mánudagur, 28. júní 2004

Nú liggja Danir í því!

Horfði á leikinn í gær. Ekkert smá taugastrekkjandi, ég hélt með Dönum. Ég verð þó að játa að Tékkarnir áttu þennan sigur innilega skilinn. Þeir eru með langskemmtilegasta liðið af þeim sem eftir eru svo nú held ég með þeim.

mánudagur, 21. júní 2004

Mikið fjör

Undanfarna daga hef ég þurft að nota nefúðann minn fremur mikið vegna einhvers konar heykvefs. Þetta úðadót gerir nefið viðkvæmt. Þegar ég kom heim úr vinnunni hinn kátasti tók nefið á mér upp á því að sturta niður úr sér ágætis slurk af ryðguðu vatni. Ég tók því nú bara með ró og tróð öllu tiltæku í nösina og lagðist sallarólegur á gólfið.

Þegar það versta var afstaðið fór ég, hinn upplýsti háskólaborgari, að leita mér upplýsinga og fann ýmislegt sniðugt á doktor.is. Textahöfundur gerir greinilega ekki ráð fyrir að fólk á mínum aldri lendi oft í þessu. Ég er nú ekkert að stökkva upp á nef mér út af því, oseiseinei.

fimmtudagur, 17. júní 2004

Þjóðhátíð, fyrsti hluti

Jæja, nú erum við búin með hluta af þessari þéttu dagskrá okkar. Fórum í kirkjugarðinn og marseruðum þaðan í skrúðgöngu niður á Austurvöll þar sem haldnar voru ágætar ræður, lúðrar þeyttir og þjóðsöngurinn sunginn. Gaman, gaman! Hittum líka slangur af skemmtilegu fólki :) Skipti, út og yfir...

Gleðilega þjóðhátíð!

Veðrið er vægasta sagt geeeegggjjaaað núna, heiðskír himin og sólskin. Ég man ekki eftir öðrum eins 17. júní. Nú er bara að vona að það endist eitthvað út daginn. Þessi 17. júní skal nefnilega vera tekinn með trompi.

Ég er búin að strauja tvær skyrtur, buxur og sumarkápuna mína og nú er bara að ákveða í hverju ég ætla að vera. Nú má ég ekki vera að þessu því við þurfum að fara að leggja af stað eftir tæpa klukkustund og Baldur liggur enn upp í rúmi, hann sagði við mig: Ég ætla að liggja aðeins lengur, ég er að hugsa! Góður þessi.

Til hamingju með daginn Íslendingar!

miðvikudagur, 16. júní 2004

Hátíðarhöldin skipulögð

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er að finna dagskrá hátíðarhaldanna þann 17. júní. Það sem mér finnst einstaklega skemmtilegt við uppsetningu dagskránnar að þessu sinni er að maður getur hakað í þá viðburði sem maður hefur áhuga á og þannig útbúið sína eigin dagskrá sem maður síðan prentar út eða fær senda í tölvupósti. Þetta erum við Baldur að plana að gera:

Dagskrá 17. júní

Samhljómur kirkjuklukkna í Reykjavík
09:55

Í kirkjugarðinum við Suðurgötu
10:00
Forseti borgarstjórnar, Árni Þór Sigurðsson, leggur blómsveig frá
Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar Lúðrasveitin Svanur leikur: Sjá
roðann á hnjúkunum háu Stjórnandi: Rúnar Óskarsson Skátar standa
heiðursvörð

Hátíðardagskrá við Austurvöll
10:40
Hátíðin sett: Anna Kristinsdóttir, formaður Þjóðhátíðarnefndar, flytur
ávarp Karlakórinn Fóstbræður syngur: Yfir voru ættarlandi. Stjórnandi:
Jónas Ingimundarson Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, leggur
blómsveig frá íslensku þjóðinni að minnisvarða Jóns Sigurðssonar á
Austurvelli Karlakórinn Fóstbræður syngur þjóðsönginn Ávarp
forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar Karlakórinn Fóstbræður syngur: Ísland
ögrum skorið Ávarp fjallkonunnar Lúðrasveitin Svanur leikur: Ég vil
elska mitt land Kynnir er Adólf Ingi Erlingsson og Ríkisútvarpið sendir
dagskrána út í útvarpi og sjónvarpi

Skrúðganga frá Hlemmi að Ingólfstorgi
13:40
Skrúðganga frá Hlemmi niður Laugaveg að Þingpalli. Lúðrasveit
verkalýðsins og Jarren Hornmusik leika og Götuleikhús Hins Hússins og
Félag blómaskreyta taka þátt í skrúðgöngunni

Danssýning á Þingpalli
14:00
(Svið á plani vestan Alþingishúss og norðan Ráðhúss) Ýmsir danshópar og
dansskólar sýna dans: Klassíski listdansskólinn Dansstúdíó Sólveigar
Dansíþróttafélagið Gulltoppur ÍR Dansdeild Jazzballlettskóli Báru
Magadansfélag Íslands Adrenalín gegn rasisma 5th Element
Magadansdísirnar Kynnir er Bogomil Font

Kraftakeppni á Miðbakka
14:00
Trukkadráttur í keppninni Sterkasti maður Íslands. Gerð verður tilraun
til að setja heimsmet í trukkadrætti, 56 tonn

Glíma á Þingpalli
16:00
(Svið á plani vestan Alþingishúss og norðan Ráðhúss) Lýðveldis- og
heimastjórnarmót Glímuráðs Reykjavíkur

Tónleikar á Arnarhóli
20:00
Mammút Á móti sól Írafár Hljómar Kalli Bjarni Bang Gang Love Gúrú Bubbi
Mothens Ensími

Gaman, gaman bráðum kemur 17. júní!

E.s. Til hamingju með afmælið María G. :)

þriðjudagur, 15. júní 2004

Erindi og ný aðstaða

Ég hélt erindi í gær á málstofu sem var á vegum Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK). Málstofan kallaðist Local Communities - Global Relations: Gender Theory.

Erindið hélt ég fyrir hönd Unnar Dísar sem var fjarverandi og kallaðist það Immigrants' Experiences in Iceland, unnið upp úr rannsókn Unnar. Málstofuna sátu ungar konur frá Eistrasaltslöndunum og því varð erindið að vera á ensku. Ég verð að viðurkenna að ég var ansi stressuð yfir því. Þetta gekk þó allt ljómandi vel en mikið var ég fegin þegar því var lokið.

Í dag er ég síðan að fara að kaupa afmælisgjöf og ná í spennandi pakka á pósthúsið. Ég fæ einnig afhent aðgangsorð í aðstöðu MA nema í Odda en um daginn var mér loksins úthlutað borði þar, kem til með að sitja í aðstöðu nr. 20. Sem sagt margt að gerast.

mánudagur, 14. júní 2004

Helgin

Við gerðum margt skemmtilegt þessa helgina og vorum óvenju dugleg í félagslífinu (að mingla alt svo). Föstudagskvöldið var reyndar ekkert óvenjulegt þar sem við hittum Grísalindsgengið. Að þessu sinni var þó farið á Kínahúsið og borðaður góður matur.

Þegar í Svínalind var komið tókum við pörin í smá Scrabble og sannast sagna burstaði ég þau hin :) Snjólaug þurfti þó að aðlagst okkar spilavenjum þar sem við notum alltaf orðabók til að fletta upp í, ekki aðeins til að athuga stafsetningu og slíkt heldur einnig til að finna hugsanleg orð úr stöfunum okkar.

Þetta hefur reynst mjög lærdómsfull venja að ég tali nú ekki um vinsæl því það lá stundum við slagsmálum vegna hennar (smá ýkjur). Hér er smá sýnishorn af hinum skemmtilegu og skrýtnu orðum sem við rákumst á í orðabókaflettingum okkar:

* Kiddur; Kindur, þetta kom frá Andra sem vildi reyndar bæta um betur með því að reyna að sannfæra okkur um að grasakiddur væri gilt orð
* Hneita; 1. Þekjast hneitu 2. hvítur sykurkristall á sölvablöðum
* Svaða; Hálka
* Vás; Vos
* Grútarbiblía; Biblíuútgáfa frá 1813 þar sem misprentaðist Harmagrútur fyrir Harmagátur
* Árarhlummur; Árar
* Hundabuna; Fyrsta bunan þegar belja er mjólkuð
* Porsbjörk; Runni sem vex í Miðjarðarhafslöndum
* Popplín; Tegund af líni
* Ponza; Smástelpa eða stelpuangi
* Fruska; Hirðulaus kona, ósnyrtileg
* Fox; Norn, meinhorn
* Foxgras; Skollapunktur
* Flágella; Klípa

Á laugardaginn fór ég út að borða með gellunum úr Rauða krossinum. Við kíktum á Maru og þar smakkaði ég sushi í fyrsta sinn. Ég borðaði líka með prjónum í fyrsta sinn og var steinhissa hve leikin ég var orðin undir lokin. Við fengum m.a. grillaðan lax marineraðan í misó sem var algjört lostæti, hann hreinlega bráðnaði í munninum. Mæli með´onum.

Sunnudagurinn var svo tekinn með trompi. Við Balduro mio fórum í góðra vina hópi í dágóðan rúnt út fyrir bæinn. Með í för voru Pétur og Valeriya, Kalli (litli) og froskarnir. Planið var að fara upp í Borgarnes, snara þar nokkra hesta og fara síðan að grilla (ekki hestana þó). Þegar við komum þangað sem hestana var að finna byrjaði að sjálfsögðu að rigna og hvessa og þau okkar sem ekki voru undir þessa hestavinnu búin þurftu að leita í birgðir Péturs og Valeriyu þar sem þau höfðu komið með hanska, peysur og sokka fyrir allt liðið (þau voru líka þau einu sem vissu út í hvað við vorum að fara).

Til að gera langa sögu stutta þá blotnuðum við öll í fæturna við að reka hestana inn í girðingu en skemmtum okkur ágætlega. Við grilluðum síðan í Hvalfjarðarbotni í grænni laut við lækjarnið. Góðar stundir.

Gott lag

Ef þið hafið tíma til að hlusta á snillinginn Eric Idle úr Monty Python syngja hugljúft lag, smellið þá hér.

mánudagur, 7. júní 2004

Vinna

Fyrsti dagurinn í vinnunni var í dag. Ég hitti aðra flokkstjóra og við tókum aðeins á arfanum saman. Næstu daga verð ég á hinum ýmsu námsskeiðum, stjórnun, skyndihjálp og gróðurfræðslu einhverskonar. Á föstudaginn mæta svo hóparnir mínir til mín og ég ákveð hverjir verða fyrir hádegi og hverjir eftir. Ég er að hugsa um að raða miðum í körfu og láta fólk draga um hvort það verði fyrir eða eftir hádegi. Þetta verður gaman, ég finn það á mér.

Sjómannadagurinn

Við byrjuðum þennan ágæta sjómannadag á því að slá grasið hjá Pétri afa. Þrátt fyrir að Stella Soffía hafi komið og hjálpað okkur veiddum við engan túnfisk (hihi). Eftir sláttinn var við hæfi að þvo sér og þar sem sólin skein skært lá beint við að skella sér í sund, sem við gerðum. Það var reyndar engin tilviljun að við og Stella værum öll stödd á sama stað, á sama tíma með sunddót. Nei þetta var sko planlagt.

Eftir laugarbusl og heimsókn á bókasafn Kópavogs lá leið okkar niður í bæ. Þegar við vorum komin niður að Tjörn sáum við nokkrar einstæðar mæður af busl- og kafandastofni, nánar tiltekið stokkandar- og æðarkollur, og var ein þeirra með 13 unga. Þessum fuglum ásamt nokkrum frábærum gæsum og álftum gáfum við eitt kíló af brauði.

Þá gengum við á Austurvöll þar sem var gríðargóð stemning og fullt af fólki. Þar tjilluðum við um stund en skutumst á höfnina til að skoða dauða fiska í klakafylltum fiskikörum. Þarna voru ýmsar tegundir sem ég hafði ekki barið augum fyrr ásamt gamalkunnum félögum. Tvö fiskinöfn koma strax í hugann og eru það urrari og bjúgtanni. Eins og þetta eru voldug nöfn þá voru þetta pínulitlir fiskar, bjúgtanninn var minni og ljótari.

Þegar þarna er komið sögu ákváðum við að fara í bókabúð og eins og venjulega fórum við út með meira heldur en við komum með inn. Ég fann nefnilega eitt stykki Kjartan á tilboði. Tilboðið var: Fáðu einn Kjartan og far heim fylgir með. Hver getur hafnað svona yfirnáttúrulegu tilboði? Mér er spurn.

sunnudagur, 6. júní 2004

The One Where Ásdís Almost Got a Bike

Já, í dag var ég næstum orðinn stoltur eigandi nýs fjallahjóls, 26" og 21 gíra. Við sáum nefnilega fjallahjól auglýst í Bónus á mjög svo viðráðanlegu verði og drifum okkur því að kíkja á þau. Hjólin reyndust vera ágæt - allavega nógu góð fyrir mig - svo eftir miklar athuganir festum við kaup á einu þeirra.

Það var þó ekki fyrr en við komum út með gripinn að við uppgötvuðum okkur til mikillar armæðu að hjólið virtist vera hannað fyrir frekar smávaxið fólk því hnakkinn á hjólinu var aðeins hægt að hækka um nokkra sentimetra. Ekki er ég nú mjög hávaxin manneskja en þó greinilega of löng fyrir hjólið því þrátt fyrir að við settum hnakkinn í hæstu stillingu reyndist það ekki nóg.

Við urðum því að skila því og nú er ég enn sem áður hjólalaus. Ég held þó að Baldur sé svekktastur því hann veit hvað þetta þýðir: Ég fæ hjólið hans á meðan hann fær að skottast á mínu eldgamla, níðþunga fermingarhjóli.

Jæja, má ekki vera að þessu, verð að fara að glápa á Friends. Við vorum að enda við að horfa á síðasta þátt níundu seríar og það þýðir bara eitt, við verðum að horfa á næsta þátt!

laugardagur, 5. júní 2004

Nightswimming

Sit í rólegheitunum með múmínbollann minn fullan af bangsatei. Er þægilega slakur eftir sundferð og ís með Svenna. Dæsidæs. Það eina sem er viðeigandi eftir þetta er fullkominn nætursvefn. Eða eins og snillingarnir í REM útfærðu það í einu af sínum frábæru lögum á plötunni Automatic for the People: Nightswimming deserves a quiet night.

fimmtudagur, 3. júní 2004

Oh, hvað er að póstinum?

Þetta var það fyrsta sem Baldur sagði þegar við stigum inn fyrir hússins dyr eftir góða æfingu í Þrekhúsinu. Hann hélt á póstkorti og einblíndi á það reiðilega. Ég leit yfir öxl hans og sá að hann hélt á póstkorti með ósköp sætri kisu framaná, kisu sem lá á litlum sólbekk og hafði það huggulegt.

Eitthvað kannaðist ég við þetta póstkort... já, póstkortið sem við sendum Stellu og Kristjáni frá Frakklandi. Hmm... hvað var það að gera hér hjá okkur? Í nokkur fleiri andatök starði Baldur reiðilega á kortið á meðan ég braut heilann um hvernig í ósköpunum kortið hefði ratað inn um okkar lúgu. Vissi pósturinn að Stella og Baldur væru systkin og ákvað að stríða okkur aðeins? Eða höfðu Stella og Kristján sjálf komið með kortið yfir sem skilaboð til okkar: ekki fleiri póstkort!!?

Æ, útskýringin var ósköp einföld, Balduro mio, mesta krútt í heimi, hafði skrifað okkar heimilisfang á kortið. Já, lífið er dásamlegt þegar Baldur er nærri :)

Tuskur og handlóð

Í gær vorum við sett í að hreinsa ruslageymsluna hér á Eggertsgötu 28. Ástæðan var einföld: Vorhreingerning húsfélagsins. Reyndar ýki ég dálítið með því að segja við... það var sko Baldur sem tók að sér að skrúbba gólf ruslageymslunnar, ég aftur á móti hélt til í þvottahúsinu og reyndi að koma tuskunni sem ég hélt á í gagnið.

Þvert á það sem maður hefði kannski búist við var gaman að standa í þessu stórræði enda var stemmningin góð og allir lögðu sitt af mörkum við að gera þessa sameigin og nánasta umhverfi okkar vistlegra.

Ekki veit ég hvort hreingerningarnar tóku svona mikið á en einhverra hluta vegna sváfum við yfir okkur í morgun. Það kemur þó ekki að sök, Baldur er ekki byrjaður að vinna og ég get blessunarlega mætt hvenær sem mér sýnist. Því ætla ég að halda við planið sem gert var í gærkveldi þegar ráðgert var að vakna fyrr raunin varð, þ.e. fara að lyfta. Axlir og handleggir eru orð dagsins.

þriðjudagur, 1. júní 2004

Sumarið er tíminn

Þá er fyrsti vinnudagurinn liðinn og gekk hann vel að vanda enda er ég þaulvön þessari akademísku skrifstofu-altmúligtvinnu. Fyrsti dagurinn fór að megninu til í skipulagsvinnu og tiltekt enda fátt betra til að koma sér í gírinn en að hafa allt í röð og reglu. Ég lagði líka örfín drög að námsskipulagi fyrir sumarið þar sem ég ætla að nýta það í að koma meistaraverkefninu á skrið. Það vill svo heppilega til að vinnan mín tengist náminu svo að í því tilviki má segja að ég hæfi tvær flugur í einu höggi :)

Seinni part dags horfðum við Baldur á kvikmyndina 101 Reykjavík og lengi á eftir komst ekki annað að hjá okkur en lagstúfurinn Lola, lalalala Lola, lalalala Lola... Frábær mynd í alla staði sem ég mæli með. Victoria Abril er algjör töffari.

Um kvöldið kíktum við síðan í þriðjudagssoðninguna hjá Pétri afa. Maturinn bragðaðist vel sem endranær og selskapurinn var góður. Þessi fyrsti dagur júnímánaðar (sem mér finnst vera hinn eiginlegi fyrsti sumardagur) var því afbragðsgóður og ef hann gefur tóninn af því sem koma skal segir ég bara: bring it on!