mánudagur, 29. september 2003

Umræðutími

Var að koma úr umræðutíma í stjórnun. Gekk geðveikt vel, enda heitir hópurinn okkar Besti hópurinn, rís meira að segja undir nafni (hehe). Það var einmitt frekar fyndið um daginn þegar kennarinn, Vilborg, var að lesa upp hópana. Hvar er besti hópurinn? Ég sá að alla langaði að svara en við vorum besti hópurinn og vorum þau einu sem þorðu að hlýða því kalli.

laugardagur, 27. september 2003

Vantar einhvern ísskáp?

Nú erum við búin að taka upp úr aðalkössunum, búin að flytja lögheimilið, búin að kaupa þau húsgögn sem vantaði mest. Eldhúsborðið, stólana og hillurnar fengum við í Ikea. Við settum líka upp Lundia eininguna okkar en þurftum að kaupa svona krossasystem til að hún geti staðið sjálf, það má nefnilega ekki skrúfa neitt í veggina í þessari ágætu íbúð.

Ég sit nú í vinnunni en Ásdís stendur í eftirmálum flutninga.

Ef einhvern vantar fínan ísskáp þá ætti sá hinn sami að hafa samband við mig eða Ásdísi.

fimmtudagur, 25. september 2003

Flutt! (story of my life)

Fengum íbúðina afhenta degi fyrir tímann svo gærdagurinn, sem átti að fara í að pakka, fór í það að flytja allt saman yfir á nýja staðinn. Við fengum frábæra hjálp frá góðum ættingjum. Pétur afi ferjaði allt matarbúrið okkar, mamma þreif ísskáp og raðaði í skápa og pabbi og Andri komu á stóra trukknum frá JB og þeir ásamt Balduro mio mössuðu rúminu, sófanum, kommóðunni og öllum þessu stóru hlutum úr Hrauntungunni yfir á Eggertsgötuna. Við fylltum heilan sendibíl af dótinu okkar og þá blöskraði mér alveg, hvernig er hægt að eiga svona mikið drasl/dót?

Við vöknuðum svo í nýju íbúðinni í morgun og það var ágætlega góð tilbreyting að vilja ekki fara fram úr rúminu af því það var svo svalt í herberginu. Það er sem sagt gluggi á svefnherberginu og hann virkar!

Við erum þó langt frá því að vera búin að koma okkur fyrir, allt er enn í kössum og maður var ansi ringlaður í morgun, gramsandi í kössum eftir mat í svangan malla. Ég endaði á því að borða sem minnst (er haldin maníum eins og æ, ég nenni ekki að borða) og dreif mig út í Odda til að komast á netið og sjá hversu ómissandi ég var þennan eina dag sem ég komst ekki á netið.

Í tölvuverinu fékk ég óvæntan morgunverð, jarðarberja ab-mjólk sem ein stelpan, sem sat við hliðina á mér, missti yfir alla höndina á mér. Í staðinn fyrir að sleikja hana upp og fá smá næringu fannst mér réttast að þrífa hana af, ég held að flestir hefðu gert það :)

Í dag setjum við síðan markið á að versla húsgögn. Okkur vantar nebbla eldhúsborð og stóla, bókahillur og aðstöðu fyrir tölvuna. Svo væri skemmtilegra að hafa gardínur í gluggum.

Og svo ætlum við að skipta um lögheimili og póstfang og þannig kveðja Húsavík (hahahahaha).

þriðjudagur, 23. september 2003

Pamfílar -framhaldið

Hver man ekki eftir hinum dularfulla lista sem nefndur hefur verið hér á heimasíðunni oftar en í tvígang. Við vorum á þessum lista til að fá íbúð á Stúdentagörðum. Hann heyrir nú sögunni til. Ástæðan fyrir því er góð og gild. Í gær var hringt í Ásdísi frá Stúdentagörðum og henni tilkynnt að íbúð hefði losnað sem hentaði okkur.

Við skunduðum til að skoða íbúðina um ellefuleytið, leist vel á og skráðum okkur hana. Við áttum alls ekki von á að þetta myndi ske fyrr en um áramót þar sem við vorum enn í tíunda sæti. Svona er það nú bara hjá pamfílunum.

Við fórum því í 10-11 og fengum fullt af kössum og erum byrjuð að pakka smá. Það eru nú samt blendnar tilfinningar sem fylgja þessu öllu saman því ekki eru nágrannar eins og Eygló og Maggi á hverju strái. Maður vonar bara það besta og smælar framan í heiminn. Því eins og meistari Megas sagði réttilega: Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig.

mánudagur, 22. september 2003

Lukkunar pamfílar

Á laugardagseftirmiðdag vorum við heima að ganga frá í rólegheitunum þegar síminn hringdi. Var það María, frænka Ásdísar, að bjóða okkur í leikhús. Það er nú ekki alveg á hverjum degi sem manni er boðið sisona og ekki þarf að taka fram að við þáðum miðana með þökkum. Í leikhúsinu skemmtum við okkur konunglega, enda ekki annað hægt þegar Erling er annars vegar.

Í gær stóðum við líka í stórræðum. Þannig er nefnilega mál með vexti að foreldrar Sigrúnar hans Andra voru eitthvað að endurnýja sófamálin hjá sér og hafði Sigrún boðið okkur gamla sófasettið í heild sinni. Í gær fórum við sumsé og sóttum allt heila gilimóið og þökkuðum fyrir okkur. Ekki amalegt sófasett þarna á ferðinni, eins og nýtt og úr svakafínu leðri.

Sófasettið fórum við með í geymslu til Péturs afa. Ekki virtist lukkan ætla að taka endi því afi bauð okkur út að borða Á næstu grös. Þar fengum við þennan svaka fína mat og eftir hann röltum við á Súfistann, drukkum súkkulaðikaffi, lásum góðar bækur og kjöftuðum.

Frábær helgi!

laugardagur, 20. september 2003

Af prímötum

Jæja nú er ég búinn í tímum í dag. Já það er kennt á laugardögum. Ég kemst að vísu bara annan hvern út af vinnunni en það er allt í lagi þar sem tvö af þremur fögum eru kennd annan hvern laugardag.

Þessa stundina sit ég á bókhlöðunni og er að lesa þjóðhagfræði. Bókin sem við notum er eftir Mankiw en hann er einmitt ráðgjafi Bush yngri. Ég hef heyrt að Bush eldri kalli stefnu Bush yngri voodoo economics. Það á hann víst að hafa sagt um stefnu Reagans á sínum tíma en sagt hefur verið að prógrammið hjá Bush yngri svipi til hennar. Kannski væri rétt að kalla Bush yngri barasta Bush baby.

Tekið skal fram að allt efni í þessari færslu er birt í fullkomnu ábyrgðarleysi og er eingöngu ætlað til skemmtunar.

föstudagur, 19. september 2003

Vitkinn talar

Ég þraukaði nú allan daginn í gær og er alltaf að hressast. Í morgun mætti ég meira að segja í ræktina! Jahá! Ég bara mætti í ræktina... Það er lítið mál að mæta en það er víst ekki það sama og að gera. Ég fór bara í gufuna á meðan Ásdís púlaði frammi. Það var alveg reglulega fínt.

Ég ætla ekki að hefja æfingar aftur fyrr en í næstu viku, enda djúpvitur eins og fram hefur komið. Eftir veikindin er líka nóg að gera í skólanum svo ég sinni honum bara meira í staðinn.

fimmtudagur, 18. september 2003

Skítaástand... og þó

Jæja nú er ég klæddur og kominn á ról! Ég held samt að ég sé of snemma í því.

Fyrir þá sem ekki hafa fengið lýsingu í beinni þá er ég búinn að liggja í flensurusli síðan á sunnudagskvöld. Því miður eru allar líkur á að ég geri það sama í dag :( Það er líka betra að vera seif en sorrí :)

Í gær dreymdi Ásdísi einhvern helling og þegar hún var búin að segja mér frá því sagði ég henni að þetta þýddi að nú yrði hún að kíkja á listann fræga. Hún kíkti og viti menn: við erum númer ellefu.

Þetta þýðir hvað? Jú þetta þýðir að Ásdís er berdreyminn og ég djúpvitur. Haha!

laugardagur, 13. september 2003

Góð kenning

Smvmkaæt rsónunkanm eknss hsókláa sipkitr röð sftaa í oðri egnu mlái, það enia sem mlái stkpiir er að fsrtyi og saðítsi sfaitunrn í hjevru oðri eru á rtéutm satð. Aagfgni snaftana er hgæt að vxlía og smat hgæt að lsea txaetnn án eireiðfkla.

Acocdrnig to an elgnsih unviesitry sutdy the oredr of letetrs in a wrod dosen't mttaer, the olny thnig thta's iopmrantt is that the frsit and lsat ltteer of eevry word is in the crcreot ptoision. The rset can be jmbueld and one is stlil able to raed the txet wiohtut dclftfuiiy.

fimmtudagur, 11. september 2003

Blæbrigðamunur

Mér líður nú svolítið eins og ég sé að leika í myndinni Groundhog Day. Hvers vegna? Þið komist að því þegar þið lesið færsluna.

Í gær eftir skóla fórum við Ásdís á Subway (nýtt) og svo í bíó á bresku kvikmyndadagana (enn og enn og aftur). Við sáum myndina Plots with a View (nýtt). Mæli með henni (gamalt). Fullt af hágæða leikurum sem fara á fullt af kostum.

Eins og sjá má er eilítill blæbrigðamunur á þessari færslu og þeirri sem ég skrifaði í gær. Hann mun þó ekki vera augljós og hefi ég því merkt sérstaklega við nýjungar og gamlungar. Þetta ætti að hjálpa lesendum að glöggva sig á hvað þarf að lesa og hvað ekki.

Að lokum ber að nefna að ef ég nefni hlutinn oftar en einu sinni er allt eins öruggt að hann sé til prófs. Hafið því augun opin.

miðvikudagur, 10. september 2003

Magdalenur

Í gær eftir skóla fórum við Ásdís í bíó á bresku kvikmyndadagana, enn og aftur. Í þetta sinn var það myndin The Magdalene Sisters sem varð fyrir valinu. Ekkert review frekar en fyrri daginn. Mæli með henni. Ef þið ætlið að sjá einhverja af þessum bresku myndum í bíó þá verður það að vera fyrir 14. september, því þá eru þessir bresku dagar búnir.

þriðjudagur, 9. september 2003

Islande deux points

Um helgina fórum við í sumarbústað. Þar lærðum við, skipulögðum hina margrómuðu rútínu og lágum smá í leti. Þetta var notaleg helgi. Það varð nú ekkert úr neinum gönguplönum enda ekki hægt að gera allt í einu.

Í gær var skóli og áðurnefnt skipulag prufukeyrt með ágætum árangri. Í gær var líka fyrsti dæmatíminn í reikningshaldi. Í morgun var það gymmið, sneru líkamsmeiðingarnar fyrst og fremst að kassa og baki. Alltaf gaman á þannig æfingum.

Jæja ekkert mas! Fyrir þá sem vita af biðlistamálum okkar þá erum við farin úr hinu þjóðlega sæti 16 og komin í númer 14! Jibbíjíha!

fimmtudagur, 4. september 2003

Rútína í mótun

Í gærkvöldi heimsótti ég Pétur afa og spjölluðum við í smástund, kíktum á prentarann hans og sendum ímeil. Svo varð ég að þjóta klukkan tíu því ég hef einsett mér að vera kominn í ró klukkan hálfellefu á kvöldin.

Það gekk svona c.a. í gærkvöldi enda vaknaði ég sprækur sem lækur u.þ.b. korter til tíu mínútur í sex og var fljótlega tilbúinn í slaginn eftir lýsi og ab mjólk. Þá var skundað í gymmið þar sem við tókum rækilega á því bæði tvö og nú er ég, samkvæmt áætlun, á bókhlöðunni að læra (reyndar er Ásdís að læra en ég að blogga).

miðvikudagur, 3. september 2003

Dansi, dansi!

Þetta var nú meira fjörið! Ég mæli með þessu við alla. Við lærðum grunnspor og takta í foxtrot, djæf og vals. Tróðum lítillega á tám hvors annars, þurftum stundum að byrja aftur en gekk alveg ótrúlega vel þess á milli.

Það góða við svona dans er að maður hugsar ekki um neitt annað á meðan. Maður bara dansar og dansar og reynir að ná sporunum. Að vísu var ég svo einbeittur fyrst að ég kramdi höndina á Ásdísi og tók líka allt of stór skref, en svo lagaðist þetta.

Fram, fram, stutt, stutt! Aftur, aftur, stutt, stutt! Rokk, rokk, stutt, stutt! Þarna er smá sýnishorn af foxtrot en ef maður kann hann getur maður víst þóst kunna fullt af öðrum dönsum með eilitlum stílbrögðum. Það kemur áreiðanlega síðar.

Djæf er svolítið erfiðara að útskýra í svona bloggi enda voru þar ýmsir snúningar og hnykkir, Ásdís tók meira að segja svona bíómyndasnúninga fram og aftur. Í lokin til að róa okkur var tekinn kassavals sem er ósköp þægilegur. Að loknum danstíma var svo rúllað beint heim enda verður maður lúmskt lúinn af þessu tjútti.

þriðjudagur, 2. september 2003

Samkvæmislyftingar og kraftdansar

Undanfarna tvo morgna höfum við Ásdís mætt í gymmið fyrir skóla. Þetta finnst mér gefa góða raun og er að pæla í að halda þessu áfram.

En við erum nú aldeilis ekki bara í gymminu. Það hefur verið nóg að gera í skólanum, sem er hið besta mál, og svo ætlum við að gerast bæði menningarleg og heilsusamleg í kvöld og skella okkur á dansnámskeið.

Það var nefnilega þannig að við höfðum einhvern tíma í fyrndinni talað um að það gæti nú verið gaman að kunna dans en svo var ekkert framkvæmt og ég beið bara eftir því að danssporin kæmu til mín, kannski finn ég galdraskó. Ég held að Ásdís hafi ekki trúað á þannig bull því hún bara skráði okkur á þetta dæmi.

Mér líst alveg frábærlega á þetta og hlakka mikið til. Lyftingar og dans eiga einmitt betur saman en margan grunar. Því ég man ekki betur en að Arnaldur, vinur minn, hafi notað ballett sem hluta af undirbúningi sínum fyrir vaxtarræktarmót :)