miðvikudagur, 28. febrúar 2007

Kveðjustundir hafnar

Þá erum við byrjuð að kveðja fólkið hér í Bangalore þar sem starfsnámi mínu líkur núna á föstudaginn.

Í kvöld kvöddum við börnin á munaðarleysingjaheimilinu. Þau tóku á móti okkur með virktum: hengdu á okkur mikla blómakransa og blessuðu okkur með því að bera eld í skál að okkur og setja rauða depilinn á ennið.

Því næst sýndu þau okkur alla hefðbundnu, indversku dansana sem þau hafa verið að æfa undanfarnar vikur. Þau sungu líka nokkur lög. Að þessu loknu heimtaði Fernandes ræðu frá okkur Baldri og við notuðum tækifærið og afhentum krökkunum að skilnaði alfræðibók fyrir börn. Við tókum loforð af þeim að þau myndu ekki rífast og slást um hana en þegar við kvöddum sá ég ekki betur en að þau bitust um bókina.

Fernandes bauð okkur síðan út að borða á fínan, kínverskan veitingastað saman með Elizabethu og einum kennara af heimilinu. Þau færðu mér að gjöf Parker penna fyrir vel unnin störf.

Við áttum skemmtilega kvöldstund á kínverska staðnum, og skondna líka. Við Baldur vorum mjög sátt við val á veitingastað og þótti maturinn bragðast afspyrnu vel (sérstaklega eyrnasveppirnir með sesamfræjunum) en eitthvað fannst Elizabethu maturinn bragðdaufur. Þegar við fengum sítrónu-kóríander súpuna sagði hún að þetta væri eins og vatn á bragðið, græna teið fékkst hún ekki til að prófa og þegar aðalrétturinn var borinn fram varð Fernandes að neyða ofan í hana hrísgrjónarétt. Það eru ekki bara Íslendingar sem eru matvandir!

Uppistand í Bangalore

Einhvern tímann í fyrndinni bjuggum við Ásdís í Danmörku. Fórum við þá stundum á youtube og horfðum á indversk-kanadískan grínista að nafni Russell Peters, verulega fyndinn gaur, og töluðum um að gaman væri að sjá hann live. Það gerðum við svo í dag.

Einhverja hugmynd höfðum við um að hann ætlaði að heimsækja Indland en engu að síður var þetta allt saman tilviljun (vildi til). Einn af Robertsonmönnum, Rob, spurði mig í framhjáhlaupi hvort mig langaði, hann ætti nokkra miða. Hvort ég vildi!

Uppistandið uppfyllti allar væntinar okkar og gekk herra Peters fram af liðinu með klúrheitum á köflum. Einn gekk meira að segja út. Indverjar segja nefnilega ekki orð eins og shit, fuck eða annað í þeim dúr svo sumir brandararnir, t.d. tippastærðar- og Bollywoodklámbrandarar kölluðu fram kinnroða hjá mörgum gestinum.

Nú þegar maður er byrjaður að láta uppistandsdraumana rætast er allt eins hægt að setja markið á Ellen Degeneres. Hver veit nema maður hitti á sjóv með henni í Nepal, svona af tilviljun.

þriðjudagur, 27. febrúar 2007

KiZZ branding

Vinur okkar úr Robertson House, Simon frá Hong Kong, er með eigin rekstur hér í Bangalore. Um þessar mundir er hann að leggja lokahönd á netfyrirbæri sem hann kallar KiZZ.

KiZZ er staður á netinu þar sem fólk getur safnað saman kvikmyndum og tónlist og halað á auðveldan hátt inn á farsíma og lófatölvur. Hugmyndin er að vinir geti á þennan hátt haldið sambandi og skipst á margmiðlunarskrám.Þá getur maður notað KiZZ til að leita að stöðum með þráðlausri nettengingu sem hljómar spennandi fyrir ferðalanga.

Simon bað okkur að hjálpa sér að finna slagorð fyrir KiZZ. Baldur var ekki lengi að semja þessi þrjú, sem mér finnst bara ansi góð:

French kiss is old fashioned, KiZZ is the new kiss
Finally a KiZZ where lipgloss is not a problem
Share the love, KiZZ your friends


Samkvæmt Simoni styttist í "frumsýninguna" á KiZZ, ég bíð spennt.

mánudagur, 26. febrúar 2007

Heim frá Hampi

Á föstudagsmorgun komum við til Hampi eftir þægilega nótt í 2 tyre AC næturlest, loftkældur vagn með tveggja hæða kojum.

Hampi er lítill bær NV af Bangalore, um miðja vegu til Goa, og er talinn helgur meðal Hindúa. Áður var þarna mikið Hindúaveldi, Viaynagara (Sigurborg), byggt upp af tveimur bræðrum. Eitthvað móðguðu þeir víst múslíma og var veldið brytjað niður í löngu umsátri. Wikipedia hefur smáatriðin.

Fyrsta verkefni okkar var að finna gististað sem uppfyllti kröfur okkar um verð og gæði. Eftir smá hótelarölt fengum við snyrtilegt herbergi með baði, fjallasýn og riverview af þakinu. Okkur féll staðurinn allur vel, andrúmsloftið afslappað og laust við tryllta umferðarmenningu Bangalore. Landslagið á þessum slóðum er líka svo skemmtilega samsett: Rauðleitt risagrjót sem minnir á góða kábojmynd, iðagrænar bananaplantekrum, hrísgrjóna- og sykurreirsakrar.

Dæs, er þetta ekki einum of rólegt? Ekkert hasaratriði í kábojmyndinni? Jú við tókum litla ferju (bát með utanborðsmótor) yfir á sem skiptir bænum í tvennt, gengum upp á hól og horfðum á sólina leggjast til viðar. Enn of rólegt? Bíðið bara, næst fórum við á huggulegan veitingastað og fengum að vita að ferjan hættir að ganga eftir sólsetur svo við vorum föst þarna megin árinnar!

Þar sem niðdimm nótt var hvort eð skollin á sögðum við hvort við annað, eins og Íslendingum einum er lagið: þetta reeeeeddast. Við borðuðum því góðan mat í rólegheitum og horfðum á American Beauty, lókalbíókvöld. Desertinn var nokkuð sem kallast Hello to the Queen og samanstóð af ís, crunchy kexi fljótandi í miklu magni af heitri súkkulaðisósu.

Eftir matinn skaffaði þjónninn okkur svo tveimur fylgdarpiltum sem leiddu okkur niður að vaði í ánni. Þegar þangað kom rifu drengirnir af sér buxurnar og gerði ég það sama en bauð Ásdísi á bak. Svo var lagt í göngu á aurugum árbotni í mittisdjúpu vatni. Allt gekk upp eins og í Indiana Jones handriti nema okkur vantaði kindla, svipu og hatt (muna það næst).

Piltana kvöddum við með peningaverðlaunum og eins og eins og oft vill verða vilja allir nærstaddir líka. Þarna var maður sem sagðist vera laganna vörður og í ljósi aðstæðna ætti ég að gefa honum 10 rúpíur fyrir kaffi (mútur). Ásdís tók vel í hugmyndina og sagði honum að hún skyldi tilkynna þessa spillingu og hann gæti drukkið eins mikið kaffi og hann vildi í fangelsinu. Löggimann áttaði sig fljótlega á því að hann hefði hitt ofjarl sinn og gengum við okkar leið.

Ævintýrum okkar var nú ekki alveg lokið því daginn eftir leigðum við reiðhjól og hjóluðum um rústirnar. Hnakkurinn á hjóli Ásdísar var eitthvað misheppnaður og pompaði í sífellu og eftir árangurslausar tilraunir með aðstoð sveitafólks hjóluðum við til baka og létum laga hjólið.

Eftir viðgerð hjóluðum við útum hvippinn og hvappinn. Heimsóttum steina sem kyssast (annar eins og skjaldbaka, hinn eins og belja), minjasafn staðarins, sundlaug drottningarinnar og neðanjarðarhof. Sundlaugin var því miður tóm en neðanjarðarhofið var hins vegar fyllt með rúmlega ökkladjúpu vatni.

Sunnudagsmorgninum vörðum við á Mango Tree, huggulegum stað sem stendur í brekku og er raðað í stöllum niður brekkuna. Þarna sátum við nokkra klukkutíma, drukkum te, kaffi, nýpressaða safa og nutum þess að horfa yfir ánna og dalinn.

Mango Tree er ekki bara spennandi út af þessu, hann skilur sig frá bænum með hjálp bananaplantekru sem maður labbar yfir á leiðinni. Eitt kvöldið stoppuðum við einmitt á þessari plantekru til að skoða stjörnurnar, engin ljósmengun í sveitinni. Bættist í hópinn skemmtilegur heimamaður sem sagði okkur í óspurðum að fyrir svefninn teldi hann gjarnan stjörnurnar og hefði mest komist upp í sex þúsund!

Að morgunchilli loknu gengum við niður að ánni því sunnudagar í Hampi eru bókstaflega laugardagar. Áin var full af baðgestum og minnti helst á Laugardalinn á fallegum degi heima ef frá eru taldir vatnabufflarnir sem tóku fullan þátt í fjörinu. Ekki fórum við í baðið en klifum í staðinn hæð sem veitir útsýni yfir allt svæðið, einn af hápunktum ferðarinnar og auðvitað er hof ofan á hæðinni, nema hvað.

Úr svona ferð er margs að minnast og fljóta nokkrir molar með hér að neðan:
Á minjasafninu þreif skólastúlka í hönd Ásdísar og kyssti hana.

Eitt sinn vatt sér að okkur lymskulegur gaur og bauð marijúana í hálfum hljóðum. Ásdís tæklaði það hátt og snjallt svo allir heyrðu: Marijuana NO! Tóku þau að kallast á eftir það, nærstöddum til skemmtunar. Díler: Marijuana? Ásdís: No!

Fílinn Laksmi, sem býr í þorpshofinu, fóðruðum við með 10 banönum, keypta á 10 rúpíur. Sambýlingar hennar, aparnir, eru hins vegar orðnir matvandir af öllu dekrinu.

Í þorpshofinu varpast skuggi varðturns á vegg, nema skugginn er á hvolfi.

Allir vilja láta taka mynd af sér og fá aur að launum. Grófust var kerling ein sem ekki kunni ensku fyrir myndatöku en eftir myndatöku kunni hún að segja: Fifty rupees. Þá sló ég persónulegt prúttmet og fékk henni eina rúpíu.

Myndir!

fimmtudagur, 22. febrúar 2007

Afmæli Sharmilu

Sharmila, dóttir Elizabethar samstarfskonu minnar, átti 15 ára afmæli í gær. Indverjar eru að sjálfsögðu öðruvísi en Íslendingar með það að þeir halda upp á 14 ára afmæli hennar, þar sem hún var að fylla 14 ár og byrjar nú á sínu fimmtánda. Ég get ekki sagt að ég hafi skilið þessa hugsun.

Við fórum seinni part dags niður í Masard, hittum þar de danske piger og saman fórum við upp í Ashton Town þar sem Elizabeth býr með syni og dóttur. Þar sem maðurinn hennar stakk af fyrir sjö árum búa þau við ótrúlega þröngan kost, eða í ogguponku herbergi, tíu fermetrar myndi ég segja. Þar deila þau einu rúmi, hafa einn skáp til umráða og tvær gashellur auk búsáhalda. Reyndar eru þar líka tvö sjónvörp en það er í takt við það sem gengur og gerist hér, fátækasta fólkið leggur mesta áherslu á að eignast sjónvarp.

Okkur heiðursgestum var vísað á besta (og eina) setustaðinn: rúmið. Fyrst bar afmæisbarnið fram coca cola í stálglösum en fékk sér ekki sjálf. Því næst fengum við pulla hrísgrjónarétt og sterkan pottrétt. Í honum voru það sem Baldur kallar rauða djöfla og skiptumst við fjögur á að taka hóstaköst og gráta úr okkur augun. Amma gamla sem mætt var á svæðið hafði gaman af að horfa á þetta skrýtna fólk sem ekki gat borðað almennilegan mat á sómasamlegan hátt.

Rétt áður en afmæliskakan var borin fram fylltist litla rýmið af ættingjum. Síðan var stæðilegu kerti stungið í kökuna, það tendrað og allir tóku til við að syngja afmælissönginn. Þegar því var lokið skar afmælisbarnið litlar sneiðar fyrir gestina sem klíndu hvítu kreminu framan í hana þegar þeir veittu sneiðinni viðtöku. Útlendingarnir fjórir horfðu í forundra á og tóku af mestu kurteisi á móti sínum sneiðum. Hvort sem er tími ég ekki að klína mínu kremi framan í aðra.

Nokkrar myndir má finna í Bangalore albúminu okkar, fyrsta byrjar hér.

miðvikudagur, 21. febrúar 2007

Menningarlöðrungur venst

Við höfum það gott hér í Indlandi. Erum búin að fara í gegnum nokkuð sem ég vil kalla menningarlöðrung frekar en menningarsjokk. Lentum í Mumbai í desember og það var vægast sagt yfirþyrmandi. Fórum svo til Goa og svifum á bleiku túristaskýi í smátíma en svo kom að þeim hluta menningarsjokksins þar sem allt var óþolandi. Þá vorum við komin til Bangalore og höfum stigið hægt og sígandi á þann stað þar sem maður bara er í Indlandi án þess að finnast það frábært eða ömurlegt, semsagt hæf til að njóta reynslunnar.

Fyrst fór í taugarnar á mér að biðraðir væru ekki til, að ég þyrfti að prútta um allt og að ég fengi ómælanlegt magn athygli sölumanna hvar sem ég færi. Nú nýt ég þess að troðast framfyrir annað fólk (engar biðraðir), elska að prútta (stundum niður í 10% af upprunalegu verði) og nýti mér þá athygli sem ég fæ óspart mér til framdráttar. Þetta er semsé allt öðruvísi en kexverksmiðjan, stundum þreytandi en almennt alveg hrikalega gaman.

Í eldhúsinu hjá mér hér í Bangalore býr lítil mús, kakkalakkafjölskylda, nokkrar eðlur (gekkóar), fullt af flugum og a.m.k. tvær tegundir af maurum. Göturnar eru fullar af flökkuhundum og beljum, holræsi og skólp rennur í opnum skurðum og apar reyna reglulega að koma inn til okkar. Þetta er hluti af þeim mun sem er á Indlandi og Íslandi á áþreifanlega sviðinu og alveg ótrúlegt hvað það venst allt saman.

þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Ferð í þorpin

Asha á skrifstofunni býr í litlu þorpi fyrir utan Bangalore. Í þorpinu hennar og þorpunum í kring eru starfræktir sjálfshjálparhópar á vegum Masard. Í dag heimsóttum við Baldur, Maria og Pernille þessi þorp og þessa hópa.

Við byrjuðum á að heimsækja þorpið Chokknahalla. Þar kíktum við á umsjónarmann sjálfshjálparhópsins Dhoddmma og konu hans. Sem við sitjum á yfirbyggðir veröndinni og spjöllum ber skreytta, heilaga belju að garði og heilagan smala hennar. Indversku gestgjafir okkar hlupu til og náðu í ragi bollu og reykelsi: ragi bollunni var stungið upp í beljuna sem góðgæti og reykelsunum var stungið í höfuðfatið hennar til að gera reykin frá þeim heilagan. Síðan skiptust þau á að verða sér út um blessun með því að anda að sér reyknum og láta hann umlykja sig.

Fyrst reykurinn frá reykelsinu verður heilagur við það að komast í snertingu við beljuna getur maður ímyndað sér hvað annað frá beljunni telst heilagt. Ég get sagt ykkur það að hlandið úr henni telst til heilags vatns. Því varð úr að þegar beljan byrjaði að míga á gólfið gerði smalinn sér lítið fyrir og stakk höndinni undir bununa og tók að skvetta hlandinu á mig og dönsku stelpurnar. Í bland við skelfilega undrun og pirring voru viðbrögð mín að vernda myndavélina mína og stökkva upp á næsta bekk, hrista síðan höfuðið af offorsi og segja upp á hindi: Neineineinei. Grey smalinn, hann var agndofa á þessum útlendingum sem fúlsuðu við heilögu vatni.

Baldur slapp blessunarlega við allt pissiskvett því hann var einmitt sjálfur að skvetta vatni annars staðar. Við Pernille og Maria áttum hins vegar bágt með okkur, á milli hlátursrokanna reyndum við að finna hlanddropana og þurrka þá af okkur. Ég fékk einn á kinnina sem ég veit ekki hvort ég náði að þurrka eða ekki. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið hátindur ferðarinnar og það sem mun sitja í minni það sem eftir er.

Annars var ferðin öll frábær og eftirminnileg. Mér fannst æðisleg upplifun að tala við konurnar í sjálfshjálparhópnum og heyra um þeirra viðhorf til stöðu kvenna á Indlandi. Ein þeirra var mjög á móti illum tungum og slúðri sem að hennar mati er notað sem stjórntæki á konur í þorpinu. Elizabeth frá skrifstofunni var alveg á móti því að börn bæru aðeins eftirnafn föður síns og varð mjög heilluð þegar hún heyrði af því að á Íslandi færðist það í vöxt að börn bæru eftirnafn beggja foreldra sinna. Á sama tíma fannst þeim flestum ótrúlegt að heyra að öll værum við útlendingarnir fædd utan hjónabands, þeim fannst það bæði fyndi og vandræðalegt.

Af öðru áhugaverðu má nefna litlu verksmiðjuna sem við heimsóttum í þorpinu Chagaliti. Sjálfshjálparhópurinn Namana framleiðir þar papadoum og fengum við að fylgjast með því ferli. Í sama þorpi fengum við líka að sjá safn í krukkum: snákar, leðurblaka, mús og kálfsfóstur í formalíni.

Við enduðum þessa ferði í Bagalur, þorpinu hennar Öshu. Þar fengum við að borða einfaldan síðdegismat sem móðir hennar framreiddi og áður en við kvöddum blessaði Elizabeth okkur með rauðum depli á ennið.

Myndir úr ferðinni, m.a. af heilögu beljunni, eru hér.

mánudagur, 19. febrúar 2007

Kertasturta

Sturtuaðstaðan í gistihúsinu mínu er ferkar fábrotin eins og ég hef áður minnst á. Sturtan virkar ekki svo maður verður að láta sér duga fötubað og sjaldnast er heitu vatni fyrir að fara. Ég hef því þann vanann á að fara í sturtu í Robertson House, þar er nefnilega alltaf heitt vatn og ekkert vandamál.

Þegar ég ætlaði í sturtu í kvöld vildi ljósið hins vegar ekki kvikna, ég varð pirruð (því ég var svo þreytt eftir Mysore ferðina og vildi bara komast í sturtuna mína) og þegar Baldur lét mig fá pínkulítinn kertastubb til að taka með mér inn í niðamyrkrið gerði ég það skartandi ygglibrún.

Ég komst svo að því að kertasturta var einmitt það sem ég þurfti á að halda. Óransgul birtan af loganum lék um herbergið og léði því mjög róandi stemmningu. Ég kom því frísk og glöð úr sturtunni og enn sybbnari en fyrr.

Ég er svo sybbin að ég held varla augunum opnum, ég er svo sybbin að ég stefni á að vera komin upp í rúm upp úr níu og ég vona bara að ég nái að láta eplaolíudropa á koddann minn fyrir svefninn. Þá á maður víst að fá dýpri svefn og vakna útsofinn, eða svo var mér sagt.

Markaðurinn, hæðin og höllin

Við kíktum til Mysore í gær með félögum okkar úr Robertson House, Frakkanum Valery og Kínverjanum Shockey. Mysore (eða Mysuru frá því í nóvember í fyrra) er næststærsta borg Karnataka fylkis og er þekkt fyrir sandviðarreykelsi sem seld eru á markaðnum, hallir og Chamundi hæðina.

Þrátt fyrir að Mysore sé aðeins í 160 km fjarlægð frá Bangalore tók það hraðrútuna tæpa fjóra tíma að koma okkur á milli. Og þrátt fyrir að vera svokölluð non-stop rúta voru stoppin allavegana fimm.

Þegar við komum til Mysore byrjuðum við á því að ganga um markaðinn. Um er að ræða sölubása sem umluktir eru steinbyggðum verslunum og er markaðurinn yfirbyggður á sumum svæðum en þó oftast aðeins með plastdúkum, strigum, bambusmottum eða bómullarklæðum.

Girnilegt grænmeti Litadýrð

Á markaðnum kenndi ýmissa grasa. Á einum stað var ferskt grænmeti til sölu og kúfullar körfur af ferskum, grænum chilli, hvítkáli, blómkáli, tómötum og papríku báru þess merki. Þá hafði gulrótum, kartöflum, tómötum, eggaldini, gúrkum og ertum verið raðað snyrtilega á jörðina og upp við veggi, og stoðir stóðu strigapokar fullir af þurrkaðum, rauðum chilli, ferskum kóríanderfræjum og engifer. Á öðrum stað voru körfurnar fullar af blómum og í básunum unnu menn að því að koma blómum í hina ýmsustu kransa. Enn annars staðar voru það reykelsi, ilmolíur og litir sem glöddu nef og auga.

Skemmtilegast var án efa þegar okkur var boðið af litlum gutta inn fyrir einn básinn til að sjá hvernig reykelsi eru gerð. Á meðan fengum við kynningu frá eldri frænda hans á ilmolíum sem við féllum fyrir og vorum í kjölfarið beðin um að skrifa í gestabók. Eigandinn var með stílabækur merktar ýmsum löndum en engin stílabók var fyrir Ísland svo við kvittuðum fyrir okkur í Finnlandsbókina (hver á Finnlandsbók?!). Við keyptum líka tandoori krydd og sérstaka Mysore karríblöndu og verða kryddin send til Íslands og Spánar hið fyrsta.

Frá markaðnum héldum við upp á Chamundi hæð. Á leiðinni upp var frábært útsýnið úr vagninum yfir sléttur Mysore og sáum við glitta í hina frægu Maharasa höll. Á hæðinni er síðan að finna hindúa hof helgað gyðjunni Chamundeshwari og þar inni er að finna styttu af henni úr skíragulli. Mér fannst hins vegar miklu skemmtilegra að kíta um verð um póstkortum við lítinn snáða og fylgjast með öpunum stela eplahýðinu hans Baldurs, virða fyrir mér fólkið sem hafði rakað af sér allt hárið og fórnað því til gyðjunnar og bera það saman við þá sem létu sér nægja að smalla kókoshnetu á þar til gerða steinhellu. Svo var ekki síðra að sjá hindúa prestin blessa splunkunýja Hondu.

Hljóðfærasalarnir Mysore höllin upplýst

Um kvöldið vorum við fyrir utan Maharasah höllina á slaginu sjö, þá er nefnilega kveikt á fimm þúsund ljósaperaseríunni sem umlykur höllina. Fyrir utan höllina var síðan lúðrasveit hersins að spila og kennari frá nágrenni Mysore útskýrði fyrir okkur að þennan eina dag ársins væri Maharajann í höllinni. Við enduðum síðan á því að fara út að borða á veitingastaðnum Park Lane og í tilefni kínverska nýársins pöntuðum við okkur vorrúllur, hvítlaukskartöflur og Shanghai hrísgrjón og óskuðum Shockey gleðilegs nýs árs á mandarín: Xin nian yu kuai!

Myndir frá Mysore eru hér, endilega kíkið.

föstudagur, 16. febrúar 2007

Nótt Shiva

Í dag er enn ein hátíðin hér í Indlandi. Að þessu sinni er það Maha Shivaratri hátíðin, eða Nótt Shiva. Hins vegar var enginn frídagur í tilefni dagsins, ég var alveg hlessa (harhar).

Asha sæta af skrifstofunni bað um að fá að fara fyrr heim í dag. Hún vildi nefnilega ekki missa af blakkeppninni sem fer fram í þorpinu hennar á þessari hátíð. Um kvöldið sagði hún mér að yrði dansað fram eftir öllu en hún vildi sjálf ekki viðurkenna að hún kæmi til með að taka þátt í því. Henni tókst ekki að sannfæra mig.

miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Apar í rusli

Valentínusardagur! Í dag eigum við Ásdís 6 ára sambúðarafmæli og höfum kosið að verja því innandyra þar sem öfgamenn (Shiv Sena) hafa hótað að grýta og berja unga elskendur sem leiðast á þessum degi Djöfulsins (að þeirra mati). Dagurinn stangast víst eitthvað á við indverskar hefðir. Ég hélt reyndar að ofbeldi gerði það líka en þetta eru sennilega bara veikgeðja tækifærissinnar, hver hannar sitt eigið fangelsi.

GSM og Skype sáu okkur fyrir tengingu við umheiminn þar sem Ólöf amma og Kalli afi skæpuðu okkur og gáfu skýrslu af gangi mála heima auk þess að vara okkur við anti-Valentínusarmönnum. Einnig fengum við símtal frá Geira frænda í Chennai og hlökkum mjög til að heimsækja hann í byrjun mars.

Ekki nóg með símtölin heldur komu líka til okkar kærkomnir gestir og borðuðu áfenga afganga frá kvöldinu áður, apafjölskyldan fékk ananasafklippur í hádegismat. Ég stóðst náttúrulega ekki mátið og myndaði hana í bak og fyrir. Ekki vildu aparnir inn að þessu sinni, sennilega til að verða ekki stimplaðir sem frjálslyndar Valentínusarsleikjur, kapitalískir hippar eða eitthvað þaðan af verra.

mánudagur, 12. febrúar 2007

Bandh

'Holiday tomorrow,' sagði Gary glaður í bragði. 'No, prison,' sagði Simon. 'Holiday you go outside, prison you stay inside.'

Þessi samskipti félaga okkar úr Robertson House fóru fram í gærkveldi og komu til af því að í dag skall loksins á hið langyfirvofandi verkafall. Hér á bæ ganga slík fyrirbæri undir heitinu Bandh sem merkir lokun. Yfirleitt eru slík verkföll skipulögð af verkalýðsfélögum og stjórnmálaflokkum sem fyrirskipa algjöra stöðvun í samfélaginu til að koma mótmælum sínum á framfæri. Að þessu sinni beindust mótmælin að Tamílum hér í borg því Karnataka fylki og Tamil Nadu deila um not á fljót sem rennur í gegnum bæði fylkin.

Bandh-ið stóð yfir frá sex að morgni til sex að kvöldið og var fólki ráðlagt að halda sig innandyra á því tímabili þar sem búist var við óeirðum. Aðfaranótt verkfallsins svaf ég því í Robertson House til að sleppa við að sitja föst í mínu gistiheimili allan daginn (það er sko miklu skemmtilegra í Robertson House).

Dagurinn leið við lestur og rólegheit. Nú vona ég bara að þessir stofufangelsisdagar séu liðnir.

sunnudagur, 11. febrúar 2007

Dagurinn sem ekkert varð úr

Klukkan níu í morgun vorum við Baldur mætt fyrir utan Mittel Towers. Á döfinni var að kíkja í Bandipur þjóðgarðinn sem liggur suður af Bangalore með Fernandes, Mariu og Pernille.

Við biðum í rétt tæpan einn og hálfan tíma eftir þeim. Fyrst sátum við hjá blómabeðunum, síðan stóðum við upp til að hreyfa dofna liði og loks settumst við á tröppur í sólinni til að verma okkur eftir setuna í skugganum.

Loksins mættu þau á svæðið og höfðu þá ástæðu fyrir seinheitunum. Pernille var veik og þau höfðu drifið sig með hana á sjúkrahúsið. Eins og Fernandes er einum lagið hafði hann ekki símanúmerið mitt meðferðis þó ég væri búin að láta hann fá þetta fyrir svona tilvik (arg).

Þar sem Pernille varð að fara heim og leggjast fyrir datt ferðin í þjóðgarðinn upp fyrir. Í staðinn skutlaði Fernandes okkur þremur sem eftir sátu upp í Forum, stærstu verslunarmiðstöð Bangalore. Þar fengum við okkur að borða (Masala dosa), skoðuðum í búðarglugga og kíktum í bókabúð að sjálfsögðu.

Þegar heim var komið versluðum við í Thom's bakery, borðuðum samósur og elduðum spagettí með pastasósu. Á degi sem mikið varð að engu væri einkar viðeigandi að horfa á snilldarmyndina Much Ado About Nothing en það er einmitt það sem við ætlum að gera.

föstudagur, 9. febrúar 2007

Legið yfir kortum

Indlandsferðin var skipulögð í dag. Við komum okkur vel fyrir við þunglamalega viðarborðið í Robertson House, dreifðum úr Indlandskortinu og flettum upp í Indlandsbókinni okkar.

Þegar dvöl okkar í Bangalore lýkur í byrjun mars byrjar bakpokaferðalagið okkar. Þó svo að mottóið okkar sé að skipuleggja sem minnst verður maður að vita í hvaða átt skal stefna næst og svoleiðis skipulagsvinnu er gott að klára þegar maður hefur fasta búsetu og gott viðarborð.

Gróflega áætlað höldum við austur til Chennai eftir Bangalore, síðan í suður og loks í norður til Himalayafjallanna. Miðað við alla áfangastaðina á leiðinni getur ferðalagið um Indland tekið allt að þremur mánuðum. Það mætti ljúga því að mér að þessi skipulagsvinna hafi tekið þrjá mánuði, svo lengi lágum við yfir kortunum. Hluti af ástæðunni liggur í því að við vorum alltaf að leita að fyndnum bæjar- og borgarheitum. Leitin bar ágætan árangur, eins og best sést hér að neðan:

Mandla í Madhya Pradesh
Panna í sama fylki
Mandsaur í sama fylki
Latur í Maharashtra
Washim í sama fylki
Banka í Bihar
Punch í Jammu Kashmir
Lucknow í Uttar Pradesh

fimmtudagur, 8. febrúar 2007

Joyeux Anniversaire!

Í dag á Valery herbergisfélagi minn afmæli. Í hógværð sinni gerði hann mjög lítið úr þessu svo við Ásdís gripum til okkar ráða: Út í búð að kaupa muffu og pistasíumjólk og redda kerti. Kræsingarnar voru svo bornar inn undir íslenskum afmælistónum. Féll í góðan jarðveg.

miðvikudagur, 7. febrúar 2007

De danske piger

Við ýmsu bjóst ég í Indlandi en ég bjóst alls ekki við að fá tækifæri til að æfa dönskuna mína hér í Bangalore. Örlögin höguðu því hins vegar þannig að tvær danskar stelpur komu um daginn til Bangalore til að stunda starfsnám í gegnum MASARD.

Dönsku stelpurnar heita Maria og Pernille og þær stunda nám í félagsráðgjöf við háskóla í Árósum. Þær ætla að vera í Bangalore næstu fimm mánuði, aðallega á munaðarleysingjahælinu og í slömmunum.

Við hittum de danske piger í dag. Maria átti 24 ára afmæli og í tilefni af því var haldin afmælisveisla í Ashanilaya.Við fengum snakk og gos, súkkulaðiafmælisköku með Dannebrog og fórum í leik með börnunum þar sem við sungum á dönsku. Ánægjulega súrrealísk upplifun, fer ekki ofan af því.

mánudagur, 5. febrúar 2007

Send heim

Ég mætti tiltölulega seint til vinnu í dag, rétt upp úr tvö og var komin heim rétt fyrir þrjú. Ég var varla fyrr komin en ég var send aftur heim og þá getur maður sagt: betra heima setið en af stað farið.

Asha á skrifstofunni útskýrði fyrir mér á sinni óskýru ensku hvernig í málunum lá. Ég fékk vitaskuld enga heildstæða mynd af því en skyldist á henni að allar skrifstofur væri í óða önn að senda starfsfólk sitt heim vegna yfirvofandi verkfalls. Og svo átti þetta verkfall á einhvern hátt að tengjast orku og vatni en ég fékk engan botn í það.

Þegar til kastanna kom varð ekkert úr þessu verkfalli þann daginn en það er enn yfirvofandi. Reyndir menn úr borginni eins og Simon í Robertson House segir að yfirleitt sé allt svo rólegt í borginni. Hins vegar erum við nú þegar búin að lenda í uppþoti og óeirðum og bíðum núna spennt eftir að upplifa verkfall á indverska vísu.

sunnudagur, 4. febrúar 2007

Brosað allan hringinn

Við áttum yndislegan gærdag. Við kíktum á uppáhaldsstaðinn okkar hér í Bangalore, bókabúðina Crosswords og eyddum þar hátt í þremur tímum. Svoleiðis leiðir náttúrulega bara til eins: maður kemur út klifjaður.

Bækurnar sem ég keypti mér eru ægifagrar og spennandi: The Brooklyn Follies eftir Paul Auster, Girls in Pants eftir Ann Brashares, The Name of the Rose eftir Umberto Eco, Saving fish from drowning eftir Amy Tan og síðast en ekki síst The Water Babies eftir Charles Kingsley. Baldur keypti sér bókina Thinking and Growing Rich eftir Napoleon Hill.

Eftir þetta fórum við í verslunarmiðstöðina Garuda og fengum okkur Subway. Það var svo gott! Hver hefði trúað því að nýbakað brauð með fullt af fersku grænmeti og góðu sinnepi gæti braðgast svona vel? Til að fagna því að hafa boðið bragðlaukunum upp á nýmeti á borð við Subway fengum við okkur í eftirrétt sneið af mocca ostaköku og pinacolada íste með. Eftir svona bæjarferð brosir maður allan hringinn.

föstudagur, 2. febrúar 2007

Þjófóttur bréfberi

Um þessar mundir eru íslenskir bankar að taka upp notkun svokallaðra auðkennislykla og var Fríða vinkona okkar svo almennileg að senda okkur slíkan í pósti. Í dag kom svo umslag frá bankanum, vííí, en ekki kemst maður langt á umslagi. Umslagið var semsé opið og lykilslaust.

Kannski er þetta eitthvað öðruvísi en annars staðar. Ódýrt vinnuafl gerir mögulegt að bera fyrst út umbúðirnar og svo innihaldið. Ég geri því ráð fyrir að einhvers staðar í Bangalore sé nú bréfberi að reyna að læra á nýja USB straujárnið sitt. Vonandi kemur það í góðar þarfir.

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

Frídagur trúaðra

Ég fékk frí í vinnunni í dag. Málið er bara að ég man ekki af hvaða tilefni. Fernandes sagði mér ástæðuna en núna man ég ekki hvort það er frídagur meðal hindúa eða múslíma. En það skiptir engu máli, ég fékk frí jafnvel þó ég sé ekki hindúi eða múslími, ég er ekki einu sinni í Þjóðkirkjunni hvað þá meir.

Ég lét ekki segja mér það tvisvar að eiga frídag. Ég eyddi deginum í að horfa á myndina Hannah and Her Sisters og pantaði mér margarítu frá Pizza Hut. Fleiri svona trúardaga takk.