fór Charlie and the Chocolate Factory í tækið á páskadag sjálfan.

Af öðrum myndum má nefna hina furðulegu Napoleon Dynamite, Woodie Allen myndina Manhattan, óskarsverðlaunamyndina Crash og nýjasta uppáhaldið mitt: Corpse Bride. Svo munu tvær til viðbótar bætast á listann í kvöld: Million Dollar Baby og In her shoes.

Í almennri samantekt má nefna að mánuðurinn byrjaði á púkalátum sumra heimilismeðlima á alþjóðlegum degi prakkara þann 1. apríl. Ég lét það ekki mikið á mig fá og hélt ótrauð inn í það verk að byrja að greina viðtölin fyrir MA verkefnið mitt. Var til að byrja með á áætlun en er það hins vegar ekki lengur (gisp).

PG kom í heimsókn til Kaupmannahafnar og kíkti með okkur skötuhjú á veitingastaðinn Vesuvio við Rådhuspladsen þar sem við fengum ljúffengan ítalskan mat. Þá kíktum við Baldur á okkar fyrsta LC fund hjá UNIC og heyrðum af upplifun Rolfs af Indlandi, lentum í nágrannaerjum vegna þvottar, hittum Pétur & Valeryi á skírdag, þefuðum uppi páskahéra á páskadag og vörðum restinni af þeim degi með Stellu & Áslaugu Eddu.

Að lokum má nefna að við sóttum AIESEC ráðstefnu á Suður-Jótlandi, veiktumst og láum í sleni en héldum þó afmælisdaginn heilagann.

Hér að neðan eru síðan nokkrar myndir frá þessum viðburðaríka mánuði, njótið :0)

Lesið heima

Skriflegar nágrannaerjur

Afmælisdinner í öllu sínu veldi: borgarar og bakaðar kartöflur, namm

Matseðillinn meðan flensupestin var í heimsókn

Engin ummæli: