miðvikudagur, 29. desember 2004

Þetta finnst mér kúl!

Hafið þið velt fyrir ykkur um hvað hið frábæra lag majahímajahamajahíhí er um? Já ég veit um hvað það er og ég get meira að segja sungið með á rúmensku, geri aðrir betur! Eins og svo margir er ég ekki júrópoppari en þetta lag er þess eðlis að það er ekki hægt að hafa neitt á móti því þar sem það er eitthvað svo ofsalega glaðlegt. Eftir smá rannsóknir á netinu fann ég myndbandið og link á textann þar sem lausleg þýðing á ensku fylgir með svo fólk er öruggt um að það er ekki að syngja eitthvað ljótt.

sunnudagur, 26. desember 2004

Skemmtileg afmælisveisla!

Í dag átti Ásdís afmæli og héldum við kaffiboð í tilefni af því. Hér var því glatt á hjalla í allan dag og fram á kvöld. Í boðinu gerðist kraftaverk sem ekki á sér nein fordæmi og langar mig að deila því með lesendum. Þannig var að við undirbúning veislunnar voru keyptir nokkrir mygluostar þar sem stór hluti gestalistans er af þeim kynstofni er til ostaunnenda telst. Ostarnir hurfu ofan í gesti en þó aðallega mig! Ég bara skil ekki hvað hefur gerst, ég hef alla tíð álitið mygluosta skemmdan mat en nú er öldin aldeilis önnur. Kannski útslagið hafi verið að bæta rifsberjasultunni við eða kannski var bara svona ofboðslega gaman að allir fordómar fuku út í bláinn og osturinn bráðnaði í harmóní við hina mögnuðu stemningu. Hvað sem það var þá ætla ég að prufa aftur.

laugardagur, 25. desember 2004

Gleðileg jól!

Við óskum öllum til sjávar og sveita (allra landa) gleðilegra jóla.

fimmtudagur, 23. desember 2004

Nostradamus

Spádómur minn um að ég yrði búinn þegar prófin væru búin rættist. Í gærkvöldi ákvað ég að stilla ekki vekjaraklukku og svaf til hálfþrjú í dag. Það var gott. Síðan þá hefur jólaundirbúningurinn verið aðalverkefnið og erum við Ásdís búin að skúra, skrúbba og bóna alla íbúðina. Það er svo fínt hérna að ég held að Monica úr þáttunum um vini mætti hafa sig alla við til að slá þessu við.

mánudagur, 20. desember 2004

Geispigeispi

Nú er svo komið að áhrifa ofurkaffisins gætir ekki lengur, tel ég því að mál til komið að leggjast til hvílu. Myndi þannig mál kallast beðmál? Bara að pæla, alltaf gaman að því. En hvað sem það kallast þá er kominn tími á að sooofa, það er gott að sofa.

sunnudagur, 19. desember 2004

Ef einhver skyldi hafa hikstað á því hvað það er að vera stuðmaður þá er fín mynd hérna á stuðmenn.com auk skilgreiningar.

Stuðmaður

Ég sit hérna í VR2 og læri og læri. Á morgun í hádeginu eru prófin búin. Ég sem ætlaði að gera svo margt eftir prófin en þegar það var þá vissi ég ekki að þegar þau væru búin þá yrði ég það líka. Nú man ég hvers vegna námsmenn eru sendir í jólafrí, af því að þeir eru ógeðslega þreyttir.
Lesendur eru nú vafalítið farnir að undra sig á því hve hrífandi og orkumikill titill fylgir jafn þreyttri færslu. Ástæðan er sú að í hausnum á mér hringlar gamalt lag með Stuðmönnum og textinn í viðlaginu er: hann er kominn að niðurlotum.
Nú er kaffið mitt reyndar farið að kikka inn svo heilinn á mér hefur skipt um lag og nú er það: Íslenskir karlmenn eru sko alls engar gungur, íslenskum karlmönnum vefst ekki tunga um tönn. Því fer sem fer!

Hehe! Nú hef ég ekki meiri tíma í blogg bara meira kaffi og meira reikningshald... Bring it on!

laugardagur, 18. desember 2004

Segðu mér brandara!

Leigubílstjóri tók farþega uppí og átti að aka honum á ónefndan stað. Þeir voru komnir eitthvað áleiðis þá pikkaði farþegin í öxlina á leigubílstjóranum og ætlaði að segja eitthvað, nema hvað bílstjórin missti stjórn á bílnum keyrði utaní strætó og endaði uppá gangstétt hríðskjálfandi.
Farþeginn var svo miður sín og afsakaði sig í bak og fyrir og þá segir leigubílstjórinn þetta er ekki þér að kenna þetta er fyrsti dagurinn minn sem leigubílstjóri. Nú og hvað vannstu við áður spurði farþeginn. Leigubílsstjórinn: ég keyrði líkbíl í 20 ár.

***

Ameríkani var í heimsókn í London, hann stendur og horfir upp á heljarinnar háhýsi. Einn af heimamönnum gengur framhjá og kaninn gat ekki stillt sig um að grobba sig svolítið, hann segir: Í USA höfum við líka svona háhýsi, bara 3x stærra. Hinn svarar: Það kemur mér svosem ekkert á óvart, þetta er geðveikraspítalinn.
***

Kona nokkur kemur inn í apotek og biður um Arsenik. Og hvað ætlaru að gera við það ?"spyr apotekarinn. Ég ætla að gefa manninum mínum það því hann er byrjaður að halda framhjá mér". Ég get ekki selt þér Arsenik til þess" segir apotekarinn jafnvel þó hann sé farinn að halda fram hjá þér. Þá dregur konan upp mynd af manninum sínum í miðjum samförum við konu apótekarans. Ó" segir apotekarinn "ég gerði mér ekki grein fyrir því að þú værir með lyfseðil!
***
Siggi litli fékk að vita það hjá einum vini sínum í skólanum að allt fullorðið fólk hefði eitthvert stórt og mikið leyndarmál og það væri mjög auðvelt að nota það til að kúga úr því fé bara með því að segja: Ég veit allan sannleikann! Siggi litli ákvað að fara heim og prófa þetta. Þegar hann kom heim hitti hann móður sína og sagði við: Ég veit allan sannleikann! Móðir hans rétti honum tvöþúsundkall og sagði: Ekki segja pabba þínum.
Siggi var mjög ánægður og gat varla beðið eftir að pabbi hans kæmi heim. Þegar Jónas kom heim dró Siggi litli hann afsíðis og sagði: Ég veit allan sannleikann! Jónasi varð hverft við, rétti syni sínum tvo þúsundkalla og sagði: Ekki segja mömmu þinni.
Nú var Siggi litli svakalega ánægður með sjálfan sig og ákvað að reyna þetta aftur á næsta fullorðna sem hann hitti. Rétt í þann mund kom bréfberinn með nokkra reikninga og Siggi litli sagði við hann: Ég veit allan sannleikann! Bréfberinn lagði umsvifalaust frá sér töskuna, breiddi út faðminn og sagði: Komdu þá og knúsaðu hann pabba þinn!

***

Tveir hommar voru á rölti í hljómskálagarðinum um miðja nótt. Þeir sáu gamla konu og réðust á hana. Á meðan einn hélt henni niðri lagaði hinn á henni hárið.

***

Það voru einu sinni tvær appelsínur að labba meðfram á þegar önnur þeirra datt út í ána. Þá kallaði hún á hina appelsínuna: "Fljót, fljót, skerðu þig í báta."

***

Síðasta vetur, þegar hráslegalegt hafði verið um hríð, ákváðu hjón ein að flýja vetur konung í viku og pöntuðu sér ferð suður um höf. Þannig atvikaðist að konan þurfti að fljúga degi síðar en ætlað var en eiginmaðurinn flaug á undan. Þegar karlinn er kominn á hótelið rífur hann upp ferðatölfuna og skrifar strax tölvupóst til konu sinnar. Ekki vildi betur til en svo að hann misritaði einn staf í addressunni og lenti bréfið hjá ekkju einni sem nýbúin var að jarðsetja sinn heittelskaða. Ekkjan, sem rétt var búin að jafna sig eftir athöfnina, var í þann mund að líta yfir samúðarkveðjur þegar bréfið barst. Þegar sonur ekkjunar kom heim lá hún í yfirliði fyrir framan tölvuna og þetta stóð ritað á skjáinn: Elskan, Er kominn heill á húfi. Er búinn að kynna mér allar aðstæður og gera allt klárt fyrir komu þína á morgun. Óska þér góðrar ferðar og bíð þín með óþreyju. Ástarkveðja, Þinn eiginmaður.
P.S. Fjandi heitt hérna niður frá.

***

Kona nokkur hélt fram hjá manni sínum á daginn meðan hann var í vinnu. Dag einn er konan í rúminu með elskhuganum þegar húsbóndinn á heimilinu kemur óvænt akandi heim að húsinu. Konunni brá að sjálfsögðu í brún og skipar elskhuganum að grípa fötin sín og hoppa út um gluggann. Elskhuginn lítur út um gluggann og segist ekki geta farið út því það sé grenjandi rigning. Ef maðurinn minn sér okkur hérna drepur hann okkur bæði, segir konan. Elskhuginn hefur því engin önnur ráð en að hoppa út um gluggann og hraða sér á brott frá húsinu. Þegar hann kemur út á götu lendir hann í flasinu á hóp af skokkurum. Hann ákveður að slást í hópinn þótt hann sé nakinn því hann vill ólmur komast óséður frá húsinu. Hinum hlaupurunum var að sjálfsögðu starsýnt á nakta manninn og einn þeirra spurði hvort hann hlypi alltaf nakinn. "Já," sagði hann, "það er svo notalegt að láta ferskt loftið leika um hann meðan maður er að hlaupa." "En hleypur þú alltaf með fötin undir hendinni?" spurði skokkarinn. "Já, svo ég geti klætt mig þegar ég er búinn að hlaupa, áður en ég tek strætó heim," sagði sá nakti. "En hleypur þú alltaf með smokk?" spurði hlauparinn. "Nei, nei, bara þegar það er rigning."

***

Og einn í lokin sem er viðeigandi svo rétt fyrir jólahátíðina: Tveir prestar eru að tala saman. Nr. 1: Það er svo rosalegur músagangur í kirkjunni okkar að þetta er orðið feiknarlegt vandamál. Nr. 2: Svona var þetta líka hjá okkur þangað til að ég fann upp á því að skíra allar mýsnar og urðu þær þar með aðilar að þjóðkirkjunni... núna koma þær bara í messu á aðfangadagskvöld.

föstudagur, 17. desember 2004

Sögustund

Í nútímanum kannast fjölmargir við að hafa einhvern tíma átt í vandræðum með tölvur. Hættið nú að væla yfir því og kíkið á þessa sagnfræðilegu heimildarmynd um það hvernig mannskepnan hefur alltaf átt í vandræðum með tæknina.

Nú líða dagarnir hratt

Undanfarna daga hef ég hreinlega legið í bókum um lögfræði og hagfræði. Að vísu hef ég tekið stöku hlé til að nærast og ekki spillir að gera það í góðum félagsskap. Nánar tiltekið fórum við Ásdís á miðvikudaginn með pabba og Pétri afa á Næstu grös og fengum okkur hnetusteik með öllu tilheyrandi. Svona smá jólaþjófstart. Ég er ekki frá því að ég sé ennþá saddur eða skyldi það vera síðan í gær þegar ég fór úr Holtó eins og stríðalinn jólagrís eftir að veisluföng höfðu verið borin í mig í lange baner. Já ef einhver skyldi ekki vera með það á hreinu þá er mjög gott að vera ég :)

mánudagur, 13. desember 2004

Þetta er ekki stúfur

Ég hefði gaman af því að sjá hvernig sá sem teiknaði þennan fíl myndi gera úlfalda úr mýflugu. Bara svona að pæla.

Menningarleg markaðsfræði

Enn sit ég og les markaðsfræði, er að rifja upp kafla þar sem komið er inn á vægi menningar í samskiptum fyrirtækja. Í þessum kafla er sagt frá vestrænni fulltrúanefnd sem var gerð út af örkinni til þess að koma á samningum við Tævan. Þegar þangað var komið færðu meðlimir hennar þarlendum kollegum sínum grænar derhúfur.

Þeir komust fljótlega að því að móttökunefndin var ekki sú líflegasta en kannski var það af því að mánuði síðar áttu að vera kosningar og einkennislitur mótframbjóðendanna var einmitt grænn. Sjálfsagt hefði slík móðgun verið afsakanleg þar sem um óviljaverk var að ræða og ekki hægt að ætlast til þess að fulltrúanefndin vissi að Framsókn væri illa séð um allan heim.

Þó hefur tævönsku nefndinni sjálfsagt reynst erfiðara að horfa framhjá þeirri rótgrónu hefð meðal Tævanskra karlmanna að klæðast grænu ef eiginkonan hefur verið þeim ótrú. Í skýrslu fulltrúanefndarinnar kom fram að ekki væri vitað hvað varð af grænu derhúfunum og að ferðin hefði aukið mjög á skilning þeirra á hve ólíkir menningarheimar geta verið.

sunnudagur, 12. desember 2004

Smá moli

Hér koma skemmtilegar skammstafanir fyrir nokkra þjóðfélagshópa úr markaðsfræðinni.
1. yuppies = young urban professionals
2. sloppies = slightly older urban professionals
3. yummies = young upwardly mobile mommies
3. DINKY = dual income, no kids yet
4. DEWK's = dual earners with kids

Mér finnst leiðinlegt fyrir grey yuppies hópinn að verða sloppies, hlýtur bara að vera lífsstíllinn.

Öðruvísi mér áður brá

Undanfarna daga hefur lærdómur verið í hávegum hafður og jafnvel svo mjög að svefntími hefur hliðrast meira en góðu hófi gegnir. Núna er ég að fara að sofa og kalla ég þetta snemmt en hefði einhver spurt mig fyrir tveimur vikum hefði mér þótt þetta seint. Það er nú einu sinni svona í upplestrarfríinu þegar ringulreiðin ríður rækjum og stúdentarnir ríða í böðum eftir að þreyja prófin.

fimmtudagur, 9. desember 2004

Einvalalið katta

Ég er búinn að velja þrjár sætustu kattamyndirnar úr síðasta bloggi. Þær voru: þessi, þessi og þessi. En nóg um kettlingakeppnir, ég kveð of fer aftur í bækurnar.

miðvikudagur, 8. desember 2004

Fyrir þau ykkar sem eruð eins og ég og hreinleg eeeeelska ketti þá mæli ég með þessari síðu. Úpps, verð að fara að læra.

Standa sig í stykkinu

Baldur er alltaf svo duglegur að blogg - kannski ekki miðað við suma - en svona miðað við mig svo mér fannst ég alveg tilneydd til að gera eitthvað í málunum og láta ykkur sem enn kíkið hingað inn (takk fyrir það!) vita að ég er sko enn á lífi, já bara alls ekki allt fjör úr mér.

Rétt eins og Baldur hef ég nóg fyrir stafni þessa dagana og vinn þessa stundina að einni ritgerð auk þess sem ég þarf að skila einni lokaskýrslu. Bókhlaðan er því orðin manns annað heimili en það kemur ekki svo að sök því Funi bíður manni alltaf góðan daginn og kemur manni í gott skap þegar mætir hingað í morgunsárið. Ég læt þessa stuttu og hnitmiðuðu skýrslu duga í bili, læt þó vonandi heyra í mér áður en árið er liðið.

P.s. Var aðuppgötva þennan nýja fítus hjá Blogger sem gerir manni kleift að lita fyrirsagnir, svo ef ég verð duglega að blogga á þessum tarnatíma verðið þið örugglega að þola nýungagirni mína!

Hæ aftur :)

Jæja nú eru öll verkefnaskil að baki og ekki fleiri kennslustundir á þessari önn. Reyndar eru komnir nokkrir dagar síðan það var allt búið. Það þýðir þó ekki að maður sé bara að slappa af, oonei. Nú er próflestur allan daginn alla daga. Próflestri fylgir aðeins minna af ýmsum þáttum daglegs lífs eins og eldamennsku og í einu slíku tilviki fórum við í Norræna húsið og fengum okkur dýrindis grænmetisböku sem var hreint ekki dýr.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta lengra að sinni og sný mér aftur að reikningshaldinu með hinn ágæta gaur David Bowie í eyrunum. Að þessu sinni varð platan Low fyrir valinu en það væri nokkurn veginn sama hvar ég myndi drepa niður í safni meistarans mér myndi aldrei leiðast.